Reykjavík

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Reykjavik)
Reykjavíkurborg
Myndir af Reykjavík: Hallgrímskirkja, Miðbærinn, Tjörnin, Fríkirkjan.
Staðsetning Reykjavíkurborgar
Staðsetning Reykjavíkurborgar
Hnit: 64°08′48″N 21°56′24″V / 64.14667°N 21.94000°V / 64.14667; -21.94000
LandÍsland
KjördæmiReykjavíkurkjördæmi norður
Reykjavíkurkjördæmi suður
Þéttbýliskjarnar
Stjórnarfar
 • BorgarstjóriEinar Þorsteinsson  B 
Flatarmál
 • Samtals244 km2
 • Sæti43. sæti
Mannfjöldi
 (2023)
 • Samtals139.875
 • Sæti1. sæti
 • Þéttleiki573,26/km2
Póstnúmer
101–155
Sveitarfélagsnúmer0000
Vefsíðareykjavik.is

Reykjavík er höfuðborg Íslands, fjölmennasta sveitarfélag landsins og eina borgin. Þannig er Reykjavík efnahagsleg, menningarleg og stjórnarfarsleg þungamiðja landsins. Í Reykjavík búa 143.558 manns (2024). Þar af er um fjórðungur innflytjendur, eða 35.000 íbúar.[1] (Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru um 254 þúsund í sjö sveitarfélögum).[2] Opinbert heiti sveitarfélagsins Reykjavíkur er Reykjavíkurborg.[3]

Í Landnámu er Ingólfur Arnarson sagður vera fyrsti landnámsmaður Íslands. Hann er þar sagður hafa sett bæ sinn niður í Reykjavík. Nýlegir fornleifafundir í miðborg Reykjavíkur, einkum í Aðalstræti, Suðurgötu og Kirkjustræti hafa leitt í ljós mannvistarleifar frá um 870. Sagan segir að Ingólfur hafi gefið bæ sínum nafnið vegna reykjarstróka úr hverum í grenndinni. Víkurkirkja var reist við Reykjavíkurbæinn eftir kristnitöku og klaustur var stofnað í Viðey á 13. öld. Á 17. öld varð Reykjavík konungsjörð og á 18. öld tók að myndast þar lítið þorp og verslunarstaður. Landsnefndin fyrri stakk upp á því að gera Reykjavík að höfuðstað Íslands og eftir Móðuharðindin voru biskupsstólarnir fluttir þangað og Dómkirkjan í Reykjavík reist.

Bærinn óx smátt og smátt alla 19. öldina og ákveðið var að flytja þangað endurreist Alþingi, auk annarrar stjórnsýslu landsins. Hafnarstæðið þótti lengi ófullnægjandi og 1913 til 1917 var Reykjavíkurhöfn byggð. Borgin óx hratt eftir fyrri heimsstyrjöld og þar bjó um fimmtungur landsmanna árið 1921. Reykjavíkurflugvöllur var reistur af breska setuliðinu í Reykjavík í síðari heimsstyrjöld. Braggahverfi einkenndu borgina lengi eftir stríð. Hitaveita Reykjavíkur var stofnuð 1946 og árið 1970 voru yfir 90% húsa í Reykjavík tengd henni. Þá voru íbúar Reykjavíkur orðnir 40% landsmanna. Á síðari hluta 20. aldar stækkaði borgin hratt með nýjum íbúðahverfum í Breiðholti, Árbæ og Grafarvogi. Húsnæðiskreppa hefur reglulega komið upp í tengslum við fólksfjölgun í borginni, meðal annars á 21. öld.

Samkvæmt lífsgæðavísitölu tímaritsins The Economist árið 2023 var Reykjavík í 47. sæti af 167 borgum og neðst af höfuðborgum Norðurlandanna.[4] Reykjavík er vinsæll áfangastaður ferðafólks og hefur oft verið ofarlega á listum yfir öryggi og sjálfbærni.[5][6][7]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Íbúaþróun í Reykjavík.

Samkvæmt Íslendingabók nam Ingólfur Arnarson allt suðvesturhorn landsins og byggði bæ sinn í Reykjavík. Með tíð og tíma byggðust fleiri bæir í kring og má þar helst nefna Laugarnes og Nes við Seltjörn. Árið 1226 hófst byggð í Viðey þegar munkar af Ágústínusarreglu stofnuðu þar klaustur. Víkurkirkja stóð við Reykjavíkurbæinn að minnsta kosti frá 1200. Ekki fór að myndast þéttbýli að ráði í Reykjavík fyrr en á 18. öld, en fram að því lágu býli af ýmsum stærðum á víð og dreif um svæðið þar sem borgin stendur nú. Danakonungur keypti Reykjavíkurjörðina af ekkju Narfa Ormssonar sýslumanns 17. júlí 1613. Samkvæmt Jarðabókinni 1703 tilheyrðu jörðinni átta hjáleigur: Landakot, Götuhús, Grjóti, Melshús, Hólakot, Skálholtskot, Stöðlakot og Suðurbær alveg við Reykjavíkurbæinn.[8]

Á 18. öld var gerð tilraun til að reka ullariðnað í Reykjavík. Þessi tilraun var þekkt sem Innréttingarnar, og markaði hún þáttaskil í þróun svæðisins, sem í kjölfarið fór að taka á sig einhverja þorpsmynd. Danska konungsvaldið studdi þessar tilraunir til uppbyggingar með því að gefa jarðir sem það átti í Reykjavík og Örfirisey. Sextán hús voru byggð í Reykjavík vegna Innréttinganna, sem hefur verið mikil fjölgun á þeim tíma, merki um tvö þeirra má enn sjá. Þá var fyrsta fangelsi landsins byggt á árunum 1761–71, stæðilegt steinhús sem í dag er Stjórnarráð Íslands við Lækjargötu.

Tjörnin í Reykjavík á sjöunda áratug 19. aldar.

Í tillögum Landsnefndarinnar fyrri 1774 var mælt með því að gera Reykjavík að höfuðstað landsins. Þá var stungið upp á því að nefna bæinn „Kristjánsvík“ til heiðurs Kristjáni 7.[9] Að tillögu Landsnefndarinnar síðari var ákveðið að flytja biskupsstólinn frá Skálholti til Reykjavíkur og reisa þar nýja dómkirkju. Reykjavík fékk kaupstaðarréttindi árið 1786, í kjölfar afnáms einokunarverslunar í landinu, og sama ár var Hólavallaskóli stofnaður þar. Á nítjándu öld mynduðust þéttar þyrpingar lítilla húsa eða kofa sjómanna í bænum. Alþingi var endurreist í Reykjavík árið 1845. Ári síðar var Menntaskólinn í Reykjavík fluttur frá Bessastöðum í miðbæinn. Árið 1881 var Alþingishúsið fullbúið. Stýrimannaskólinn tók til starfa 1891 eftir að þilskip voru komin til landsins. Árið 1898 var Miðbæjarskólinn við Tjarnargötu fullbúinn. Hann var þó ekki tekinn í notkun fyrr en haustið 1908 og þá hófu tæplega þrjú hundruð grunnskólabörn nám þar. Í nóvember 1906 kom upp taugaveikisfaraldur í Skuggahverfinu.[10]

Fyrsti bæjarstjóri Reykjavíkur, Páll Einarsson, tók til starfa 1908 og fyrstu konurnar sem settust í bæjarstjórn á Íslandi voru kjörnar af kvennalistum sem buðu fram til bæjarstjórnarkosninga í Reykjavík í janúar árið 1908. Vatnsveita Reykjavíkur tók til starfa 1909. Gasstöð Reykjavíkur við Hlemm var tekin í gagnið árið 1910. Gasstöðin starfaði til 1956. Reykjavíkurhafnir voru byggðar í áföngum á árunum 1913–17 bættu mjög skipaaðstöðu. Þaðan af gátu hafskip lagst að bryggju en áður fyrr þurfti að ferja fólk og varning á milli smærri bryggja og hafskipa sem lágu úti fyrir. Veturinn 1917–1918, nefndur Frostaveturinn mikli, var sá kaldasti sem mælst hefur; þá lá hafís í Reykjavíkurhöfn og hitastigið fór niður í -24,5 °C. Í október 1918 barst spænska veikin, sem geysaði víðar í heiminum, til Íslands með skipum frá Kaupmannahöfn og er talið að um þriðjungur bæjarbúa hafi veikst á örfáum vikum. Elliðaárvirkjun var byggð 1921 til þess að sjá ört stækkandi borginni fyrir rafmagni.

Heimskreppan mikla hafði slæm áhrif um allan heim. Á Íslandi náðu þau hámarki í Gúttóslagnum árið 1932 þegar þunnskipuð lögregla þurfti að berjast við verkamenn fyrir utan Góðtemplarahús Reykjavíkur, þar sem haldinn var bæjarstjórnarfundur þar sem lækka átti laun í atvinnubótavinnu á vegum bæjarins. Einu sinni hafði áður skorist alvarlega í odda á milli lögreglunnar og annarra hópa, en það var í Hvíta stríðinu svokallaða rúmum áratugi fyrr. Í mars 1937 var Sundhöll Reykjavíkur vígð. Þann 10. maí 1940 gengu breskir hermenn á land í Reykjavík og hernámu Ísland. Á meðan veru þeirra stóð hófu þeir byggingu varanlegs flugvallar í Reykjavík. Bandaríkjamenn tóku við af Bretunum rúmu ári seinna og fóru ekki fyrr en að stríðinu loknu, 8. apríl 1947.

Landafræði[breyta | breyta frumkóða]

Esjan í bakgrunni.

Reykjavík er á suðvesturhorni landsins. Strandlína Reykjavíkur einkennist af nesjum, fjörðum, skerjum og eyjum. Fjallið Esja (914 m) er þekkt kennileiti í Reykjavík. Elliðaár sem renna í gegnum Elliðaárdal eru virkjaðar. Stærsta eyjan sem liggur nærri Reykjavík er Viðey, þar á eftir eru Engey og Akurey í Kollafirði.

Í Reykjavík hafa verið gerðar samfelldar veðurathuganir frá 1920, en elstu skráðu veðurathuganir eru frá fyrri hluta 19. aldar. Þann 3. janúar 1841 mældist loftþrýstingurinn í Reykjavík 1058,5 hPa, sem er sá mesti sem mælst hefur á Íslandi. Meðal opinna og grænna svæða í Reykjavík má nefna Hljómskálagarðinn, Klambratún, Öskjuhlíð og Elliðaárdal.

Reykjarvík er 2 886 km frá norðurpólnum og 7116 km frá miðbaug.

Veðurfar[breyta | breyta frumkóða]

Golfstraumurinn gerir veðurfar í Reykjavík mun hlýrra og jafnara á ársmælikvarða en á flestum öðrum stöðum á sömu breiddargráðu. Hitastigvetrarlagi fer sjaldan undir -10 °C. Lega borgarinnar á suðvesturströnd Íslands ber með sér fremur vindasamt veður og eru rok algeng, sérlega að vetrarlagi. Sumur eru svöl, hitastig venjulega á bilinu 10 °C til 15 °C og fer einstaka sinnum upp undir 20 °C. Þó svo að úrkoma sé ekki mjög mikil í Reykjavík mælist þó úrkoma að meðaltali 213 daga á ári. Lengri þurrkatímar eru sjaldgæfir. Vorið er að öllu jöfnu sólríkast og þá helst maímánuður. Árlegir sólartímar mælast um 1.300 sem er sambærilegt við stóran hluta norðurhluta Evrópu. Hitamet í borginni var sett 30. júlí 2008 og mældist hiti þá 25 7 °C.[11]Kaldast var 21. janúar 1918 og mældist hiti þá -24,5 °C.

Veðuryfirlit [12]

Janúar Febrúar Mars Apríl Maí Júní Júlí Ágúst September Október Nóvember Desember
 Hæsti meðalhiti 1,9 2,8 3,2 6 9,7 12 13,7 13,3 10,4 7,1 3,7 2,2
 Lægsti meðalhiti −3,0 −2,1 −2,0 0,4 3,9 7 8,7 8,1 5,3 2,5 −1 −2,5
 Úrkoma 75,6 71,8 81,8 58,3 43,8 50,0 51,8 61,8 66,5 85,6 72,5 78,5
 Línurit hitastig í °C • mánuðarúrkoma í mm
 
 
76
 
2
-3


 
 
72
 
3
-2


 
 
82
 
3
-2


 
 
58
 
6
0


 
 
44
 
10
4


 
 
50
 
12
7


 
 
52
 
14
9


 
 
62
 
13
8


 
 
67
 
10
5


 
 
86
 
7
3


 
 
73
 
4
-1


 
 
79
 
2
-3



Stjórnsýsla[breyta | breyta frumkóða]

Borgarstjórn[breyta | breyta frumkóða]

Í borgarstjórn Reykjavíkur sitja 23 fulltrúar sem kjörnir eru hlutfallskosningu á fjögurra ára fresti. Frá árinu 1908 til dagsins í dag hafa 22 einstaklingar, þar af 18 karlmenn og fjórar konur, setið sem borgarstjórar Reykjavíkur. Síðast var kosið til borgarstjórnar í sveitarstjórnarkosningum 14. maí 2022. Borgarstjórn kýs sér borgarstjóra, sem er framkvæmdastjóri borgarinnar.

Síðan 2024 hefur Einar Þorsteinsson úr Framsóknarflokknum verið borgarstjóri. Eftir kosningarnar 2022 mynduðu Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn, Píratar og Viðreisn meirihluta í borgarstjórn. Samkvæmt meirihlutasáttmálanum var Dagur B. Eggertsson borgarstjóri til ársloka 2023 en þá tók Einar við sem borgarstjóri það sem eftir lifir kjörtímabilsins.

Ráð og nefndir[breyta | breyta frumkóða]

Borgarráð er framkvæmdastjórn borgarinnar. Þar sitja sjö borgarfulltrúar kosnir af borgarstjórn og sjö til vara, ásamt borgarstjóra. Önnur ráð borgarinnar skipuð kjörnum fulltrúum (árið 2022) eru mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð, menningar-, íþrótta- og tómstundaráð, skóla- og frístundaráð, velferðarráð, umhverfis- og skipulagsráð og stafrænt ráð.

Meðan nefnda borgarinnar eru almannavarnanefnd, barnaverndarnefnd, fjölmenningarráð og öldungaráð.

Borgin skipar fulltrúa í stjórnir fyrirtækja sem eru í hennar eigu að hluta eða heild: Brú lífeyrissjóðs, Faxaflóahafna, Orkuveitu Reykjavíkur, Strætó, Sorpu, Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins, Malbikunarstöðvarinnar Höfða, Félagsbústaða og Betri samgangna.

Svið[breyta | breyta frumkóða]

Starfsemi borgarinnar skiptist á átta fagsvið; íþrótta- og tómstundasvið, skóla- og frístundasvið, menningar- og ferðamálasvið, velferðarsvið, mannauðs- og starfsumhverfissvið, fjármála- og áhættustýringarsvið og þjónustu- og nýsköpunarsvið.

Hverfaskipting[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá júní 2003 skiptist Reykjavík í tíu hverfi, hvert með sínu hverfisráði.[13] Þau eru (með tilheyrandi hverfahlutum):

Nr. Hverfi Stærð
(km²)
Íbúar
(2023)
Hverfahlutar
1 Vesturbær 2,9 17.161 Gamli Vesturbærinn, Grandahverfi, Örfirisey, Hagahverfi, Melahverfi, Skjól, Skildinganes og Litli Skerjafjörður
2 Miðborg 3,6 11.498 Háskólahverfi, Kvosin, Skuggahverfi, Þingholt
3 Hlíðar 3,3 12.178 Norðurmýri, Hlíðahverfi, Hlíðarendahverfi, Hlemmur, Holt og Öskjuhlíð
4 Laugardalur 6,4 18.730 Tún, Teigar, Lækir, Laugarnes, Laugarás, Sundahöfn, Sund, Heimar, Vogahverfi, Skeifan og Merkur
5 Háaleiti og Bústaðir 4,3 16.345 Mýrar og Múlar, Kringlan, Leiti, Gerði og Fossvogur
6 Breiðholt 5,5 22.798 Hólar, Fell, Berg, Seljahverfi, Bakkar, Stekkir og Mjódd
7 Árbær 6,1 11.974 Selás, Árbær, Ártúnsholt, Hálsahverfi og Norðlingaholt
8 Grafarvogur 14,0 18.237 Hamrar, Foldir, Hús, Rimar, Flatir, Leynar, Borgir, Víkur, Engjahverfi, Staðir, Höfðar, Bryggjuhverfi og Gufunes
9 Kjalarnes 61,7 1.031 Grundarhverfi og Álfsnes
10 Grafarholt og Úlfarsárdalur 22,5 8.280 Grafarholt og Úlfarsárdalur
- Óstaðsettir - 1.646  
  Alls 274,5 143.558  

Samgöngur[breyta | breyta frumkóða]

Loftmynd sem sýnir Reykjavíkurflugvöll.

Einkabíllinn er algengur samgöngumáti í Reykjavík sem og leigubílar. Strætisvagnar Strætó bs. ganga um allan bæinn og tengja út fyrir borgarmörkin til Akraness, Borgarfjarðar, Akureyrar og víðar. Á undanförnum árum hafa fleiri og fleiri hjólreiðastígar verið lagðir til þess að gera hjólreiðar að raunhæfari samgöngumáta og stefnt er að umbótum í almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu með hraðvagnakerfi sem nefnt er Borgarlína.

Helsti innanlandsflugvöllur Íslands, Reykjavíkurflugvöllur, er í Vatnsmýri í Reykjavík. Skiptar skoðanir eru um hvort færa eigi hann annað. Þann 17. mars 2001 var haldin atkvæðagreiðsla meðal borgarbúa þar sem naumur meirihluti var fyrir því að flytja flugvöllinn burt. Hins vegar tóku aðeins 37% þátt þannig að kosningin var ekki bindandi.

Tvær stórar hafnir eru í Reykjavík, annars vegar Reykjavíkurhöfn norðan við Kvosina í miðborg Reykjavíkur, og hins vegar Sundahöfn í Vogum. Reykjavíkurhöfn er stór uppskipunarhöfn og ferjuhöfn fyrir farþegaskip og minni skemmtiferðaskip, en Sundahöfn er aðallega gámahöfn fyrir flutningaskip og viðleguhöfn fyrir stærri skemmtiferðaskip.

Menning[breyta | breyta frumkóða]

Söfn[breyta | breyta frumkóða]

Í Reykjavík eru flest söfn á Íslandi. Elsta listasafnið er Listasafn Einars Jónssonar. Í borginni er einnig að finna Listasafn Íslands og Listasafn Reykjavíkur sem hefur aðstöðu bæði í miðbæ Reykjavíkur og við Miklatún. Listasafn Ásmundar Sveinssonar tilheyrir einnig Listasafni Reykjavíkur. Borgarbókasafn Reykjavíkur er með útibú í sex af hverfum borgarinnar.

Þjóðminjasafn Íslands, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Árnastofnun eru nærri miðbænum við Háskóla Íslands. Borgarsögusafn rekur meðal annars Sjóminjasafnið í Reykjavík og Árbæjarsafn þar sem hægt er að skoða gömul hús sem þangað hafa verið færð og torfbæinn Árbæ sem safnið dregur nafn sitt af, en hann hefur verið þar frá upphafi. Reðursafnið hefur verið vinsælt hjá ferðamönnum.

Hátíðir[breyta | breyta frumkóða]

Listahátíð í Reykjavík er gamalgróin hátíð sem rekja má til 1970. Hinsegin dagar hafa verið haldnir í ágúst frá 1999. Menningarnótt er eins konar bæjarhátíð Reykjavíkur og hefur verið haldin frá aldamótum 2000. Jazzhátíð Reykjavíkur á rætur að rekja til Norrænna útvarpsjazzdaga í maí 1990 og Innipúkinn hefur verið haldin um verslunarmannahelgi frá því árið 2001 (að undanskildum árunum 2020 og 2021 þegar hátíðin var felld niður vegna COVID-19). Aðrar tónlistarhátíðir eru til dæmis Iceland Airwaves um haustið og Myrkir músíkdagar um vorið. Hátíðir í júní eru Sjómannadagurinn og 17. júní.

Skipulagsmál[breyta | breyta frumkóða]

Í Reykjavík er í gildi aðalskipulag fyrir tímabilið 2010-2030 sem samþykkt var árið 2013. Vinna við endurskoðun aðalskipulagsins hófst árið 2007 og hefur Haraldur Sigurðsson skipulagsfræðingur haft umsjón með endurskoðun og breytingum aðalskipulagsins. Sviðsstjóri Umhverfis- og skipulagssviðs við endurskoðun var Ólöf Örvarsdóttir. Formaður umhverfis- og skipulagsráðs við samþykkt áætlunarinnar var Páll Hjaltason arkitekt og fullltrúi Besta flokksins í Borgarstjórn. Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 (AR 2010-30) markaði breytingar á áherslum í skipulagi borgarinnar með aukinni áherslu á þéttingu byggðar í stað uppbyggingar nýrra hverfa utan marka byggðar.

Systraborgir/Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Reykjavík viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Í júlí árið 2013 lagði Jón Gnarr borgarstjóri til að samstarfssamningur Reykjavíkur og Moskvu yrði endurskoðaður vegna lagasetninga sem beindust gegn mál­efn­um sam­kyn­hneigðra, tví­kyn­hneigðra og trans­fólks í Rússlandi.[19] Lvív í Úkraínu kom í stað Moskvu árið 2023.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Innflytjendur eftir kyni og sveitarfélagi 1. janúar 1996-2023“. Hagstofan.
  2. https://skra.is/um-okkur/frettir/frett/2023/04/05/Fjoldi-ibua-eftir-sveitarfelogum-1.-april-2023/Skra.is, tekið 1. apríl 2023
  3. http://www.althingi.is/altext/148/s/0558.html
  4. Gunnar Smári Egilsson (19. ágúst 2023). „Reykjavík með lökustu lífsgæði höfuðborga Norðurlandanna“. Samstöðin.
  5. Yunlong, Sun (23. desember 2007). „Reykjavík rated cleanest city in Nordic and Baltic countries“. Xinhua News Agency. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. mars 2016. Sótt 29. september 2013.
  6. „15 Green Cities“. Grist. 20. júlí 2007. Afrit af uppruna á 23. september 2013. Sótt 29. september 2013.
  7. „Iceland among Top 10 safest countries and Reykjavík is the winner of Tripadvisor Awards“. TRAVELIO.net. 20. maí 2010. Afrit af uppruna á 21. febrúar 2014. Sótt 29. september 2013.
  8. Árni Óla (1961). „Kvörn guðanna malar hægt“. Morgunblaðið II. 48 (184): 7.
  9. Ásgeir Jónsson (2006). „Af hverju er Reykjavík höfuðborg Íslands?“. Vísbending. 49 (24): 30–31.
  10. Vatnsveitan 100 ára
  11. Hæsti hiti í ReykjavíkVeður.is
  12. „World Weather Information Service - Reykjavik“. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. mars 2016. Sótt 20. mars 2010.
  13. Samþykkt um skiptingu Reykjavíkur í hverfi Geymt 17 júní 2012 í Wayback Machine (staðfest af borgarráði 16. júní 2003)
  14. „Christmas around the world“. Hull in print. Hull City Council. desember 2006.
  15. „Convenio de amistad entre Ciudad de México y Reykjavík“ (spænska). Innanríkisráðuneyti Mexíkó. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. ágúst 2014.
  16. „Reykjavík, Iceland - Sister Cities“. Sótt 4. mars 2015.
  17. „Vinarbýir - Tórshavnar kommuna“. torshavn.fo. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. október 2016. Sótt 1. apríl 2019.
  18. „Wrocław będzie miał nowe miasto partnerskie“. tuwroclaw.com.
  19. „End­urskoða sam­starfið við Moskvu“. mbl.is. 23. júlí 2013. Sótt 1. apríl 2019.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu

Skipulag Reykjavíkur[breyta | breyta frumkóða]