Hernám Íslands

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Saga Íslands

Eftir tímabilum

Miðaldir á Íslandi
Nýöld á Íslandi
Nútíminn á Íslandi

Eftir umfjöllunarefni

Hernám Íslands var tímabil í sögu landsins frá því þegar landið var hernumið í síðari heimsstyrjöld af Bretum árið 1940 og fram að því að bandarískir hermenn yfirgáfu landið 1947 tveimur árum eftir lok stríðsins.

Ekki kom til átaka vegna hernámsins enda voru Íslendingar hliðhollir bandamönnum í stríðinu. Eftir stríðið gerði ríkisstjórn Íslands varnarsamning við Bandaríkjamenn og gekk í NATO árið 1949. Ísland var hernumið vegna þess að landið var talið hafa hernaðarlegt mikilvægi. Á Norður-Atlantshafi geysaði ótakmarkaður kafbátahernaður og miklar orrustur voru háðar á sjó úti eins og til dæmis Orrustan við Grænlandssund þann 24. maí 1941.

Þegar Bretar hernámu Ísland aðfaranótt 10. maí 1940 voru átta mánuðir frá því að heimsstyrjöldin síðari hófst og á þeim tíma höfðu Þjóðverjar hernumið hluta Póllands og síðan Danmörku og Noreg. Ljóst var að innrás vofði yfir Frakklandi, Belgíu og Hollandi og raunar réðust Þjóðverjar inn í Belgíu, Holland og Lúxemborg sama dag og Ísland var hernumið. Hernám Breta var til að koma í veg fyrir að Ísland félli undir þýsk yfirráð en Þjóðverjar höfðu sýnt landinu töluverðan áhuga á árunum fyrir styrjöldina vegna hernaðarlegs mikilvægis þess í tengslum við siglingar um Norður-Atlantshaf. Ísland hafði lýst yfir hlutleysi og ríkisstjórnin mótmælti hernáminu og neitaði að ganga formlega til liðs við Bandamenn.

Fyrsta verk Bretanna var að handtaka þá Þjóðverja sem á Íslandi voru og senda þá í fangabúðir í Bretlandi. Þann 28. maí 1941 ákvað Franklin D. Roosevelt, forseti Bandaríkjanna, að Bandaríkin skyldu taka við hervörslu Íslands. Stundum er vitnað til þessa tímabils sem „blessað stríðið“ því hernám Breta og svo yfirtaka Bandaríkjanna var það sem kom Íslandi upp úr kreppunni og atvinnuleysinu sem ríkt hafði á Íslandi frá því heimskreppan skall á. Breytingar urðu á lífsháttum Íslendinga. Fólki var skipað að bera á sér persónuskilríki sem því var skylt að sýna hermönnum ef þess var óskað. Aðdragandinn að hernáminu var mjög stuttur eða fjórir dagar.

Hernámið[breyta | breyta frumkóða]

Um fjögurleytið aðfararnótt föstudagsins 10. maí árið 1940 vöknuðu Reykvíkingar við flugvélarhljóð. Þar var bresk herflugvél af herskipinu Berwick á ferðinni sem kom fljúgandi úr vestri en þetta voru ein mestu mistök sem breski herinn gerði í hernámi Íslands. Alls ekki átti að draga athygli að Bretum og sérstaklega ekki þessa tilteknu nótt. Þennan sama morgun urðu svo Reykvíkingar varir við sjö herskip úti á sjó sem stefndu að ytri höfninni.[1]

Staðirnir sem Bretar lögðu mesta áherslu á að ná þegar þeir hernámu Ísland: Reykjavík, Hafnarfjörður og Akureyri, lendingarstaðir flugvéla á Sandskeiði, í Kaldaðarnesi og á Melgerðismelum og hafnaraðstaðan í Hvalfirði.

Klukkan 3:40 var íslensku lögreglunni tilkynnt að bresk herskip hefðu lagt upp að gamla hafnarbakkanum í Reykjavík og var það Einar Arnald, fulltrúi lögreglustjóra, sem brást við fregnunum. Einar bjóst þegar til að fara út í herskipin og tilkynna þeim reglur landsins, en á meðan hann beið kom tundurspillir að hafnarbakkanum og út úr honum komu 746 alvopnaðir hermenn sem tóku stefnuna beint upp í bæ. Þegar þetta er að gerast er klukkan orðin fimm um morguninn og krafðist Einar að fá að vita hvað væri á seyði.[2] Breski ræðismaðurinn John Bowernig neitaði að svara en seinna dreifðu Bretar tilkynningu til Íslendinga og breskur sendiherra fór á fund með íslensku ríkisstjórninni sem mótmælti þessu broti á hlutleysi landsins. Tilkynningin var svo síðar um daginn lesin í útvarpinu ásamt því að forsætisráðherra flutti útvarpsávarp þar sem hann skýrði þjóðinni frá viðburðum dagsins. Bretar lögðu mikla áherslu á friðsamlega sambúð og var hermönnum skyldugt að koma vel fram við Íslendinga.

Það fyrsta sem herliðið gerði var að fara á tvo staði. Fyrst var farið til þýska ræðismannsins Werner Gerlach, sem var í óða önn að brenna ýmsa pappíra þegar bresku hermennirnir komu. Fjölskylda Gerlach og hann voru handtekin og voru færð niður á höfn og þaðan flutt ásamt um 30 Þjóðverjum sem þeir töldu hættulega í fangabúðir í Bretlandi. Bresk hernaðaryfirvöld voru ákaflega tortryggin gagnvart Þjóðverjum á Íslandi og fylgdust vel með þeim. Þeir lokuðu um tíma helstu vegum til Reykjavíkur og tóku á sitt vald helstu fjarskiptastöðvarnar; Loftskeytastöðina, Pósthúsið, Landssímann og Ríkisútvarpið. Byrjuðu á Landsímahúsinu til að loka fyrir allt símasamband við höfuðborgina. Er Bretarnir hertóku Landsímahúsið lá þeim svo á að þeir brutu hurðina upp. Þetta er eina tjónið sem varð í hertöku Íslands. Reykjavík var einangruð og íbúar vissu varla hvað gekk á. Nokkrir bílar höfðu komist út fyrir borgarmörkin áður en Bretarnir lokuðu vegunum og bárust fréttirnar út á land. Viku síðar, eða þann 17. maí, fjölgaði í hernámsliðinu, eða um 3728 hermenn sem byggðu sér bækistöðvar víða um land. Flestir hermannanna voru þó í Reykjavík og nágrenni.[3]

Aðdragandi og lifnaðarhættir[breyta | breyta frumkóða]

Aðdragandinn að hernámi Íslands var mjög stuttur, en þann 28. apríl ákváðu Bretar að hernema landið. Bretar vildu ekki hertaka landið en sáu sér engra annarar kosta völ þar sem þeir sáu ekki fram á að geta fengið Íslendinga í lið með sér um að koma upp bækistöðvum fyrir flugvélar breska flotans á Íslandi. Þessi stutti undirbúningur gerði það af verkum að margt var ekki eins og það átti að vera. Hermennirnir voru í lítilli þjálfun, margir mjög ungir og að prófa vopnin í fyrsta skipti á skotæfingum hér á landi. Margir urðu sjóveikir og er það í raun lán að ekki var veitt mikil mótspyrna hér á landi þegar Bretarnir gengu í land því ekki er hægt að vita hvernig það hefði orðið með þessa óþjálfuðu menn.[4]

Um 2000 hermenn tóku þátt í hernámi Íslands og áttu mikið fleiri eftir að koma til landsins. Áttu hermenn Breta eftir að verða rúmlega 25.000 og var mikil vinna í vændum fyrir þá því íslendingar voru ekki færir um að veita 20.000 hermönnum húsnæði. Innflutningur á bröggum var hafinn um sumarið og voru fluttir yfir 20.000 braggar hingað til lands frá Bretlandi. Breskir hermenn og íslenskir verkamenn byrjuðu að setja saman braggana og í október voru flestir hermennirnir komnir með húsaskjól. Fljótlega hófst svo gerð flugvallar í Vatnsmýri í Reykjavík. Þetta var hluti af bretavinnunni og þeir sem fengu vinnu fengu greitt með einhvers konar ávísunum sem þeir fóru með til herforingja sem leystu þær út hjá herstöðinni.[5]

Urðu þó nokkrar breytingar á lifnaðarháttum Íslendinga á þessum árum. Fullorðnum einstaklingum var sagt að bera á sér sérstök persónuskilríki sem þeim bar að sýna hermönnum ef þess var krafist. Var þetta fyrst aðeins í Reykjavík en árið 1942 urðu allir þeir sem ætluðu að ferðast um mikilvægustu bæina og hafnirnar að hafa þessi skilríki á sér. Var þetta þó aðallega þar sem mesti viðbúnaðurinn var í sambandi við herinn, til dæmis í Hvalfirði. Miklar breytingar urðu einnig á búhögum Íslendinga. Áður var það undantekning ef Íslendingar höfðu samskipti við útlendinga en allt í einu varð allt fullt af útlendum hermönnum. Hefur sú staða sem kom upp á landinu verið „nefnd „tvíbýli“: þ.e. að á landinu byggju í svipinn tvær þjóðir, herinn og óbreyttir Íslendingar.“[6]

Koma hersins þótti börnum virkilega spennandi og ævintýralega og sóttu þau mikið í hermennina sem voru þeim mjög góðir. Gáfu þeim stöku súkkulaði, leyfðu myndatöku og sýndu þeim vopnin. En brottflutningur barna frá Reykjavík og fjölmennustu kaupstöðunum átti sér stað fljótlega eftir hernámið. Fyrsti hópurinn lagði af stað frá Reykjavík 2.júlí. En alls voru 610 börn frá Akureyri, Hafnarfirði og Reykjavík vistuð á 15 sumardvalarheimilum víðs vegar um landið og að auki voru um 3000 börn á sveitaheimilum úti um allt land. [7]

Bretum var mikið í mun að fá Íslendinga á sitt band og var hermönnunum skipað að koma vel fram við Íslendinga.[8] Margir landsmenn vinguðust við hermennina en þegar her og þjóð býr saman verða allaf einhver ósætti. Íslendingar voru ekki búnir að segja skilið við sjálfstæðisbaráttuna og þjóðernisstefnan var þeim meðfædd. Karlar urðu afbrýðisamir út í Bretana sem tóku frá þeim stúlkurnar og auk þess voru sumir vissir um að „ástandið“ myndi ógna þjóðerni Íslendinga.[9] Tóku Bretar fljótlega eftir því að flestir Íslendingar voru fegnir því að það voru Bretar sem hertóku landið en ekki Þjóðverjar og var viðmót Íslendingar yfirleitt betra en þeir höfðu þorað að vona. Einnig lögðu Bretar mikið upp úr því að allt tjón sem breski herinn olli yrði greitt að fullu. Landsmenn voru hvattir til að tilkynna allt tjón og sérstök kvörtunarnefnd var stofnuð hér á landi sem tók við kvörtunum og afgreiddi þær. Í kvörtunarnefndinni sátu bæði fulltrúar Íslendinga og breska hersins og hafði breski herinn umboð til að greiða allar minni háttar kröfur en hærri kröfur urðu að fara í gegnum breska stríðsráðuneitið í Lundúnum.[10]

Bretavinnan[breyta | breyta frumkóða]

Bretavinnan varð til þess að kreppan tók enda hér á landi og það mikla atvinnuleysi sem hafði verið á landinu í all nokkurn tíma tók enda. Engir flugvellir voru á landinu og þar sem breska hernámsliðinu lá á að hefja eftirlit úr lofti sendi breski flotinn strax sveit lítilla sjóflugvéla sem starfaði á Íslandi um sumarið. Einnig huggðust þeir á flugvallagerð í Vatnsmýrinni og reisa upp braggahverfi ásamt öðrum framkvæmdum víðs vegar um landið. En til þess þurftu þeir vinnuafl. Mikið atvinnuleysi hafði geysað á Íslandi og var ástand mjög slæmt. En með komu hernámsliðsins fengu íslenskir verkamenn næg verkefni við að grafa skurði, reisa byggingar, girða, leggja vegi og flugbrautir. Bretar borguðu mun hærri laun en Íslendingar höfðu nokkurn tíman áður þekkt og var því mjög eftirsóknarvert að vinna fyrir Breta. Þar fyrir utan fara Íslendingar að græða á siglingum með fisk til Bretlands. [11]

Atvinnuleysið minnkaði verulega og loks árin 1941-42 var enginn skráður atvinnulaus. Bretavinnan hófst svo að segja strax á hernámsdaginn og ekki leið langur tími þar til flest öll iðnaðarfyrirtæki í Reykjavík og víðar voru að drukkna í verkefnum. Einnig þurfti iðnaðarmenn í braggabyggingar, bílstjórar voru vinsælir og þeir sem kunnu eitthvað í ensku voru ráðnir sem túlkar. Einnig réðu þeir eftirlitsmenn með flugvélaferðum þrátt fyrir að skipverjar og símastöðvarfólk þyrfti að tilkynna alla flugvélaumferð til lögreglu. Þetta ferli krafðist þess að Landsíminn væri opinn allan sólarhringinn, sem hann var. Læknar og hjúkrunarfólk bjó sig undir að taka á móti særðum og skátar stofnuðu sveit til að annast hjálp í viðlögum. Einnig sóttu breskir hermenn mikið í að fá íslenskar húsmæður til að þvo föt og annað og varð Bretaþvotturinn vinsælt starf. Þvotturinn var þó gagnrýndur fyrir „náin“ kynni hermanna við fjölskyldur. Einnig á Bretavinnan þátt í þéttbýlismyndun á Íslandi þar sem herinn vantaði meira vinnuafl en fékkst í Reykjavík og margir sveitamenn flykktust til borgarinnar til að fá vinnu. [12] Á örskömmum tíma hafði kreppan og þetta mikla atvinnuleysi sem Íslendingar höfðu þurft að þola gufað upp og þjóðin hafði aldrei staðið betur fjárhagslega.

Bandaríkjamenn[breyta | breyta frumkóða]

Franklin Delano Roosevelt.
Bandarískt herskip heldur út um Reykjavíkurhöfn í júlí 1941.

Þann 28. maí 1941 ákvað Roosevelt, forseti Bandaríkjanna, að Bandaríkin skyldu taka við hervörslu Íslands,[13] þótt þeir teldust enn hlutlausir í stríðinu, samkvæmt herverndarsamningi sem íslenska ríkisstjórnin gerði við þá 1. júlí. Þar með lauk hernámi Íslands í raun. Það var svo þann 7.júlí 1941 sem Íslendingar gerðu herverndarsamning við Bandaríkin. Fyrstu bandarísku hermennirnir komu svo til landsins stuttu síðar en Bretarnir byrjuðu ekki með skipulagða brottflutninga héðan frá Íslandi fyrr en í desember 1941. Þegar Bandaríkjamenn tóku við vörnum landsins af Bretum sögðu þeir að Bretar hefðu líklegast ekki getað tekið á móti Þjóðverjum ef þeir hefðu gert árás úr lofti því varnir þeirra voru ekki í standi til að taka á móti eins sterkum her og her Þjóðverja. Herverndarsamningurinn eru tímamót í sögu Íslands og í kjölfar hans opnaðist Bandaríkjamarkaður enn frekar fyrir Íslendingum. Með þessum öfluga her kom alls kyns tækni til dæmis má nefna jeppa, gröfur, jarðýtur ofl. sem hafði mikil og varanleg áhrif á neysluvenjur og menningu Íslendinga. Fyrir Breta skipti samningurinn einnig miklu máli því Bandaríkjamenn tóku nú að flytja inn vopn og vörur sem voru ætluð Bretum.[14][15]

Þann 8. maí 1945 lauk stríðinu í Evrópu þegar Þjóðverjar gáfust upp. Síðustu bandarísku hermennirnir yfirgáfu Ísland 8. apríl 1947 í samræmi við Keflavíkursamninginn, sem samþykktur hafði verið á Alþingi árið áður, en Bandaríkjamenn höfðu þó áfram umráð yfir Keflavíkurflugvelli. Ísland gekk í NATO 1949 og urðu talsverðar óeirðir á Austurvelli í kjölfarið. Árið 1951 var svo gerður nýr samningur við (NATO) og samkvæmt honum skyldu Bandaríkjamenn taka að sér hervernd Íslend um ótiltekin tíma. Bandarískt herlið, kallað varnarliðið, kom því aftur til landsins í kjölfarið og fóru síðustu hermennirnir ekki frá Keflavíkurflugvelli fyrr en 2006.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Heimsstyrjaldarárin á Íslandi (bindi 1) : 56.
  2. Heimsstyrjaldarárin á Íslandi (bindi 1) : 56-57.
  3. Heimsstyrjaldarárin á Íslandi (bindi 1) : 57-60.
  4. Heimsstyrjaldarárin á Íslandi (bindi 1) : 52-53.
  5. Heimsstyrjaldarárin á Íslandi (bindi 1) : 63.
  6. Heimsstyrjaldarárin á Íslandi (bindi 1) : 71 (bein tilvitnun).
  7. Ísland í aldanna rás.
  8. Heimsstyrjaldarárin á Íslandi (bindi 1) : 70-73.
  9. Ísland í hershöndum : 89.
  10. Ísland í hershöndum : 89.
  11. Ísland í aldanna rás.
  12. Heimsstyrjaldarárin á Íslandi (bindi 1) : 83-85.
  13. Heimsstyrjaldarárin á Íslandi (bindi 2) : 36.
  14. Heimsstyrjaldarárin á Íslandi (bindi 2) : 37.
  15. Heimsstyrjaldarárin á Íslandi (bindi 1) : 83-85.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Tómas Þór Tómasson. Heimsstyrjaldarárin á Íslandi 1939-1945 Fyrra bindi (Reykjavík: Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf., 1983).
  • Tómas Þór Tómasson. Heimsstyrjaldarárin á Íslandi 1939-1945 Seinna bindi (Reykjavík: Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf., 1984).
  • Whitehead, Þór. Ísland í hers höndum (Reykjavík: Vaka-Helgafell, 2002).
  • Illugi Jökulsson (aðalhöfundur). Ísland í aldanna rás 1900-1950 (Reykjavík: Forlagið, 2000).

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]