Fara í innihald

Laugardalur

Hnit: 64°08′45″N 21°52′45″V / 64.14583°N 21.87917°V / 64.14583; -21.87917
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Laugardalur (hverfi))

64°08′45″N 21°52′45″V / 64.14583°N 21.87917°V / 64.14583; -21.87917

Göngustígur í Laugardal.
Þvottalaugarnar í Laugardal árið 1911.

Laugardalur er hverfi í Reykjavík. Til hverfisins teljast borgarhlutarnir Tún, Teigar, Lækir, Laugarnes, Sund, Heimar, Langholt, Vogar, Skeifan og Fen. Hverfið dregur nafn sitt af stóru íþrótta- og útivistarsvæði, Laugardalnum sem er í miðju hverfisins. Á því svæði eru m.a. Þvottalaugarnar, Laugardalslaug, Laugardalshöll, Grasagarður Reykjavíkur og Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn. Sigurður málari setti fram þá hugmynd árið 1871 að Laugardalur yrði íþrótta- og útivistarsvæði fyrir íbúa Reykjavíkur. Mýrin í Laugardal var ræst fram árið 1946.

Í hverfinu eru þrjú stór iðnaðar- og verslunarhverfi: Skeifan og Glæsibær, Vogarnir með Sundahöfn og Holtagarða, og Borgartún. Inni í íbúðahverfunum er líka mikið um verslun og atvinnuhúsnæði í bland. Við Laugalæk er til dæmis klasi af matvælaverslunum og matvælaframleiðendum. Á Laugarási norðaustan við Laugardalinn eru friðlýstar ísaldarminjar. Sundahöfn er gámahöfn með viðlegukanta fyrir stór skemmtiferðaskip. Þar er líka lítil ferjuhöfn þaðan sem Viðeyjarferjan gengur út í Viðey. Sundahöfn er stærsta höfn Íslands.[1] Vestan við hana er stórt iðnaðar- og verslunarhverfi (Garðar).

Ásmundarsafn og Listasafn Sigurjóns Ólafssonar eru í Laugardalshverfinu. Þessi söfn eru staðsett í húsum þar sem heimili og vinnustofur listamannanna Ásmundar og Sigurjóns voru. Stærstu íþróttafélögin í hverfinu eru Glímufélagið Ármann og Knattspyrnufélagið Þróttur. Mörg íþróttafélög eru með starfsemi sína í hverfinu, eins og Karatefélag Reykjavíkur, Tennis- og badmintonfélag Reykjavíkur, Skylmingafélag Reykjavíkur og sundfélögin.

Í hverfinu eru grunnskólarnir Langholtsskóli, Laugarnesskóli, Laugalækjarskóli og Vogaskóli. Menntaskólinn við Sund er í hverfinu. Listaháskóli Íslands rekur listnámsbrautir í gömlu sláturhúsi Sambandsins við Laugarnesveg. Kirkjur í hverfinu eru Laugarneskirkja, Áskirkja og Langholtskirkja.

Íbúar í Laugardalshverfi voru 18.730 árið 2023.[2]

Eiríkur Hjartarson rafmagnsfræðingur og kona hans, Valgerður Halldórsdóttir, byggðu hús um 1929 í Laugamýri og nefndu það eftir Laugardal í Biskupstungum. Valgerður var ættuð þaðan en fædd í Vesturheimi. Íþróttahöllin sem reis þar í grenndinni um 1960 fékk nafn sitt af þessu húsi en síðan festist það smám saman við næsta nágrenni og hin síðustu ár hefur það verið haft um allt hverfið innan marka hins gamla Laugarneslands - og meira til.[3] Eiríkur og Valgerður hófu ræktun við hús sitt og komu upp sannkölluðum sælureit, sem varð löngu seinna undirstaða grasagarðsins í Laugardal.

Kort sem sýnir afmörkun hverfisins.

Í vestur markast hverfið af línu sem dregin er eftir miðri Snorrabraut. Í austur markast hverfið af Elliðaám, syðri kvísl. Í suður markast hverfið af línu sem er dregin um eftirtaldar götur og skal miðað við miðju þeirra: Hverfisgötu, Laugaveg, Suðurlandsbraut, Grensásveg og Miklubraut. Í norður markast hverfið af sjó. Stærstur hluti hverfisins er í póstnúmeri 104, en vestasti hlutinn er í póstnúmeri 105.

Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er borginni skipt í 10 borgarhluta. Samkvæmt því er Laugardalur borgarhluti IV. Innan hans eru hverfin Tún, Teigar, Lækir, Laugarás, Laugardalur, Sund, Heimar, Vogar, Merkur, Sundahöfn og Skeifan.

Múlahverfi tilheyrir ekki Laugardal, heldur Háaleiti og Bústöðum, þar sem mörkin eru dregin við Suðurlandsbraut, en ekki Miklubraut. Hins vegar fylgja Túnin Laugardal fremur en Hlíðum, þrátt fyrir að vera í póstnúmeri 105.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Helga Maureen Gylfadóttir o.fl (2014). Byggðakönnun: Borgarhluti 4-Laugardalur (PDF) (Report). Reykjavík: Minjasafn Reykjavíkur. bls. 19. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 15. janúar 2024. Sótt 15. janúar 2024.
  2. „Mannfjöldi eftir hverfum í Reykjavík, kyni og aldri 1. janúar 2011-2023“. Hagstofa Íslands.
  3. Jónas Guðmundsson (1975). „Eldri en rafmagnið“. Tíminn. 59 (131): 10–11.
  Þessi Reykjavíkurgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.