Reykjanesbær

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Reykjanesbær
Sveitarfélag
Keflavik town from the harbor.jpg
Reykjanesbær séð frá hafi úti
Skjaldarmerki Reykjanesbaejar.png
Merki
Reykjanesbær Loc.svg
Staðsetning Reykjanesbæjar
Hnit: 64°0′4″N 22°33′7″V / 64.00111°N 22.55194°A / 64.00111; 22.55194
KjördæmiSuðurkjördæmi
Flatarmál
– Samtals
53. sæti
145 km²
Mannfjöldi
– Samtals
Þéttleiki
4. sæti
22.059 (2023)
152,13/km²
BæjarstjóriKjartan Már Kjartansson
ÞéttbýliskjarnarKeflavík
Njarðvík
Ásbrú
Hafnir
Sveitarfélagsnúmer2000
Póstnúmer230, 232, 233, 235, 260
reykjanesbaer.is

Reykjanesbær er sveitarfélag á utanverðum Reykjanesskaga, hið fjórða fjölmennasta á Íslandi, með 22.592 íbúa (2023). Sveitarfélagið var stofnað 11. júní 1994 við sameiningu þriggja sveitarfélaga: Keflavíkurkaupstaðar, Njarðvíkurkaupstaðar og Hafnahrepps. Einnig er hverfið Ásbrú hluti bæjarins. Ásamt fleiri byggðarlögum á Reykjanesskaga telst Reykjanesbær vera hluti af Suðurnesjum. Fá sveitarfélög á Íslandi hafa vaxið með sama hraða og Reykjanesbær, með íbúafjölgun yfir 40% á tímabilinu.

Í Keflavík hefur verið miðstöð verslunar á Suðurnesjum frá alda öðli. Mikilvægi staðarins markaðist fyrst og fremst af miklu framboði af fiski sem veiddist steinsnar frá landinu. Jarðirnar Innri- og Ytri-Njarðvík og jarðeignir í Hafnahreppi voru alla tíð eftirsóttar sökum nálægðar við fiskimiðin. Útgerð var með miklum blóma allt fram undir lok 20. aldar þegar kvótinn var að mestu seldur úr bæjarfélaginu. Hægt er að kynna sér þessa sögu í Duus Safnahúsum.

Í seinna stríði hóf Bandaríkjaher byggingu Keflavíkurflugvallar sem hefur verið í rekstri alla tíð síðar. Lengst af var flugvöllurinn rekinn í samvinnu við varnarliðið sem hafði aðsetur við flugvöllinn. Herstöðin var lögð niður árið 2006 eftir um hálfrar aldar starfsemi á vellinum. Þótt þessar miklu sviptingar hafi haft mikil áhrif á bæjarlífið þá hafa þær ekki dregið máttinn úr samfélaginu.

Í dag er aðaleinkenni Reykjanesbæjar fjölbreytni, hér má finna mennta- og þjónustustofnanir, verslanir, hótel, iðnaðar og frumkvöðlafyrirtæki. Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein og gamla varnarsvæðið hefur orðið að nýju íbúðahverfi, Ásbrú. Þar er Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, ásamt frumkvöðlasetri og sprotafyrirtækjum.

Árlega er haldin hátíð í Reykjanesbæ, sem kallast Ljósanótt. Þetta er mikil menningarhátíð með margs konar sýningum, tónleikum og samkomum af öllu tagi. Hátíðin er haldin fyrstu helgina í september frá fimmtudegi til sunnudags. Hápunktur hátíðarinnar er á laugardagskvöldinu, en þá er flugeldasýning og í lok hennar er kveikt á ljósum, sem lýsa upp Bergið (Keflavíkurberg, Hólmsberg).

Reykjanesbær er innan Reykjanes jarðvangs, sem er vottaður af Unesco, Mennta- og menningarmálastofnun sameinuðu þjóðanna.

Merki Reykjanesbæjar, Súlan[breyta | breyta frumkóða]

Í suðvestur frá Reykjanesi rís móbergskletturinn Eldey og leiðir hugann að ævarandi umbrotum jarðskorpunnar. En þar dafnar líka fjörugt og lifandi samfélag, súlubyggð, sem er þekkt langt út yfir strendur Íslands fyrir að vera með þeim stærstu í heimi. Margir telja súluna einn glæsilegasta sjófuglinn á norðurhveli jarðar og veiðiaðferðir hennar, svonefnt súlukast, vekur furðu áhorfenda- og forvitni hinna sem um heyra, enda fáheyrt að fuglar steypi sér úr ógnarhæðum ofan í hafdjúpið og grípi síðan feng sinn á uppleiðinni.

Fáir munu draga í efa að súlubyggðin í Eldey undan Reykjanesi sé einstakt náttúrufyrirbæri sem nágrannar í mannabyggðum mega vera stoltir af. Það er því vel við hæfi að bæjarfélag sem kennir sig við Reykjanes geri súluna að einkennisfugli. Súlan verður þá tákn hinnar ómetanlegu náttúru. En jafnframt getur hún verið tákn fyrir athafnalíf. Súlan er félagslyndur fugl og býr þröngt, svo helst minnir á þéttbýli mannfólksins, forsendu blómlegra viðskipta. Súlan sækir lífsbjörgina í sjóinn eins og menn hafa gert um aldir og súlan ræður yfir flugtækninni sem varð mönnum hvati til að virkja draum sinn og svífa sjálfir um loftin.

Á merkinu rís upp hvít súla sem tákn um lifandi samfélag. Súlan breiðir út vængina og hefur sig til flugs. En um leið eiga vængirnir að minna á hvítfyssandi öldur. Grunnflöturinn er blár, himinn og haf. Höfundur merkisins er Guðjón Davíð Jónsson.

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist
  1. Vinabæir Reykjanesbær.is, sótt 9/2 2023