Fara í innihald

Landsnefndin fyrri

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Landsnefndin fyrri var nefnd sem Kristján 7. skipaði árið 1770 og átti að rannsaka bága stöðu Íslendinga og legggja á ráðin um hvernig hagur landsmanna yrði bættur. Nefndin sat á rökstólum á árunum 1770-1771.

Nefndarmenn voru: Andreas Holt, vararæðismaður í Kristjaníu, formaður, Þorkell Jónsson Fjeldsted, lögmaður í Færeyjum og Thomas Wildekilde kaupmaður á Eyrarbakka. Ritari nefndarinnar var skipaður Eyjólfur Jónsson, síðar konunglegur stjörnuskoðari. Nefndarmenn ferðuðust um Ísland sumarið 1770 og gerðu ákveðnar tillögur um atvinnu- og fjármál. Nefndin skilaði síðan skýrslu árið 1771.

Sérstök skrifstofa var stofnuð í Kaupmannahöfn árið 1773 til að fjalla um þessi mál, ásamt þeim sömu fyrir Færeyjar og Grænland. Skrifstofan var undir stjórn Jóns Eiríkssonar konferensráðs. Sama ár var stofnaður fyrir tilstyrk nefndarinnar Framfarasjóður Íslands (Mjölbótasjóðurinn). Hlutverk Jóns Eirikssonar, sem var fulltrúi stjórnarinnar um Íslandsmál í Rentukammerinu, var að koma tillögum nefndarinnar í lagaform og reka á eftir því, að þau kæmust í framkvæmd, eftir því sem kostur var á. Þannig voru í frammi hafðar miklar fyrirætlanir um umbætur í landbúnaði. Og talsverðar tilraunir voru gerðar með þilskipaútgerð.

Um álit Landsnefndarinnar spratt einnig löggjöf um vegagerð, póstmál og heilbrigðismál. En einna umfangmestu lögin voru jarðræktarlög, er oftast gengu undir nafninu „þúfnatilskipunin“. Þar átti að skylda bændur til að slétta ákveðið flatarmál í túnum sínum ár hvert og hefjast handa við að reisa girðingar. Enn fremur voru sett lög um nýbýli. Minna varð þó úr þessum framkvæmdum en búist var við í upphafi vegna þess að skömmu síðar dundu Móðuharðindin yfir.