Klaustur á Íslandi
Samanlagt voru ellefu klaustur stofnuð á Íslandi í kaþólskum sið. Tvö þeirra, í Flatey og Hítardal, voru einungis starfrækt í fáein ár. Klaustrin á Íslandi voru ýmist af Benedikts- eða Ágústínusarreglu, en ekkert bendir til að klaustrin hafi haft formleg tengsl við klaustur erlendis. Klaustrin urðu sjálfseignarstofnanir og þau voru miðstöðvar menntunar og menningarlífs ásamt skólunum á biskupssetrunum í Skálholti og á Hólum. Við Siðaskiptin 1550 voru níu klaustur starfrækt á Íslandi. Tvö þeirra voru nunnuklaustur, Kirkjubæjarklaustur í Skaftafellssýslu, stofnað 1186 og Reynistaðarklaustur í Skagafirði, stofnað 1295. Bæði nunnuklaustrin voru af Benediktsreglu. Fyrsta munkaklaustrið var Þingeyraklaustur í Húnafirði og var það stofnað 1133. Það var af Benediktsreglu eins og Munkaþverárklaustur í Eyjafirði sem var stofnað 1155. Í Hítardal á Mýrum var klaustur af reglu Benedikts á árunum 1166 - 1201.
Öll hin munkaklaustrin voru af Ágústínusarreglu, það elsta var Þykkvabæjarklaustur í Álftaveri, stofnað 1168. Árið 1172 var stofnað klaustur í Flatey á Breiðafirði en það var flutt til Helgafells 1184. Viðeyjarklaustur var stofnað 1226, Möðruvallaklaustur í Eyjafirði 1296 og Skriðuklaustur á Héraði 1493. Munkaklaustur virðist einnig hafa verið í Saurbæ í Eyjafirði í nokkur ár snemma á 13. öld en heimildir um það eru mjög óljósar.
Við siðaskiptin voru klaustrin lögð af og eignir þeirra gerðar upptækar. Upphaflega átti að stofna skóla í klaustrunum og nota klaustureignirnar til að kosta skólahaldið en sú ákvörðun var afturkölluð, Kristján 3. Danakonungur tók allar klaustureignir undir sig og leigði þær til umboðsmanna (klausturhaldara). Munkar og nunnur sem voru í klaustrunum við siðaskipti fengu yfirleitt að dvelja þar áfram til æviloka.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Hvaða klaustur voru á Íslandi á miðöldum?“. Sótt 23. mars 2010.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Íslenskt samfélag og Rómarkirkja. Kristni á Íslandi, II. Aðalhöf. Gunnar F. Guðmundsson, myndritstj. Guðbjörg Kristjánsdóttir, meðhöf. Ásdís Egilsdóttir og Inga Huld Hákonardóttir. Ritstj. Hjalti Hugason. Alþingi, 2000
- Íslenskur söguatlas, Almenna bókafélagið, 1989.