Seyðisfjörður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fyrir fjörðinn á Vestfjörðum, sjá Seyðisfjörður (Ísafjarðardjúpi).
Seyðisfjörður 2019.
Byggðamerki fyrrum Seyðisfjarðarkaupstaðar
Kort af Seyðisfjarðarkaupstað árið 2020 fyrir sameiningu við Múlaþing
Seyðisfjörður um 1900.

Seyðisfjörður (áður fyrr einnig nefndur Seyðarfjörður) er kaupstaður í botni samnefnds fjarðar á Austfjörðum. Staðurinn óx kringum síldveiðar- og vinnslu. Íbúar voru 685 árið 2019.

Bærinn fékk kaupstaðarréttindi 1. janúar 1895 og var þá skilinn frá Seyðisfjarðarhreppi. Kaupstaður og hreppur sameinuðust á ný 1. apríl 1990, þá undir merkjum kaupstaðarins. Nú er Seyðisfjörður hluti af sveitarfélaginu Múlaþingi.

Kirkjan á Seyðisfirði.

Seyðisfjörður er þekktur fyrir fjölskrúðugt menningarlíf en þar er árlega haldin Listahátíðin Á seyði en partur af henni eru sumartónleikaröðin Bláa kirkjan og LungA (Listahátíð ungs fólks, Austurlandi). Auk þess heldur safnið árlega Smiðjuhátíð vikuna eftir Lunga. Á Seyðisfirði má einnig finna myndlistarmiðstöðina Skaftfell sem stendur fyrir myndlistasýningum allt árið. Í bænum er einnig eina starfandi kvikmyndahúsið á Austurlandi. Bærinn á sér merka sögu sem hægt er að kynna sér með því að heimsækja Tækniminjasafn Austurlands sem hefur á safnasvæði sínu meðal annars elstu vélsmiðju landsins og fyrstu ritsímastöð landsins. Fjarðarselsvirkjun (gangsett 1913), sem er í eigu Rarik, er fyrsta riðstraums- og bæjarveitan á Íslandi. Árið 2003 var stöðvarhúsið gert upp og á efri hæðinni komið fyrir sýningu.

Til Seyðisfjarðar siglir færeyska ferjan Norræna frá Færeyjum en þaðan siglir hún jafnframt til Danmerkur. Er þetta eina leiðin fyrir þá sem vilja fara til og frá Íslandi með bíl (utan þess að flytja bílinn með gámaskipi).

Þar hefur verið sjálfvirk veðurathugunarstöð síðan 1995.

Í desember 2020 féllu margar aurskriður á bæinn í kjölfar mikilla rigninga en um 570 mm úrkoma féll á 5 dögum. 14 hús eyðilögðust og voru allir íbúar bæjarins fluttir burt tímabundið. [1] Þar á meðal voru vernduð og sögufræg hús. [2] Skriðan var sú stærsta sem fallið hefur á þéttbýli á Íslandi. Viðbragðsaðilar og nokkrir íbúar voru á svæðinu og í nágrenninu og sluppu sumir naumlega undan stærstu skriðunni. [3]

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Í bæjarstjórn Seyðisfjarðar sitja 7 fulltrúar sem kjörnir eru af íbúum bæjarins yfir 18 ára aldri á fjögurra ára fresti. Bæjarstjórn skipar bæjarráð sem fer með fjármálastjórn bæjarins og aðrar fastanefndir sem fjalla um afmörkuð svið. Forseti bæjarstjórnar er æðsti yfirmaður hennar og hún kemur saman á opnum fundum einusinni í mánuði en bæjarráð fundar vikulega.

Bæjarstjórinn er æðsti starfsmaður bæjarins og heldur utan um daglegan rekstur sveitarfélagsins, hann er ráðinn af bæjarstjórninni og getur verið, hvort heldur sem er, kjörinn bæjarfulltrúi eða utanaðkomandi.

Áhugaverðir staðir, þjónusta og afþreying[breyta | breyta frumkóða]

Seyðisfjörður er af mörgum talinn vera á mörkum hins byggilega sökum náttúrulegrar legu fjarðarins, átök við móður náttúru hafa vísast mótað þá sem þar búa. Frá náttúrunnar hendi er hafnaraðstaðan í firðinum einstök sem hefur gert Seyðisfjörð að mikilvægri samgönguæð allt frá aldamótunum 1900 til dagsins í dag. Er það einkum vegna nálægðarinnar við meginland Evrópu. Eina farþega- og bílferjan sem siglir milli Íslands og meginlands Evrópu kemur til Seyðisfjarðar vikulega. Litrík, norskættuð timburhúsin frá aldamótunum 1900 gera Seyðisfjörð einstakan meðal bæja á Íslandi. Lista- og menningarstarfsemi er blómleg á Seyðisfirði, sérstaklega yfir sumartímann. Fjölmargir listamenn hafa komið við sögu, þeim fjölgar stöðugt sem eignast hafa athvarf í bænum eða dvelja við listsköpun. Skaftfell miðstöð myndlistar stendur fyrir sýningum árið um kring, verk eftir hinn heimskunna listamann Dieter Roth er þar að finna m.a. Dieter dvaldi löngum á Seyðisfirði en hann lést árið 1998. Um 700 manns búa nú á Seyðisfirði, fiskvinnsla og útgerð hafa verði aðalatvinnuvegurinn fram til þessa, en ferðaþjónusta vex stöðugt.

Skaftfell - myndlistarmiðstöð Austurlands[breyta | breyta frumkóða]

Starfsemi Skaftfells er helguð myndlist, með megin áherslu á samtímalist. Í Skaftfelli er öflugt sýningarhald, gestavinnustofur fyrir listamenn og kaffistofa með góðu myndlistar bókasafni. Skaftfell leggur áherslu á að vera tengiliður á milli leikinna og lærðra og stendur fyrir fjölþættu fræðslustarfi, jafnt á fjóðungs vísu og á alþjóðlegum grundvelli.

Tækniminjasafn Austurlands[breyta | breyta frumkóða]

Seyðisfjörður (1885)

Tækniminjasafn Austurlands fjallar aðallega um þann tíma er nútíminn var að hefja innreið sína á landinu um 1880 - 1950. Safnið sýnir hvernig tæknibreytingar á fjölmörgum sviðum, t.d. véltækni, rafmagn, fjarskipti, samgöngur og byggingalist eru samofnar breytingum á lifnaðarháttum og umhverfi. Þann 18. desember 2020 stórskemmdist safnið í aurskriðu sem féll á bæinn.

Fjarðarselsvirkjun[breyta | breyta frumkóða]

Markaði afgerandi tímamót og er elsta starfandi virkjun Íslands, stofnsett 1913, og lítt breytt frá upphafi. Það út af fyrir sig gerir hana mjög forvitnilega. En auk þess er hún ein af þremur til fjórum virkjunum sem mörkuðu afgerandi mest tímamót á öldinni. Meðal annars var hún fyrsta riðstraumsvirkjunin og frá henni var lagður fyrsti háspennustrengurinn. Ennfremur var hún aflstöð fyrstu bæjarveitunnar. Fyrir 90 ára afmæli stöðvarinnar árið 2003 ákvað RARIK að leggja áherslu á það vægi sem virkjunin hefur í raforkusögu landsins og hafa hana til sýnis fyrir innlenda og erlenda gesti. Í því skyni var sett upp minjasýning í stöðvarhúsinu og stöðvarhúsið og næsta nágrenni lagfært. Nokkrum árum áður var virkjunarsvæðið endurskipulagt. Nálægð virkjunarinnar við Seyðisfjörð eykur einnig gildi hennar fyrir bæjarbúa og til dæmis eru hvammurinn og gilið hluti af útivistarsvæði Seyðfirðinga.

Seyðisfjarðarkirkja[breyta | breyta frumkóða]

Þegar eftir kristnitöku var víða farið að reisa kirkjur eða bænhús á Íslandi. Á Þórarinsstöðum við Seyðisfjörð fundust við fornleifauppgröft 1998 leifar af tveimur stafkirkjum frá því um 1000, einnig þrír krossar, altarissteinn, grafir o.fl. frá sama tíma. Kenningar eru uppi um að það kunni að hafa verið fyrsta kristna kirkjan í Seyðisfirði. Þjóðsagan segir að kirkjan hafi verði flutt frá suður ströndinni yfir á norðurströndina og að Dvergakirkjan hafi siglt á eftir (Dvergasteinn). Heimildir eru fyrir því að kirkja hafi staðið á Dvergasteini sem er á norðurströnd Seyðisfjarðar um aldamótin 1200 fram á nítjándu öld. Hítardalsbók geymir máldaga frá 1367 og þar segir að Dvergasteinskirkja sé Maríukirkja. Kirkjan var flutt inn á Vestdalseyri seinni hluta nítjándu aldar, þar sem hún var reist á hjallanum ofan eyrarinnar ( Á Kirkjukletti) með mikið og gott útsýni yfir fjörðinn. Þar komu oft ill veður og í einu slíku feyktist kirkjan um koll. Var hún þá flutt niður á eyrina þar sem hún stóð fram til 1921 en þá var hún flutt á þann stað sem hún stendur enn þann dag í dag. Viðir kirkjunnar frá Vestdalseyri voru notaðir í nýju kirkjuna á Fjarðaröldu. Lifir því gamla kirkjan enn í kirkjunni sem nú stendur í hjarta bæjarins. Róðukross er meðal kirkjugripa í Seyðisfjarðarkirkju sem er ein af helstu táknmyndum kristinnar trúar en er algengari meðal kaþólikka en mótmælenda.

"Einhverra hluta vegna stendur kirkjan á Fjarðaröldunni öfugt við kirkjur á Íslandi. Hún snýr norður/suður en venja er að kirkjur snúi austur/vestur. Hún ætti að snúa eins og safnaðarheimilið snýr í dag. 20. febrúar árið 1989 kom upp eldur í kirkjunni með hörmulegum afleiðingum. Neisti hafði komist í einangrun kirkjunnar þegar verið var að gera við hana. Eldurinn breiddist á örskammri stundu út um mestalla kirkjuna. Klæðningin innan á veggjum og lofti var brunnin og skemmd. Skírnaraltarið til hliðar við kórinn var horfið og einnig altaristafla frá 1901. Gripir á ölturum skemmdust eða eyðilögðust. Gamlar kertaljósakrónur í loftum sömuleiðis og skírnarfonturinn var stórskemmdur. Orgelið eyðilagðist og flygill sömuleiðis. Bæjarbúar voru slegnir yfir þessum atburði en endurbygging hófst fljótlega. Að 15 mánuðum liðnum var endurbyggingu lokið, endurvígsla fór fram 20. maí 1990." (Heimildir: Byggðasaga Seyðisfjarðar – Kristján Róbertsson 1995)

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Íþróttafélög á Seyðisfirði eru Íþróttafélagið Huginn (knattspyrna, handbolti, blak, og fleira), Viljinn (Boccia), Golfklúbbur Seyðisfjarðar (golf) og 06. apríl (knattspyrna). Auk þess starfar SkíS skíðafélagið í Stafdal í Stafdal, en það er félag sem er sameiginlegt skíðafélag íbúa Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar.

Gufufoss

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]


  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.


Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Bærinn er í rúst Rúv, skoðað 18. desember 2020
  2. 14 hús hrunin eða horfin á SeyðisfirðiVísir. 22/12 2020.
  3. Stóra skriðan á Seyðisfirði sú stærsta sem fallið hefur á þéttbýli á Íslandi Vedurstofan, skoðað 25/12 2020.