Fara í innihald

Margrét Valdimarsdóttir mikla

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Margrét mikla)
Gröf Margrétar í Hróarskeldudómkirkju
Margareta,Roskilde, Anne Marie Carl-Nielsen

Margrét Valdimarsdóttir mikla (135328. október 1412) var drottning Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar og stofnandi Kalmarsambandsins, sem sameinaði Norðurlöndin. Í Danmörku er hún oft kölluð Margrét 1. til aðgreiningar frá núverandi drottningu en hún taldist aldrei eiginlegur þjóðhöfðingi þótt hún stýrði ríkjunum í raun um langt skeið og væri valdamesta kona Evrópu. Hún var stundum kölluð „Semíramis norðursins“.

Margrét var dóttir Valdimars 4. Danakonungs. Tíu ára að aldri var hún gift Hákoni 6. Noregskonungi, sem var rúmum 10 árum eldri. Árið 1370 eignuðust þau soninn Ólaf og þegar Valdimar konungur dó 1375 tókst Margréti að fá hann útnefndan konung þótt Valdimar hefði verið búinn að útnefna annan dótturson sinn, Albrekt 3. af Mecklenburg, sem hafði orðið konungur Svíþjóðar nokkrum árum áður, sem erfingja sinn. Hún stýrði sjálf ríkinu í nafni Ólafs og þegar Hákon lést 1380 og Ólafur varð konungur Noregs stýrði hún því ríki einnig. Ólafur dó 1387 og Margrét var þá kjörin ríkisstjóri Danmerkur og Noregs og 1388 einnig í Svíþjóð, þegar Svíar losuðu sig við hinn óvinsæla Albrekt, sem var tekinn höndum og hafður í haldi í sex ár.

Margrét valdi Bogislaw af Pommern, dótturson systur sinnar (systurson Albrekts) sem ríkiserfingja og tók hann í fóstur. Kallaðist hann Eiríkur eftir það. Næstu árin styrkti Margrét stöðu sína og tókst að draga úr völdum ríkisráða og aðalsmanna í ríkjunum þremur. Árið 1397 var efnt til sambandsfundar í Kalmar í Svíþjóð og þann 17. júní var Eiríkur kjörinn konungur Danmerkur, Svíþjóðar (ásamt Finnlandi) og Noregs (og þar með Íslands, Grænlands, Færeyja, Hjaltlands og Orkneyja). Margrét lét völdin formlega í hendur Eiríks árið 1401, þegar hann var 18 ára, en var þó enn virk á bak við tjöldin.

Margrét veiktist snögglega og dó 28. október 1412 um borð í skipi sínu í Flensborgarhöfn og er kista hennar í Hróarskeldudómkirkju.


Fyrirrennari:
Ólafur 3.
Konungur Danmerkur
(13871412)
Eftirmaður:
Eiríkur af Pommern