Heiðmörk
Heiðmörk er skógræktar- og friðland við Elliðavatn austan Reykjavíkur. Svæðið er stærsta útivistarsvæði í nágrenni borgarinnar, um það bil 32 ferkílómetrar. Tæplega 90% svæðisins er gróið land og þar af um 20% ræktað skóglendi (m.a. sitkagreni, stafafura og bergfura) og 20% villtur birkiskógur og kjarr.[1] Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur umsjón með svæðinu og hefur sinnt uppgræðslu þar allt frá stofnun félagsins árið 1946 auk lagningu göngustíga og annarra verka. Göngustígar í Heiðmörk eru nú samtals um 40 kílómetrar að lengd.[2] Heiðmörk var gerð að friðlandi 25. júní 1950 og gaf Sigurður Nordal því núverandi nafn eftir samnefndu fylki í Noregi.[3]
Í Heiðmörk eru níu reitir ætlaðir sem áningastaðir og er þar hægt að spila boltaleiki, tjalda og grilla.[4]
Fólkvangurinn Rauðhólar eru eftirtektarvert kennileiti í Heiðmörk. Auk þeirra eru þar Gvendarbrunnar og önnur vatnstökusvæði Orkuveitu Reykjavíkur. En engin vatnsföll á svæðinu heldur liggja miklir grunnvatnsstraumar neðanjarðar.
Maríuhellar eru í Heiðmörk norðanverðri.
Hætta er á sinu og skógareldum í Heiðmörk í þurru veðri á vorin. Í maí 2021 brunnu um 6,6% lands á svæðinu. [5]
Fuglalíf í Heiðmörk
[breyta | breyta frumkóða]Fuglalíf er ríkulegast í og við votlendi eins og vatnasvið Elliðavatns (Elliðavatn, Myllutjörn, Helluvatn, Hraunstúnstjörn, Kirkjuhólmatjörn, Bugða, Hólmsá og Suðurá með Silungapolli) svo og við Vífilsstaðavatn. Þéttleiki fugla er mestur í barrskógi og lúpínu og eru fjórar tegundir algengustu varpfuglarnir hrossagaukur, þúfutittlingur, skógarþröstur og auðnutittlingur. Langmest er af skógarþresti og er hann um 45% allra varpfugla. [6]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Kristbjörn Egilsson og Guðmundur Guðjónsson. „Gróður í Heiðmörk“ (PDF). Náttúrufræðistofnun Íslands. Sótt 8. maí 2010.
- ↑ Skógræktarfélag Reykjavíkur. „Heiðmörk“. Sótt 8. maí 2010.
- ↑ Norðurferðir. „Heiðmörk“. Sótt 8. maí 2010.
- ↑ Skógræktarfélag Reykjavíkur. „Áningastaðir og aðstaða“. Sótt 8. maí 2010.
- ↑ 2 af 30 km2 Heiðmerkur brunnir Vísir.is, skoðað 5/5 2021
- ↑ Jóhann Óli Hilmarsson, Fuglalíf í Heiðmörk, 2010
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Heidmork.is - Skógræktarfélag Reykjavíkur.