Evrópska efnahagssvæðið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lituðu löndin mynda saman EES

██ EFTA-löndin (utan Sviss)

██ ESB-löndin

Evrópska efnahagssvæðið (EES) er sameiginlegt markaðssvæði 31 ríkis í Evrópu sem komið var á með EES-samningnum og tók formlega gildi 1. janúar 1994. Aðild að EES eiga öll 28 aðildarríki Evrópusambandsins, sambandið sjálft og 3 aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA). Sviss er eina EFTA-ríkið sem stendur utan EES þar sem að aðild að samningnum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu þar í landi.

EES-samningurinn veitir EFTA-ríkjunum Íslandi, Liechtenstein og Noregi aðgang að innri markaði Evrópusambandsins án þess að þau þurfi að gerast fullir meðlimir í sambandinu. Fjórfrelsið svokallaða gildir á öllu svæðinu en það felur í sér frjáls vöru- og þjónustuviðskipti, frjálsa fjármagnsflutninga og sameiginlegan vinnumarkað. Að auki kveður EES-samningurinn á um samvinnu EES-ríkjanna á sviði félagsmála, jafnréttismála, neytendamála, umhverfismála, menntamála, vísinda- og tæknimála o.fl.

Tilurð og saga[breyta | breyta frumkóða]

Fyrir tíð EES hafði hvert EFTA-ríki sjálfstæð samskipti við EB (forvera ESB). Árið 1984 var efnt til sameiginlegs ráðherrafundar EFTA og EB í Lúxemborg með það að markmiði að efla viðskipti og samvinnu á ýmsum sviðum á milli bandalaganna. 1989 hófust formlegar samningaviðræður sem stóðu til 1991 en þá var samningsuppkastið sent Evrópudómstólnum til umfjöllunar. Dómstóllinn gerði athugasemd við grein í samningnum sem fjallaði um sérstakan EES-dómstól sem skyldi fjalla um deilumál vegna framkvæmdar samningsins. Slíkur dómstóll var talinn brjóta á Rómarsamningnum sem kveður á um að Evrópudómstóllinn fer einn með dómsvaldið innan ESB. Niðurstaðan var að stofnaður var sérstakur EFTA-dómstóll til að leysa úr deilumálum frá EFTA-ríkjunum.

Á Íslandi veitti Alþingi stjórnvöldum heimild til að staðfesta EES-samninginn með því að samþykkja lög um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993 þann 12. janúar 1993. Málið var mjög umdeilt og til marks um það var það samþykkt í þinginu með 33 atkvæðum á móti 23 en 6 sátu hjá. Alþýðuflokkurinn og megnið af Sjálfstæðisflokkinum samþykktu en Alþýðubandalagið, megnið af Kvennalistanum, hálfur Framsóknarflokkurinn og þrír Sjálfstæðismenn voru á móti. Hinn helmingur Framsóknarmanna og einn þingmaður Kvennalistans sátu hjá. Andstaðan við samningin var að hluta til komin af ótta við afleiðingar aukins viðskiptafrelsis (t.d. að útlendingar myndu kaupa upp jarðir á Íslandi í stórum stíl) en einnig vegna þess að margra mati felur samningurinn í sér óásættanlegt framsal á sjálfstæði þjóðarinnar til alþjóðastofnunar. Því hefur einnig verið haldið fram að samningurinn kunni að brjóta á stjórnarskrá Íslands sem að gerir ekki ráð fyrir því að löggjafar-, framkvæmda- eða dómsvald sé framselt.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Stefán Már Stefánsson. Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið. ISBN 9979-825-24-3.
  • „SOS - Spurningar og svör um EES-samninginn“. Sótt 15. apríl 2006.