Fara í innihald

Listasafn Einars Jónssonar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Listasafn Einars Jónssonar er listasafn á Skólavörðuhæð í Reykjavík. Hús safnsins heitir Hnitbjörg. Í safninu eru verk Einars Jónssonar, bæði höggmyndir og málverk, varðveitt og höfð til sýnis. Safnið starfar samkvæmt arfleiðsluskrá Einars Jónssonar og Önnu Jørgensen Jónsson konu hans, frá 11. september 1954. Arfleiðsluskráin ber með sér að hlutverk safnsins sé að varðveita, sýna og rannsaka verk Einars Jónssonar, halda skrá yfir þau, heimildir um æviferil og fleira er tengist lífi og list listamannsins. Safnið var gjöf Einars til íslenska ríkisins.

Saga safnsins[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1909 bauð Einar Jónsson íslensku þjóðinni öll verk sín að gjöf með því skilyrði að reist yrði yfir þau safn. Árið 1914 þáði Alþingi gjöfina og lagði fram 10.000 krónur ásamt því að í söfnun meðal almennings söfnuðust 20.000 krónur.

Byggingin[breyta | breyta frumkóða]

Þýskur vísindaleiðangur heimsækir Hnitbjörg sumarið 1925

Safnið er byggt eftir teikningum Einars sjálfs en Einar Erlendsson húsameistari áritaði teikninguna 1916. Listasafn Einars Jónssonar var vígt á Jónsmessudag 24. júní árið 1923. Á þeim tíma hafði ekkert húsnæði verið byggt sem sérstakt safnhús yfir íslenska list hér á landi og var því Hnitbjörg fyrsta byggingin sem gegndi því hlutverki á Íslandi. Einar valdi stað fyrir safnið á Skólavörðuhæð sem þá var eyðiholt í útjaðri bæjarins og var safnið fyrsta byggingin á hæðinni en það var hæsti sjónarhóll bæjarins. Einar og fleiri samtíðarmenn sáu Skólavörðuhæðina sem „háborg Íslands“.

Íbúð listamannsins[breyta | breyta frumkóða]

Í turnhýsi safnsins, þar sem Einar og kona hans Anna Jörgensen bjuggu, er einstakt útsýni yfir Reykjavík. Íbúðin í turnhýsinu, sem er hluti af safninu og varðveitt í upphaflegri mynd, er búin fágætum húsgögnum og listaverkum frá tíð Einars og Önnu.

Garðurinn[breyta | breyta frumkóða]

Við safnið er höggmyndagarður og í honum eru 26 bronsafsteypur af verkum Einars. Sumar þeirra voru steyptar í tíð Einars og voru áður innan veggja safnsins en síðar færðar út í garð ásamt nýjum afsteypum. Á tímum þeirra Einars og Önnu lögðu þau mikla vinnu í að rækta garðinn á meðan þau bjuggu í safnhúsinu, en sagt er að Einar hafi sjálfur gróðursett allar plönturnar og sett niður elstu trén sem nú má sjá í garðinum. Höggmyndagarðurinn var formlega opnaður 8. júní árið 1984, en þá höfðu framkvæmdir staðið yfir í þónokkurn tíma og margir komið að þeirri vinnu.

Konungur Atlantis

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]