Sandgerði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Byggðamerki fyrrum Sandgerðisbæjar

Sandgerðisbær (áður Miðneshreppur) var sveitarfélag á utanverðum Reykjanesskaga, en það sameinaðist sveitarfélaginu Garði þann 10. júní 2018[1]. Náði Sandgerði yfir alla vesturströnd Miðness (Rosmhvalaness), allt út að Garðskaga. Hið sameinaða sveitarfélag Sandgerðis og Garðs heitir Suðurnesjabær.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Miðneshreppur var stofnaður árið 1886 þegar Rosmhvalaneshreppi var skipt í tvennt eftir endilöngu nesinu. Hélt hinn hlutinn gamla nafninu áfram en hann náði yfir byggðirnar innan megin á nesinu: Garð, Leiru og Keflavík. Miðneshreppur varð bæjarfélag 3. desember 1990 og nefndist upp frá því Sandgerðisbær.

Sandgerðishverfi er eitt af sjö hverfum Miðneshrepps/Sandgerðis og talið að sunnan frá Ósabotnum nefnast þau: Stafneshverfi, Hvalsneshverfi, Fuglavíkurhverfi, Bæjarskershverfi, Sandgerðishverfi, Flankastaðahverfi og Kirkjubólshverfi.

Við jarðamatið 1861 voru fimm býli skráð í Sandgerðishverfi: Krókskot, Landakot, Tjarnarkot, Bakkakot, auk Sandgerðisjarðar. Eignarhald á þessum býlum var mismunandi, sum voru hjáleigur frá Sandgerðisjörð en önnur sjálfstæðar jarðir. Til dæmis var Krókskotjörð seld 1840 og hefur síðan verið sjálfstæð útvegsjörð. Kaupandi var Bjarni Jónsson (1782–04.07.1859), sem fæddist að Rauðnefsstöðum á Rangárvöllum. Landakot og Tjarnarkot voru einnig aðskilin frá Sandgerðisjörð. Hins vegar var Bakkakot alla tíð tómthús, án landréttinda og hvarf úr ábúð um 1900. Sjálfstæðu jarðirnar fjórar eiga hlutdeild í sameiginlegum réttindum hverfisins. Auk heiðarlandsins sem allar fjórar jarðirnar eiga sameiginlega, eru svonefnd Lönd í sameign Krókskots og Sandgerðisjarðar.

Íbúar í Sandgerði voru rúmlega 1700 og hafði verið nokkur fjölgun síðustu áratugi sveitarfélagsins. Sjávarútvegur og fiskvinnsla voru helstu atvinnuvegir, einnig iðnaður, verslun og þjónusta í frekar smáum stíl. Allgóð höfn var í Sandgerði og höfðu viðamiklar hafnarframkvæmdir átt sér þar stað á seinni hluta 20. aldar. Flugstöð Leifs Eiríkssonar var innan bæjarmarka Sandgerðis.

Sandgerði var upphaflega útvegsjörð í betra lagi og bjuggu þar góðbændur, sem aðallega höfðu fiskinn í sjónum að bústofni. Eins og nafnið gefur til kynna er jarðvegur þarna mjög sendinn og ekki vel fallinn til ræktunar. Sandurinn var að miklu leyti heftur með umfangsmikilli ræktun melgresis og hleðslu mikils sjóvarnargarðs á fyrri hluta 20. aldar.

Í Sandgerði er Björgunarsveitin Sigurvon, sem er fyrsta björgunarsveit sem stofnuð var á vegum Slysavarnafélags Íslands. Rekur hún björgunarbátinn Hannes Þ. Hafstein og hefur mörgum verið bjargað úr sjávarháska og komið til aðstoðar vegna slysa eða sjúkdóma á hafi úti með þessum bát.

Sandgerðisbær náði frá Garðskagatá í norðri að Ósabotnum í suðri. Kirkjustaður er á Hvalsnesi, en þar var Hallgrímur Pétursson, sálmaskáld, (1614 - 1674) fyrst prestur árin 1644 - 1651.

Sandgerðisbær var draumasveitarfélag Suðurnesja árið 2007 og var í 13. sæti yfir öll sveitarfélög á Íslandi.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sand­gerði og Garður sam­ein­astMbl.is. Skoðað 17. nóv, 2017.
Wikibækur eru með efni sem tengist
Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist