Fara í innihald

Álfsnes

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þerney og Álfsnes

Álfsnes er nes á Kjalarnesi í Reykjavík. Fyrir sunnan Álfsnes er Leiruvogur og fyrir norðan er Kollafjörður. Á þessu svæði voru jarðirnar Álfsnes og Þerney. Hjáleigur Álfsness voru Glóra og Háheiði. Hjáleigur Þerneyjar voru Landakot sem var í Þerney og Sundakot og Víðines sem voru á  Kjalarnesi.

Á milli Álfsnes og Þerneyjar er Þerneyjarsund en þar var höfn á miðöldum, í túnfætinum á Sundakoti. Þegar útflutningur á skreið hófst frá á fyrri hluta 14. aldar þá urðu til hafnir sem lágu vel við sjósókn eins og Þerneyjarsund. Í annálum er á nokkrum stöðum minnst á Þerneyjarsund. Í Kjalnesinga sögu sem talin er rituð á 14. öld segir: „Eftir það býr Örlygur ferð sína og er frá ferð hans það fyrst að segja að allt gekk eftir því sem biskup sagði. Hann tók í Þerneyjarsundi höfn. Síðan fór hann að finna Helga bjólu og tók hann vel við honum. Reisti Örlygur þar nú bú og kirkju og bjó þar síðan til elli.“

Býlið Glóra (einnig nefnt Urðarholt) er talið vera farið í eyði laust fyrir aldamótin 1900. Eyðibýlið er norður undir Glóruholti í aflíðandi grasi gróinni brekku. Leifar af nokkrum hringlaga grjóthlöðnum fiskbyrgjum eru á vestanverðu Glóruholti en byrgin voru til að þurrka fisk eða geyma á meðan hann beið útflutnings.

Fyrirhugað er að Björgun flytji starfsemi sína á Álfsnes en fyrirtækið vinnur efni úr námum á sjávarbotni. Gert er ráð fyrir höfn með viðlegukanti fyrir sanddæluskip og efnisflutningaskip.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]