Fara í innihald

Kirkjubæjarklaustur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kirkjubæjarklaustur.
Kirkjugólfið á Kirkjubæjarklaustri

Kirkjubæjarklaustur eða Klaustur er sveitaþorp í Skaftárhreppi. Þar voru 196 íbúar 1. desember 2019. Á Kirkubæjarklaustri var áður nunnuklaustur og síðan stórbýli.

Kirkjubæjarklaustur hét upphaflega Kirkjubær á Síðu. Bærinn var landnámsjörð og bjó þar Ketill fíflski, sonur Jórunnar mannvitsbrekku, dóttur Ketils flatnefs. Hann var kristinn, en í Landnámu segir að áður hafi þar búið papar og heiðnir menn hafi ekki mátt búa á Kirkjubæ. Ekki er þess getið að Ketill hafi reist sér kirkju en þó kann svo að vera og hefur það þá líklega verið fyrsta kirkja á Íslandi. Þorlákur helgi dvaldist sex vetur á þessum stað á árunum 1162-1168.

Nunnuklaustur af Benediktsreglu var stofnað í Kirkjubæ 1186 og var þar til siðaskipta 1542. Á Sturlungaöld var Ögmundur Helgason staðarhaldari í Kirkjubæ en var gerður héraðsrækur eftir að hann lét taka Sæmund og Guðmund Ormssyni af lífi skammt frá Kirkjubæ 1252.

Kirkja var á Kirkjubæjarklaustri til 1859 en þá var hún flutt að Prestsbakka. Þekktastur presta þar á síðari öldum er séra Jón Steingrímsson eldklerkur, sem margir trúðu að hefði stöðvað hraunrennslið í farvegi Skaftár við Systrastapa með eldmessu sinni 20. júlí 1783. Hann er grafinn í kirkjugarðinum á Klaustri. Minningarkapella um hann var reist á Kirkjubæjarklaustri og vígð 17. júní 1974.

Kirkjubæjarklaustur er í fögru umhverfi við Skaftá og eru þar margir þekktir ferðamannastaðir á borð við Systrastapa, Systrafoss, Stjórnarfoss og Kirkjugólfið. Þar hafa verið gerðar mannaðar veðurathuganir síðan 1926. Grunnskóli er á Klaustri og þar er læknir, dýralæknir og héraðsbókasafn. Þar er gistihús, sundlaug, veitingasala og allmikil ferðamannaþjónusta.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]