Aðalstræti

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Aðalstræti til suðurs árið 2016. Hægra megin sjást nýbyggingar frá síðari hluta 20. aldar, en vinstra megin sést Aðalstræti 7 (byggt um 1880) og gafl Miðbæjarmarkaðarins.
Aðalstræti um 1900.

Aðalstræti er gata í miðbæ Reykjavíkur og er elsta og kannski sögufrægasta gata borgarinnar. Aðalstræti teygir sig frá mótum Túngötu og Suðurgötu í suðri til Vesturgötu til norðurs. Upp af Aðalstræti til vesturs gengur Grjótagata, Brattagata og Fischersund. Upprunalega í hinum danska Víkurbæ gekk Aðalstræti undir nöfnunum Hovedgaden eða Adelgaden.

Núna nær Aðalstræti frá gatnamótum við Hafnarstræti og Vesturgötu í norðri, til Kirkjustrætis í suðri, og er einstefnugata í norður með hámarkshraða 30 km/klst. Fyrir vestan götuna eru tvö nýbyggð hótel, tvær nýlegar skrifstofubyggingar og þrjú afar gömul hús, Ísafoldarhúsið, Geysishúsið og Aðalstræti 10, sem er elsta hús Reykjavíkur. Vestur úr götunni liggja Grjótagata, Brattagata og Fischersund inn í Grjótaþorp og austur úr henni Veltusund austur með fram Ingólfstorgi og Austurvelli til Pósthússtrætis. Austan við götuna eru Ingólfstorg, eitt gamalt timburhús (Aðalstræti 7), eitt stórt steinsteypt hús (Miðbæjarmarkaðurinn), og Fógetagarðurinn þar sem áður var Schierbeck-garður og þar áður Víkurkirkjugarður.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Við Aðalstræti norðanvert eru elstu þekktu mannvistarleifar sem fundist hafa á Íslandi, rústir skála sem er talinn vera frá árabilinu 868-874 og þykir ekki ólíklegt að sé hin upprunalega Vík (eða Reykja-Vík) þar sem Ingólfur Arnarson nam land. Rústirnar voru grafnar upp veturinn 2001, og eru nú til sýnis almenningi á Landnámssýningunni í kjallara nýbyggingar á horninu við Túngötu. Gatan dregur nafn sitt af því að þegar hún var lögð var hún eina gata Reykjavíkur, en það var á átjándu öld þegar Innréttingarnar stóðu sem hæst. Líklegt má telja að troðningur hafi legið þarna frá alda öðli frá bæjarhúsum Víkur og Víkurkirkju niður að sjónum, svo varla er hægt að tímasetja hvenær gatan varð eiginlega til. Gegnt Aðalstræti 12 var vatnsból sem nefndist síðar Ingólfsbrunnur og hefur þar verið settur upp vatnspóstur á nýjan leik til skrauts.

Við enda Austurstrætis stóð áður þyrping stórra timburhúsa, þar á meðal Hótel Ísland sem eyðilagðist í bruna árið 1944. Eftir það kom Bifreiðastöð Steindórs sér þar upp aðstöðu og bílaplani sem fékk seinna heitið Hallærisplanið og var vinsæll samkomustaður unglinga. Árið 1993 var Hallærisplaninu og svokölluðu Steindórsplani hinum megin við Austurstræti breytt í Ingólfstorg.

Árið 1951 var gamalt timburhús við Aðalstræti 6 flutt að Efstasundi og framkvæmdir hófust við byggingu Morgunblaðshallarinnar sem var tekin í notkun 1955. Eftir 1980 stóð til að rífa Fjalaköttinn, stórhýsi úr timbri við hlið Morgunblaðshallarinnar þar sem meðal annars hafði verið fyrsta kvikmyndahúsið í Reykjavík. Eftir miklar deilur var húsið rifið 1985 og í stað þess reis fjögurra hæða skrifstofu- og verslunarhús 1990. Árið 2003 var reist sex hæða hótelbygging við Aðalstræti 4, hinum megin við Morgunblaðshöllina.

Húsnúmer[breyta | breyta frumkóða]

Frá norðurenda Aðalstrætis, þar sem hún mætir Vesturgötu og Hafnarstræti, eru húsnúmer í Reykjavík talin. Er þá miðað við að séð frá þeim gatnamótum séu oddatöluhús vinstra megin við götu en hús með sléttum tölum hægra megin. Á sama hátt heitir Austurstræti svo vegna þess að það liggur í austur frá Aðalstræti, Vesturgata sömuleiðis í vestur og Suðurgata í suður (og reyndar örgatan Norðurstígur í norður).

Forn hús við Aðalstræti[breyta | breyta frumkóða]

  • Fjalakötturinn, elsta kvikmyndahús í heimi þegar húsið var rifið 1985.
  • Gamli klúbbur og nýi - Thomas Henrik Thomsen veitingamaður í „klúbbnum“, bjó í gamla klúbbnum (Scheelshúsi), er stóð fyrir suðurenda Aðalstrætis. Skömmu síðar (eftir 1844) var nýi klúbburinn reistur. Hann varð síðar aðsetur Hjálpræðishersins. Stóð nokkur hluti gamla klúbbsins að baki Herkastalans, þangað til hann var rifinn og hið nýja hús hersins var reist (um 1916).
  • Ullarstofan - Ullarstofan var hús Innréttinganna og stóð syðst í Aðalstræti. Þar stóð síðar hús Davíðs Helgasonar Ólafssonar Bergmanns sem hann reisti um 1830, og þar sem núna er veitingastaðurinn Uppsalir.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi Reykjavíkurgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.