Hannes Hlífar Stefánsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hannes Hlífar Stefánsson
Upplýsingar
Fullt nafn Hannes Hlífar Stefánsson
Fæðingardagur 18. júlí, 1972
Fæðingarstaður   
Titill Stórmeistari
Stig 2561 (1. júní 2019)

Hannes Hlífar Stefánsson (fæddur 18. júlí 1972) er sjöundi og jafnframt einn fremsti stórmeistari Íslands í skák.

Hans fyrsta stórafrek á alþjóðlegum vettvangi var þegar hann varð heimsmeistari unglinga 16 ára og yngri árið 1987, þá hlaut hann stórmeistaratitilinn árið 1993.

Hannes tók fyrst þátt á Íslandsmótinu í skák, Skákþingi Íslands, árið 1986. Hann varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn árið 1998 og aftur ári síðar, 1999. Hann vann átta sinnum í röð á árunum 2001-2008. Hann vann einnig árin 2010, 2013 (opið mót) og 2019, en þá var mótið opið mót. Hann hefur orðið Íslandsmeistari þrettán sinnum, oftar en nokkur annar. Hann hefur verið duglegur að taka þátt, hann hefur ekki verið með í fimm skipti síðan hann tók fyrst þátt árið 1986, en þá var hann fjórtan ára. Hann hefur keppt 29 sinnum um titilinn.

Sumarið 1990 varð Hannes efstur á alþjóðlegu móti, sem haldið var í fjallahótelinu í Gausdal í Noregi, en þar voru um skeið haldin alþjóðleg mót nokkuð reglulega og fóru margir íslenskir skákmenn í víking þangað. Hannes var efstur með 7,5 vinninga af 9, en næstir komu Kotronias með 7 vinninga, Tsjekhov, Jurtajev, Kovalev og Ernst með 6,5, keppendur voru 88. Þarna náði Hannes sínum fyrsta stórmeistaraáfanga. [1]

Hannes náði öðrum áfanga að stórmeistaratitli á alþjóðlegu móti í Hafnarborg, Hafnarfirði, en þar varð hann efstur með 8 1/2 vinning af 11 mögulegum, en þetta var lokað mót, keppendur voru 12.  [2]

3. áfanganum að stórmeistaratitli náði Hannes svo á ólympíumótinu, sem haldið var sumarið 1992 í Manila á Filipseyjum, en þar tefldi hann sem fyrsti varamaður. Þetta var í fyrsta skipti, sem Hannes tefldi á ólympíumóti og hann náði 3. besta árangri á sínu borði. Hannes hefur ávallt tekið þátt á ólympíumótum síðan þá og eru mótin orðin 14, þar af hefur Hannes tíu sinnum telft á 1. borði. [3][4]

Hannes tefldi fyrst á Reykjavíkurskákmótinu árið 1986, þá var hann á fjórtánda ári. Hann hefur ávallt tekið þátt síðan þá og eru mótin orðin 23. Hannes varð efstur á opna Reykjavíkurmótinu ásamt Pigusov og Zvjaginsev með 7 vinninga af 9 árið 1994 en þátttakendur voru 62.[5] Hannes vann Reykjavíkurmótið árið 2000 með 7,5 vinninga af 9. Næstu menn náðu 6,5 vinningum, en þar á meðal voru Short, Kortsnoj og Grischuk. Þátttakendur voru 76.[6] Árið 2008 varð Hannes efstur á Reykjavíkurmótinu ásamt kínversku stórmeisturunum Wang Hao og Wang Yue með 7 vinninga af 9, en þáttakendur voru 90.[7] Árið 2009 var Reykjavíkurmótið haldið á oddatöluári í fyrsta sinn og Hannes varð efstur með 7 vinninga ásamt Héðni Steingrímssyni, Júrí Kryvorucko og Mihail Marin, en þátttakendur voru 110. Árið eftir eða 2010 varð Hannes efstur á Reykjavíkurmótinu með 7 vinninga ásamt Ivan Sokolov, Júrí Kuzubov og Abhijeet Gupta, þátttakendur voru 104.[8]

Hannes vann sigur á alþjóðlegu móti í Aþenu sumarið 1993. [9] Meðal annarra sigra á alþjóðlegum mótum má nefna: efsta sæti á Kópavogsmótinu árið 1994. [10] Efsta sæti á Friðriksmótinu, afmælismóti Skáksambands Íslands árið 1995, haldið í þjóðarbókhlöðunni í Reykjavík. [11] Hannes endaði í 1. -5. sæti á Politiken-mótinu sumarið 1998 og var úrskurðaður sigurvegari, skv. stigum. [12] Efstur á Lost boys mótinu í Antwerpen, Belgíu árið 1998. [13]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Fyrsti stórmeistaraáfanginn, Gausdal 1990“ (PDF).
  2. „Annar stórmeistaráfanginn, Hafnarborg 1992“ (PDF).
  3. „Besti árangur, sem Ísland hefur náð á Ólympíumóti, fyrri hluti“ (PDF).
  4. „Besti árangur, sem Ísland hefur náð á Ólympíumóti, seinni hluti“ (PDF).
  5. „Hannes Hlífar í 1.-3. sæti á Reykjavíkurskákmótinu“ (PDF).
  6. „Hannes sigrar örugglega á Reykjavíkurmótinu árið 2000“ (PDF).
  7. „Þriðji sigur Hannesar á Reykjavíkurskákmóti“ (PDF).
  8. „Fimmti sigur Hannesar Hlífars á Reykjavíkurskákmóti“ (PDF).
  9. „Hannes vann 7 fyrstu skákirnar í Aþenu“ (PDF).
  10. „Hannes vinnur Kópavogsmótið árið 1994“ (PDF).
  11. „Sigur á Friðriksmótinu 1995“ (PDF).
  12. „Sigur á Politiken 1998“ (PDF).
  13. „Sigur á Lost boys mótinu í Antwerpen 1998“ (PDF).

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]