Fara í innihald

Bakkagerði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bakkagerði í Borgarfirði.

Bakkagerði er lítið þorp við botn Borgarfjarðar eystri og gengur raunar oftast undir nafninu Borgarfjörður eystri (eystra) í daglegu tali. 77 manns bjuggu í þorpinu árið 2019 en um 109 í öllum Borgarfjarðarhreppi, sem nær yfir sveitina inn af firðinum og nærliggjandi víkur, svo og eyðifjörðinn Loðmundarfjörð.

Bakkagerði varð löggiltur verslunarstaður árið 1894 en fyrsta verslunarhúsið var reist þar ári fyrr. Þar er þó hafnleysa frá náttúrunnar hendi, kauptúnið stendur við vík fyrir opnu hafi en nú hefur hafnaraðstaða verið bætt töluvert með gerð smábátahafnar við Hafnarhólma. Nokkrir bátar eru gerðir út frá Bakkagerði og þar er fiskvinnsla.

Sérkennileg klettaborg, Álfaborg, er skammt innan við þorpið og er sagt að þar sé mikil huldufólksbyggð. Þar uppi er hringsjá sem sýnir fjallahringinn. Skammt frá borginni er Bakkagerðiskirkja. Hún var áður á Desjarmýri en var flutt til Bakkagerðis um aldamótin 1900.

Jóhannes Kjarval listmálari, sem ólst upp í Geitavík í Borgarfirði en var fæddur suður í Meðallandi, málaði mikið á þessum slóðum. Altaristaflan í Bakkagerðiskirkju er eitt af þekktari verkum Kjarvals, máluð árið 1914, og má þar sjá Jesú Krist flytja fjallræðuna af Álfaborg, með Dyrfjöll í baksýn, en ýmis kunn andlit úr Borgarfirði sjást meðal áheyrenda.

Í félagsheimilinu Fjarðarborg á Bakkagerði er Kjarvalsstofa til minningar um Jóhannes Kjarval og er þar reynt að sýna tengsl hans við heimabyggðina.

Grunnskóli er á Bakkagerði og þar er líka verslun og ýmis ferðamannaþjónusta.