Breiðholt


Breiðholt er hverfi í austurhluta Reykjavíkur með um 22 þúsund íbúa. Nafnið er dregið af bænum Breiðholt, sem staðsettur var þar sem nú er Skógarsel. Hverfið skiptist í Efra-Breiðholt (Fell, Berg, Hólar), Neðra-Breiðholt (Bakkar, Stekkir, og Mjódd) og Seljahverfi.
Flestar verslanir og þjónusta eru staðsettar í Mjódd en einnig er verslunarkjarni í Efra-Breiðholti sem nefnist Hólagarður. Í Breiðholti eru 5 grunnskólar: Breiðholtsskóli, Seljaskóli, Ölduselsskóli, Fellaskóli og Hólabrekkuskóli og einn framhaldsskóli: Fjölbrautaskólinn í Breiðholti. Þjónustumiðstöð Breiðholts veitir íbúum og starfsfólki í stofnunum margvíslega þjónustu. Í hverfinu eru fjórar kirkjur: Breiðholtskirkja, Seljakirkja, Fella- og Hólakirkja og Maríukirkja.
Meðal annarra stofnana er eitt útibú Borgarbókasafns í Reykjavík sem staðsett er í Menningarhúsinu Gerðubergi. Í Breiðholti er einnig að finna félagsmiðstöðvarnar Miðberg hundrað og ellefu Bakkinn og Hólmasel.
Í hverfinu eru starfrækt þrjú íþróttafélög: Íþróttafélag Reykjavíkur, Íþróttafélagið Leiknir og Sundfélagið Ægir. Breiðholtslaugin er við Austurberg.
Skátafélögin eru Hafernir og Segull.
Saga[breyta | breyta frumkóða]
Þar sem Breiðholt stendur núna stóð bærinn Breiðholt. Þegar Guðni Símonarson, sem hafði búið um langt skeið í Breiðholti, brá búi árið 1922 komu leigumál jarðarinnar nokkrum sinnum til umræðu á bæjarstjórnarfundum, því jörðin var eign bæjarins. Það var síðan ákveðið sama ár að Sveinn Hjartarson bakari fengi jörðina til umráða til þriggja ára.[1]
Breiðholt var um tíma helsta berjaland Reykjavíkurbúa. Þar var einnig seld hagaganga.[2]
Uppbygging íbúðahverfis[breyta | breyta frumkóða]
Íbúðabyggð í Breiðholti í þeirri mynd sem þekkist í dag á rætur að rekja til hins svokallaða Júnísamkomulags verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda sem gert var í júní árið 1964. Í samkomulaginu fólst að í kjarasamningum yrði samið um ýmsar félagslegar umbætur í stað beinna launahækkana. Á þetta reyndi ári seinna þegar erfiðar kjaraviðræður stóðu yfir. Mikill húsnæðisskortur var í Reykjavík og sérstaklega erfitt ástand var á leigumarkaði og bjó margt fólk við erfiðar aðstæður í hrörlegu húsnæði víða um borgina. Úr varð að stjórnvöld, verkalýðshreyfing og atvinnurekendur tóku höndum saman og ríkisstjórnin sendi frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að ráðist yrði í stórfelldar umbætur í húsnæðismálum og byggðar yrðu 1250 íbúðir á næstu 5 árum. Íbúðir í Breiðholti urðu alls um það bil 7600 og því var stór hluti íbúða hverfisins byggður fyrir tilstilli samkomulagsins. Með uppbyggingu Breiðholtshverfisins náðist að útbrýma braggahverfum í Reykjavík og tryggja tekjulágu fólki öruggt húsnæði.[3]
Í Breiðholti hefur þróast blönduð byggð íbúðarhúsnæðis og er þar að finna fjölbýlishús, raðhús og einbýlishús.
Þjónusta[breyta | breyta frumkóða]
- Leikskólar eru 11 talsins
- Skólar eru 6 talsins (5 grunnskólar og einn framhaldsskóli)
- Sundlaugar eru 1 talsins
Afmörkun[breyta | breyta frumkóða]
Í vestur markast hverfið af Reykjanesbraut. Í norður og austur markast hverfið af Elliðaám, syðri kvísl. Í suður markast hverfið af sveitarfélagamörkum Kópavogs.
Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]
- ↑ Í Morgublaðinu 1922 segir að það hafi verið „gegn 1180 króna eftirgjaldi á ári“.
- ↑ Í auglýsingu í Morgunblaðinu árið 1928, segir: Hagaganga fyrir kýr í Breiðholtslandi á að kosta 200 krónur fyrir sumartímann.
- ↑ „Þegar byggt var í Breiðholti“, Morgunblaðið, 26. febrúar 2002 (skoðað 27. júní 2019)
Tenglar[breyta | breyta frumkóða]
- Eggert Þór Bernharðsson, „Íbúðir fyrir fjöldann Geymt 2007-10-13 í Wayback Machine“
- Bragi Bergsson, Uppbygging Efra Breiðholts, Fellapakkið í gettóinu – Sagnir, 1. tölublað (01.06.2004), Bls. 66-73