Einar Þorsteinsson (f. 1978)
Einar Þorsteinsson | |||||
---|---|---|---|---|---|
Borgarstjóri Reykjavíkur | |||||
Í embætti 16. janúar 2024 – 21. febrúar 2025 | |||||
Forveri | Dagur B. Eggertsson | ||||
Eftirmaður | Heiða Björg Hilmisdóttir | ||||
Borgarfulltrúi í Reykjavík | |||||
| |||||
Persónulegar upplýsingar | |||||
Fæddur | 24. desember 1978 | ||||
Stjórnmálaflokkur | Framsóknarflokkurinn | ||||
Maki | Milla Ósk Magnúsdóttir | ||||
Börn | 3 |
Einar Þorsteinsson (f. 24. desember 1978) er íslenskur stjórnmálamaður sem að gegndi embætti borgarstjóra Reykjavíkur frá janúar 2024 til febrúar 2025. Einar er fyrrum íslenskur sjónvarpsmaður og oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur frá 2022.
Menntun og fyrri störf
[breyta | breyta frumkóða]Einar var meðlimur í Sjálfstæðisflokknum á yngri árum og var um skeið formaður Týs, deildar Ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi.[1] Hann vann um árabil sem fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu og varð þar einkum kunnur sem stjórnandi Kastljóss. Hann vakti athygli í fréttum og fréttatengdum þáttum fyrir beinskeytt viðtöl sín.[2]
Einar hætti störfum hjá RÚV í janúar 2022 eftir að honum bauðst starf annars staðar.[3] Hann kunngerði í mars sama ár að hann vildi leiða lista Framsóknarflokksins í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningunum það ár.[4] Einar var kynntur sem borgarstjóraefni Framsóknar í kosningunum þann 10. mars.[5]
Stjórnmálaferill
[breyta | breyta frumkóða]Í kosningunum vann Framsóknarflokkurinn fjóra borgarfulltrúa en hafði ekki haft neinn eftir síðustu kosningar. Gjarnan var því talað um flokkinn sem sigurvegara kosninganna.[6] Niðurstaða stjórnarmyndunarviðræða var að Framsókn gekk í meirihlutasamstarf ásamt Samfylkingu, Viðreisn og Pírötum þar sem Dagur B. Eggertsson gegndi áfram borgarstjóraembætti á fyrri helmingi kjörtímabilsins en Einar á hinum síðari. Einar tók við af Degi sem borgarstjóri þann 16. janúar 2024.
Einar sleit meirihlutasamstarfinu þann 7. febrúar 2025 og vísaði til ágreinings milli stjórnarflokkanna, einkum í tengslum við framtíð Reykjavíkurflugvallar. Hann tilkynnti að hann hygðist hefja viðræður um nýjan meirihluta við Sjálfstæðisflokk, Viðreisn og Flokk fólksins.[7] Meirihlutaviðræðurnar gengu ekki upp þar sem Flokkur fólksins vildi ekki starfa í meirihluta með Sjálfstæðisflokknum.[8] Því var myndaður nýr meirihluti 21. febrúar með Samfylkingu, Vinstri grænum, Sósíalistaflokknum, Pírötum og Flokki fólksins með Heiðu Björg Hilmisdóttur sem borgarstjóra. Því lét Einar af embætti borgarstjóra.[9]
Einkalíf
[breyta | breyta frumkóða]Einar er giftur Millu Ósk Magnúsdóttur, aðstoðarmanni heilbrigðisráðherra og fyrrum fréttamanni. Þau eignuðust son árið 2022 en fyrir átti Einar tvær dætur frá fyrra hjónabandi.[10]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Aðalheiður Ámundadóttir (29. janúar 2022). „Einar Þorsteinsson orðaður við framboð til forystu í Kópavogi“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. apríl 2023. Sótt 21. maí 2022.
- ↑ Einar Þór Sigurðsson (3. janúar 2022). „Einar Þorsteinsson hættur hjá RÚV“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. apríl 2023. Sótt 21. maí 2022.
- ↑ Bára Huld Beck (3. janúar 2022). „Einar Þorsteinsson hættir á RÚV“. Kjarninn. Sótt 21. maí 2022.
- ↑ Bára Huld Beck (4. mars 2022). „Einar Þorsteinsson vill leiða lista Framsóknar í Reykjavík“. Kjarninn. Sótt 21. maí 2022.
- ↑ Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (10. mars 2022). „Einar Þorsteinsson borgarstjóraefni Framsóknar“. Vísir. Sótt 21. maí 2022.
- ↑ „Ekki óeðlilegt að Framsókn fái borgarstjórastólinn“. mbl.is. 16. maí 2022. Sótt 21. maí 2022.
- ↑ Brynjólfur Þór Guðmundsson; Alexander Kristjánsson (7. febrúar 2025). „Einar slítur meirihlutasamstarfinu“. RÚV. Sótt 7. febrúar 2025.
- ↑ Eiður Þór Árnason (21. febrúar 2025). „Líst illa á að vinna með Sjálfstæðisflokki sem hafi sýnt „hatur og heift"“. Vísir. Sótt 21. febrúar 2025.
- ↑ Hugrún Hannesdóttir Diego (21. febrúar 2025). „Nýr meirihluti í borginni: Heiða Björg verður borgarstjóri“. RÚV. Sótt 21. febrúar 2025.
- ↑ Einar og Milla eignuðust son Geymt 14 apríl 2022 í Wayback Machine Fréttablaðið, sótt 20. maí 2022