Íslendingasögur
- Sjá Íslendinga saga fyrir greinina um verkið sem er hluti af Sturlunga sögu.
Íslendingasögur eru, ásamt konungasögum og Eddukvæðum, þekktustu miðaldabókmenntir Íslendinga. Íslendingasögurnar eru ástæða þess að norræna orðið saga varð að almennu hugtaki fyrir fjölskyldusögur sem spanna marga ættliði víða um heim. Þær eru um fjörutíu talsins og mynda saman einn af nokkrum flokkum íslenskra fornsagna.
Flestar Íslendingasögurnar eru ritaðar á 13. og 14. öld, en sögutími þeirra er milli 930 og 1030, tímabil sem hefur verið nefnt „söguöld“ vegna þessa.[1] Þær fjalla um Íslendinga og gerast að mestu á Íslandi, þótt sagan berist oft til annarra landa. Flestar sögurnar fjalla um deilur milli fjölskyldna, blóðhefnd og sættir. Einkenni á sögunum eru ættrakningar persóna bæði aftur og fram í tíma, sem tengja þær við aðrar Íslendingasögur, Íslendingaþætti, og fleiri miðaldarit á borð við Landnámu og Íslendinga sögu. Annað einkenni á sögunum er að höfundar þeirra eru yfirleitt vel að sér í staðháttum sögusviðsins sem oft er bundið við ákveðinn landshluta.
Íslendingasögurnar eru eitt þekktasta dæmið um íslenskar bókmenntir og þykja einstakar heimildir um samfélag í Norður-Evrópu á miðöldum, þótt deilt sé um sanngildi þeirra. Valdar sögur, eins og Gísla saga Súrssonar, Kjalnesinga saga og Hrafnkels saga Freysgoða, eru notaðar sem námsefni í grunn- og framhaldsskólanámi á Íslandi. Hið íslenska fornritafélag hefur gefið þær út í fræðilegri útgáfu,[2] en til eru fjölmargar útgáfur einstakra sagna fyrir almenna lesendur á ýmsum tungumálum.[3]
Ritun og varðveisla
[breyta | breyta frumkóða]Fyrstu Íslendingasögurnar voru að öllum líkindum ritaðar öðru hvoru megin við aldamótin 1200, en þær síðustu við lok sagnritunarskeiðsins undir 1350. Flestar voru þær þó líklega skrifaðar á 13. öld.
Skoðanir á aldri eru meðal annars tengdar hugmyndum um uppruna þeirra. Þrettánda öldin er upplausnartími þjóðveldisins og má sjá þess víða stað í sögunum að varað er við erlendu konungsvaldi og upplausn ætta.
Sögurnar eru allar án höfundarnafns[4] og einungis varðveittar í eftirritum, þ.e. ekkert handrit er varðveitt sem gæti verið frumrit viðkomandi sögu. Ýmsar getgátur hafa þó verið settar fram um höfunda einstakra sagna. Einna þekktust er tilgátan um að Snorri Sturluson sé höfundur Egils sögu.[5]
Kenningar um uppruna
[breyta | breyta frumkóða]Ýmsar kenningar eru til um uppruna Íslendingasagna. Á fyrri hluta 20. aldar var einkum deilt um svokallaðar sagnfestu- og bókfestukenningar.
Sagnfestukenningin telur sögurnar vera sannorðar frásagnir samtímafólks sem gengið hafi tiltölulega óbreyttar í munnmælum þar til þær voru skrásettar mörgum öldum síðar. Þekktir fylgismenn sagnfestukenningarinnar voru meðal annars Rudolf Keyser og Andreas Heusler sem setti fyrstur fram hugtökin sagnfesta (þýska: Freiprosa) og bókfesta (Buchprosa).[6]
Bókfestukenningin (líka kölluð „íslenski skólinn“) gengur út á að sögurnar séu skáldsögur rithöfunda sem hafi stuðst við munnmæli, ýmis rit og eigið ímyndunarafl. Fylgismenn þeirrar kenningar voru meðal annars Björn M. Ólsen, Sigurður Nordal og Einar Ól. Sveinsson.[7]
Formfestukenningin heldur því fram að sögurnar séu verk rithöfunda en formföst munnmæli eru uppistaða í því sem þeir skrá. Þetta er eins konar málamiðlun milli hinna kenninganna tveggja, hún afneitar ekki höfundum en leggur jafnframt áherslu á arfsagnir. Formfestumenn greina sögurnar í sex meginþætti eða frásagnareiningar: 1) kynning persóna; 2) átök eða deilur; 3) ris; 4) hefnd; 5) sættir; 6) eftirmáli. Formfestukenningin byggist meðal annars á kenningum Parry og Lord um munnlega geymd.
Af öðrum kenningum má nefna goðsagnakenninguna, en hún gerir ráð fyrir að sögurnar séu að stofni til goðsagnir eða mjög mótaðar af goðsagnatengdu efni er tengdist landnámi sem athöfn og stofnun ríkis. Einar Pálsson er upphafsmaður kenningarinnar.
Eins má nefna kenningu sem hefur verið uppnefnd „nýbókfesta“ og gengur út á að sögurnar og önnur íslensk miðaldarit, séu fyrst og fremst heimild um ritunartíma sinn, fremur en sögutímann.[6]
Jón Hnefill Aðalsteinsson rannsakaði Íslendingasögurnar út frá því sjónarmiði að þær gætu innihaldið leifar af vitneskju um norræna trú. Hins vegar væru þær í grunninn kristnar miðaldabókmenntir og til að nota þær sem heimildir um heiðni þyrfti að túlka þær og lesa milli línanna.[8]
Handrit
[breyta | breyta frumkóða]Íslendingasögurnar eru varðveittar í ýmsum handritum sem öll eru eftirrit, skrifuð eftir öðrum ritum, frá 1250 og fram yfir aldamótin 1900. Elstu og merkustu handritin er að finna í safni Árna Magnússonar, en þau eru nú varðveitt í Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Til er rétt rúmlega tugur heillegra handrita með eiginlegum Íslendingasögum.[9] Meðal þeirra helstu eru Möðruvallabók (AM 132 fol) frá fyrri helmingi 14. aldar, sem geymir fjölda Íslendingasagna, og Kálfalækjarbók sem inniheldur Njáls sögu og er rituð um 1300. Elsta handritið sem geymir Íslendingasögu er AM 162 A þetafol. með brot úr Egils sögu og ritað um 1250.[10] Annars eru fá dæmi um handrit Íslendingasagna frá 13. öld. Mörg miklu yngri handrit geyma fyllri eintök af sögunum, eins og Ketilsbók Egils sögu frá 17. öld þar sem er að finna kvæðin Sonatorrek og Höfuðlausn sem ekki eru í Möðruvallabók.[11]
Vitað er um nokkur handrit sem hafa glatast. Dæmi um slíkt er Vatnshyrna, safn Íslendingasagna og Íslendingaþátta sem eyðilagðist í brunanum í Kaupmannahöfn 1728.[12]
Útgáfa
[breyta | breyta frumkóða]Elstu prentútgáfur Íslendingasagna eru frá miðri 18. öld. Björn Markússon gaf út hjá Hólaprentsmiðju árið 1756 tvö söfn Íslendingasagna (Ágætar fornmannasögur og Nokkrir margfróðir söguþættir) sem innihéldu meðal annars Kjalnesinga sögu, Víga-Glúms sögu, Bandamanna sögu og Bárðar sögu Snæfellsáss. Ólafur Olavius gaf út Njáls sögu í Kaupmannahöfn árið 1772 og Egils saga kom út í Hrappsey árið 1782. Fyrstu þýðingarnar komu út nokkru síðar á 18. öld. Víga-Glúms saga og Eyrbyggja saga komu út í Kaupmannahöfn 1786 og 1787 í latneskum þýðingum.
Fyrstu prentútgáfurnar voru ætlaðar almennum lesendum og tóku því mið af máli samtímans. Á 19. öld fór textafræðileg útgáfa vaxandi, fyrst með útgáfu Jóns Sigurðssonar á nokkrum Íslendingasögum 1843 og 1847. Samræmd stafsetning forn var aðferð til að samræma stafsetningu handritanna í eins konar „staðlaða forníslensku“. Ludvig F. A. Wimmer notaði þessa aðferð í Oldnordisk læsebog, vinsælli útgáfu íslenskra miðaldarita frá 1870.[13]
Seint á 19. öld áttu Eiríkur Magnússon, George Powell og William Morris í samstarfi um þýðingar og útgáfu um 30 Íslendingasagna á ensku í The Saga Library-bókaröðinni (1891-1905).[14] Andrew Lang birti þýðingu Morris á Grettis sögu í safnritinu The Book of Romance 1902.
Undir lok 19. aldar hóf Sigurður Kristjánsson að gefa út Íslendingasögur í litlum kverum með samræmdri stafsetningu fornri, þar sem hver saga fékk sérstakt bindi. Alls komu út 38 bindi í ritstjórn Finns Jónssonar, Valdimars Ásmundssonar, Benedikts Sveinssonar og fleiri. Þetta var fyrsta tilraunin til að gefa allar sögurnar út í samræmdri heildarútgáfu.
Árið 1928 var Hið íslenska fornritafélag stofnað til að gefa út textafræðilegar útgáfur íslenskra miðaldabókmennta. Útgáfustjóri var Sigurður Nordal. Fyrstu útgáfurnar sem félagið réðist í voru útgáfur Íslendingasagna á borð við Egils sögu (1933), Laxdæla sögu (1934) og Eyrbyggja sögu (1935). Útgáfa félagsins hefur verið með nokkrum hléum.
Árið 1941 hófst stafsetningarstríðið svokallaða þegar fréttist af fyrirætlunum um útgáfu Laxdælu og fleiri Íslendingasagna með nútímastafsetningu á vegum Víkingsprents. Þeir sem stóðu að útgáfunni voru meðal annars Ragnar í Smára og Halldór Laxness. Jónas Jónsson frá Hriflu stóð þá fyrir setningu fornritalaganna, þar sem útgáfa með annarri stafsetningu en samræmdri stafsetningu fornri var bönnuð. Árið eftir úrskurðaði Hæstiréttur að lögin væru andstæð stjórnarskrá Íslands.
Frá 1946 til 1957 komu út 42 bindi fornsagna (Íslendingasagna, Íslendingaþátta, riddarasagna, fornaldarsagna, konungasagna og biskupasagna) í innbundinni útgáfu Íslendingasagnaútgáfunnar í ritstjórn Guðna Jónssonar. Þær eru stundum kallaðar „lýðveldisútgáfan“.[15]
Árið 1987 gaf bókaútgáfan Svart á hvítu út heildarsafn 49 Íslendingasagna og 68 Íslendingaþátta með nútímastafsetningu í þremur bindum, í ritstjórn Braga Halldórssonar, Jóns Torfasonar, Sverris Tómassonar og Örnólfs Thorssonar. Þar var farin sú leið að prenta sérstaklega ólíkar gerðir nokkurra sagna. Önnur nýjung var að útgáfan gaf út stafrænan orðstöðulykil yfir útgáfuna á geisladiski.
Árið 1997 kom út heildarþýðing 40 Íslendingasagna og 49 Íslendingaþátta á ensku í fimm binda viðhafnarútgáfu hjá Bókaútgáfunni Leifur Eiríksson í ritstjórn Viðars Hreinssonar. Fjölmargir þýðendur komu að útgáfunni. Árið 2001 gaf Penguin út úrval af þessum þýðingum í einni kilju. Saga Forlag fylgdi þessu eftir með hliðstæðum heildarútgáfum á dönsku, norsku og sænsku árið 2014.[16] Þýsk heildarútgáfa með nýjum þýðingum kom út 2011.
Efni og stíll
[breyta | breyta frumkóða]Íslendingasögurnar eru veraldlegar sögur. Þær fjalla um Íslendinga á tímabilinu frá landnámsöld til fyrri hluta 11. aldar og gerast að mestu á Íslandi.
Sögurnar einkennast af hlutlægum frásagnarstíl, höfundur tekur ekki beina afstöðu og tilfinningum persóna er ekki lýst (nema í bundnu máli í stöku tilvikum). Ef persónum er ekki lýst þegar þær eru kynntar til sögunnar lýsa þær sér helst sjálfar með verkum sínum og orðum. Annars geta persónulýsingar orðið æði fjölskrúðugar. Sögumaður leyfir almannaróm stundum að heyrast, og er það nánast eina tækið sem hann beitir til að stýra skoðunum lesenda, annað en val á sjónarhorni. Að öðru leyti lætur hann sem minnst á sér bera.
Textinn einkennist af mikilli notkun hliðskipaðra aðalsetninga. Stíllinn er því einfaldur og málsgreinar yfirleitt stuttar og hnitmiðaðar, auk þess sem jafnvægi skapast í frásögninni.
Mikið er um sviðsetningar og samtöl, sem eru allajafna stutt og einkennast af spakmælum. Tilsvör eru oft meitluð og engu er þar ofaukið. Í mörgum sagnanna gefa fyrirboðar eða spásagnir til kynna óorðna atburði. Enginn má sköpum renna, allt er ákveðið fyrir fram og enginn getur flúið örlög sín.
Samfélag
[breyta | breyta frumkóða]Samfélag Íslendingasagnanna er goðaveldið eins og það var á Íslandi fyrstu aldir eftir landám. Það er ættasamfélag þar sem goðorðið gengur í arf.
Brúðkaup eru til þess að efla karlmanninn og skapa honum ættartengsl sem nýst geta síðar meir.
Söguhetjurnar eru oftast höfðingjaættar þó það sé reyndar ekki algilt. Lægra settu fólki bregður fyrir til góðs eða ills, en oftast er það í aukahlutverki.
Hetjur og manngildi
[breyta | breyta frumkóða]Það má skipta hetjum Íslendingasagnanna gróflega í tvo flokka. Ljósar hetjur og dökkar hetjur. Þó eru sumar persónur flóknari en svo að þær geti fallið í annan hvorn þessara flokka. Ljósar hetjur eru ljósar yfirlitum, heiðarlegar og seinþreyttar til vandræða. Þær dragast nauðugar inn í átök til að koma í veg fyrir að skuggi falli á sæmd þeirra. Dökkar hetjur eru dökkar yfirlitum og oft ófríðar eða beinlínis ljótar. Þær eiga í vandræðum með sjálfar sig og grípa oft til vopna að fyrra bragði. Þær leggja þannig fram drýgri skerf til að skapa sín eigin vandræði.
Karlmenn eru langoftast í aðalhlutverkum og sjónarhóllinn er þeirra. Konur hrinda þó oft atburðarás af stað, þær eru þrætuepli eða hvetja hetjurnar til stórræða.
Íslendingasögurnar í stafrófsröð
[breyta | breyta frumkóða]- Atla saga Ótryggssonar[a]
- Bandamanna saga
- Bárðar saga Snæfellsáss
- Bjarnar saga Hítdælakappa
- Brennu-Njáls saga
- Droplaugarsona saga
- Egils saga
- Eiríks saga rauða
- Eyrbyggja saga
- Finnboga saga ramma
- Fljótsdæla saga
- Flóamanna saga
- Fóstbræðra saga
- Færeyinga saga[b]
- Grettis saga
- Gísla saga Súrssonar
- Grænlendinga saga
- Grænlendinga þáttur
- Gull-Þóris saga
- Gunnars saga Keldugnúpsfífls
- Gunnlaugs saga ormstungu
- Hallfreðar saga vandræðaskálds
- Harðar saga og Hólmverja
- Hávarðar saga Ísfirðings
- Heiðarvíga saga
- Hrafnkels saga Freysgoða
- Hrana saga hrings[a]
- Hænsna-Þóris saga
- Kjalnesinga saga
- Kormáks saga
- Króka-Refs saga
- Laxdæla saga
- Ljósvetninga saga
- Reykdæla saga og Víga-Skútu
- Svarfdæla saga
- Valla-Ljóts saga
- Vatnsdæla saga
- Víga-Glúms saga
- Víglundar saga
- Vopnfirðinga saga
- Þorsteins saga hvíta
- Þorsteins saga Síðu-Hallssonar
- Þórðar saga hreðu
Sumar þessara sagna, eins og Færeyinga saga og Heiðarvíga saga eru aðeins varðveittar að hluta. Auk þessara sagna er vitað um nokkrar Íslendingasögur sem hafa glatast, eins og Gauks saga Trandilssonar og Skáld-Helga saga. Margir Íslendingaþættir eru nátengdir Íslendingasögunum og fjalla um sömu persónur, sama sögusvið og sögutíma.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Aðalheiður Guðmundsdóttir (22.1.2007). „Hvað þarf að vera í sögu til þess að hún sé talin til Íslendingasagna?“. Vísindavefurinn.
- ↑ „Fornritabæklingur 2018“ (PDF). Hið íslenska fornritafélag. 2018.
- ↑ „Skrá yfir þýðingar Íslendingasagna“. Landsbókasafn Íslands.
- ↑ Vésteinn Ólason (4.8.2000). „Hvers vegna eru Íslendingasögur höfundarlausar?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Peter Hallberg (1964). „Í leitinni að höfundum Íslendingasagna“. Lesbók Morgunblaðsins. 39 (2).
- ↑ 6,0 6,1 Arngrímur Vídalín (2015). „Ný bókfestukenning? Spjall um aðferðir“. Saga: tímarit Sögufélags. 53 (2): 124–138.
- ↑ Halldór Stefánsson (1961). „Eru Íslendingasögurnar skrök og skáldskapur?“. Lesbók Morgunblaðsins. 36 (24): 377–378.
- ↑ Jón Hnefill Aðalsteinsson (1997). Blót í norrænum sið. Rýnt í forn trúarbrögð með þjóðfræðilegri aðferð. Félagsvísindastofnun.
- ↑ Már Jónsson (7.11.2019). „Hvar fundust handrit Íslendingasagnanna?“. Vísindavefurinn.
- ↑ „Efni handrita 1250-1300“. Handritin heima.
- ↑ Jónas Kristjánsson (2006). „Kveðskapur Egils Skallagrímssonar“. Gripla. 17: 8.
- ↑ „Vatnshyrna“. Handritin heima.
- ↑ Haraldur Bernharðsson (20.10.2020). „Hvenær komu Íslendingasögurnar fyrst út á nútímaíslensku?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Marjorie Burns. „Morris and the Sagas“. William Morris Archive.
- ↑ Ármann Jakobsson (2018). „Sögurnar hans Guðna: Um „lýðveldisútgáfu" Íslendingasagnanna, hugmyndafræði hennar og áhrif“. Skírnir : tímarit Hins íslenska bókmenntafélags. 192: 105–117.
- ↑ „Nýjar heildarútgáfur Íslendingasagna og þátta á þremur tungumálum, dönsku, norsku og sænsku“. Norden.org. 28.4.2014.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Íslendinga sögur frá «Kulturformidlingen Norrøne Tekster og Kvad» í Noregi.
- Íslendingasögurnar, ásamt þýðingum
- Allar íslendingasögurnar í stafrófsröð frá Netútgáfunni