Píratar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Píratar
Merki Pírata
Stofnár 2012
Höfuðstöðvar Tortúga, Fiskislóð 31, Reykjavík
Stjórnmálaleg
Hugmyndafræði
Borgararéttindi, friðhelgi einkalífsins, gagnsæi, upplýsinga- og tjáningarfrelsi, beint lýðræði, sjálfsákvörðunarréttur[1]
Einkennislitur Fjólublár     
Sæti á Alþingi
Sæti í sveitarstjórnum
Vefsíða www.piratar.is

Píratar er íslenskur frjálslyndur miðjuflokkur[2], stjórnmálaflokkur stofnaður árið 2012. Birgitta Jónsdóttir og Smári McCarthy tilkynntu upphaflega um fyrirhugað framboð og formlegur stofnfundur þess fór síðan fram laugardaginn 24. nóvember 2012.[3][4] Á stofnfundinum voru samþykkt drög að lögum fyrir flokkinn og þar ákveðið að nafn hans skyldi vera Píratar (hjánefni Pirate Party Iceland).[5][6]

Flokkurinn bauð í fyrsta skipti fram í Alþingiskosningunum 2013 undir listabókstafnum Þ[7] og fékk 5,1% atkvæða og 3 þingmenn. Í sveitarstjórnarkosningum 2014 fengu Píratar einn mann kjörinn í Reykjavík. [8].

Fylgi Pírata mældist í skoðanakönnun MMR í apríl 2015, 32% og með mesta fylgi allra flokka á landinu.[9] Í apríl 2016 höfðu Píratar mælst stærsti flokkurinn í ár og alltaf yfir 30 prósentum. Þeir náðu metfylgi, 43%, í könnun eftir umræðu um Panamaskjölin og stjórnakreppu sem því fylgdi. [10].

Stefnumál Pírata eru mótuð á sérstökum umræðu- og kosningavef flokksins og þar er jafnframt valið á framboðslista hans.

Stefna[breyta | breyta frumkóða]

 • Atvinnu- og efnahagsmál:

- Um 99% fyrirtækja á Íslandi eru lítil eða meðalstór. Píratar vilja betrumbæta atvinnuumhverfi smáiðnaðar með einfaldara rekstrarumhverfi. Tækifærin eru í internethagkerfinu. Með því að hanna kjörlendi fyrir internetiðnað þá stækkar markaður núverandi og verðandi fyrirtækja á Íslandi gríðarlega og atvinnutækifærum fjölgar.
- Bókhald ríkissjóðs og ríkisstofnana á að vera opið.
- Vinnuvikuna á að stytta úr 40 tímum í 35 tíma.
- Aðskilnaður fjárfestinga- og viðskiptabanka: Nauðsynlegt er að aðskilja starfsemi innlánsstofnana og áhættufjárfesta þannig að ekki sé mögulegt að nýta tryggðar innistæður í áhættuviðskiptum.

 • Sjávarútvegsmál: Píratar leggja áherslu á að í stjórnarskrá verði fest ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum í náttúru Íslands. Ríkið skal bjóða aflaheimildir upp á opnum markaði fyrir hönd þjóðarinnar. Handfæraveiðar séu þó frjálsar fyrir þá einstaklinga sem kjósa að stunda þær. Allur afli skal fara á markað.
 • Skuldamál: Píratar vilja ganga skal úr skugga um lögmæti verðtryggðra lána og Píratar munu styðja lántakendur í að sækja rétt sinn. Reynist lán ólögmæt skal gæta þess að dómum verði framfylgt. Lyklalög skulu heimila lántakendum, sem það kjósa, að gera upp húsnæðislán sín með því að afsala sér fasteigninni til bankans. Festa skal stimpilgjöld og lántökukostnað í fastri og eðlilegri upphæð svo lánhafar geti fært sig á milli lánastofnanna og til verði eðlilegur neytendamarkaður. Uppgreiðslugjald skal bannað á nýjum lánasamningum. Fólk almennt skal ekki gert gjaldþrota vegna bankahruns sem lánveitandi þeirra orsakaði.
 • Velferðarmál:

- Píratar vilja lögfesta lágmarksframfærsluviðmið. Allir eiga rétt á mannsæmandi tekjum í auðugu landi. Einfalda þarf framfærslukerfið og bjóða þarf bótaþegum, hvort sem það eru öryrkjar, fatlaðir eða atvinnulausir upp á fjölbreytta atvinnu, frístunda og menntunarmöguleika.
- Bæta skal aðstæður á almennum leigumarkaði með það að markmiði að húsnæði sem nú standa auð og án búsetu séu í boði á almennum markaði.
- Leita þarf leiða til þess að hluti af námslánunum sé styrkur.
- Tryggja þarf að einstaklingar undir lögaldri eigi rétt á því að taka þátt í félags- og skólastörfum óháð fjárhag foreldra.
- Tryggja þarf að allir hafi aðgang að íbúðarhúsnæði í takt við fjárhagsgetu, heilsufar og fjölskyldustærð. Gera þarf sértækar ráðstafanir fyrir einstaklinga með sérþarfir.
- Bæta skal aðstæður á almennum leigumarkaði með það að markmiði að húsnæði sem nú standa auð og án búsetu séu í boði á almennum markaði.

 • Menntun: Gera nám á öllum skólastigum fjölbreytt, sveiganlegt, netvætt og beintengt við samfélagið. Tilgangur skólakerfisins er að kenna fólki á það hvernig samfélagið virkar og hvernig á að búa til nýja þekkingu. Vegna þess hversu samfélagið hefur breyst mikið á undanförnum árum þá er mjög nauðsynlegt að fara í gagngera endurskoðun á menntakerfinu. Píratar vilja verkefnamiðaðra, lýðræðislegra, samfélagsmiðaðra og fjölbreyttara skólaumhverfi. Píratar vilja að kynfræðsla skuli vera lögbundin sem sérstök námsgrein í grunnskóla og að áhersla verði lögð á gagnkvæma virðingu, samskipti og upplýst samþykki. Koma á fót jafnréttisfræðslu innan grunnskóla þar sem áhersla verði lögð á fjölbreytileika, umburðarlyndi og virðingu.
 • Píratar vilja að ný stjórnarskrá verði samþykkt þar sem tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar.
 • Gagnrýni og upplýsing: Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir. Gagnsæi er mikilvægur þáttur í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvörðunartöku. Píratar vilja að almenningur hafi aðgang að öllum þeim upplýsingum sem hann þarf til þess að geta tekið upplýstar ákvarðanir og veitt stjórnsýslunni það aðhald sem hún þarf.
 • Evrópusambandið: Viðræðuferlið eigi að vera opið og allar upplýsingar eiga að vera uppi á borðum. Almenningur á síðan að fá að taka vel upplýsta ákvörðun í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.
 • Jafnréttismál: Jafnrétti er grundvallarréttindi sem tryggja ber bæði lagalega og samfélagslega. Ekki er nóg að einstaklingar njóti lagalegrar verndar gegn einu formi misréttis þegar annað þrífst óáreitt í samfélaginu. Misrétti verður aldrei upprætt að fullu með lagasetningu einni saman heldur þarf að vinna í hugarfari fólks með öllum tiltækum leiðum. Allar staðalmyndir og ranghugmyndir um einstaka samfélagshópa sem hamla gegn því að fólk geti notið sín á sínum eigin forsendum. Kennaá jafnréttisfræðslu í grunnskóla.
 • Vímuefnamál: Píratar vilja taka upp hina svokölluðu portúgölsku leið sem leitast við að hjálpa þeim sem eiga við vímuefnavanda að stríða á mannúðlegan hátt. Í stað þess að beina fíklum inn í dómskerfið viljum við taka þá inn í heilbrigðiskerfið, hjálpa þeim að takast á við fíknina og að verða aftur heilbrigðir þátttakendur í samfélaginu.
 • Friðhelgi einkalífs: Berjast ber gegn vaxandi eftirlitsæði ríkja og hagkerfa því að slíkt hamlar frelsi og þróun hjá einstaklingum. Frjálst og lýðræðislegt samfélag þrífst ekki ef friðhelgi einkalífs er ekki virt.
 • Píratar telja að draga þurfi úr miðstýringu valds á öllum sviðum og efla þurfi beint lýðræði í þeim formum sem bjóðast.
 • Endurskoða þarf höfundarétt.
 • Píratar hafna dauðarefsingu og virða líf.
 • Píratar standa fyrir sjálfbærni náttúru og auðlinda.[11]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Einkennismerki Wikiorðabókar
Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu