Vesturbæjarlaug

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Anddyri Vesturbæjarlaugar.

Vesturbæjarlaug er almenningssundlaug í vesturbæ Reykjavíkur. Hún var tekin í notkun 25. nóvember 1961,[1] en gerðar hafa verið endurbætur 1976 og árið 2014 opnaði stór heitipottur með nuddstútum og iljanuddi. Barnalaugin er samtengd aðallauginni sem er 25 m. á lengd. Þrír smærri heitir pottar eru með mismunandi hitastig og einn kaldur pottur. Þar er einnig gufubað. Í Vesturbæjarlaug læra grunnskólabörn úr Melaskóla, Vesturbæjarskóla, Landakotsskóla og Grandaskóla sund. Sunddeild KR notar laugina líka fyrir sundnámskeið og sundæfingar.

Vesturbæjarlaugin þótti um margt nýstárleg þegar hún var opnuð. Hönnun hennar miðaðist við alls kyns afnot önnur en sund, með barnalaug, sólbaðssvæði og heitum pottum. Anddyri hússins var skreytt með veggmyndum eftir Barböru Árnason og þar var stórt fiskabúr með suðrænum skrautfiskum. Fyrst eftir opnun voru haldnar vinsælar tískusýningar á laugarbökkunum þar sem fyrirsætur komu fram í sundfötum.

Vesturbæjarlaug var fyrsta sundlaugin á Íslandi sem bauð upp á heita potta, sem arkitektinn Gísli Halldórsson hannaði og byggði á Snorralaug í Reykholti.[2] Pottar af þessari gerð voru upphaflega kallaðir „snorralaugar“. Þeir urðu það vinsælir að þeim var bætt við eldri laugar og voru hluti af hönnun nýrra lauga á Íslandi um áratugaskeið.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Sundlaug Vesturbæjar opnuð“. Morgunblaðið. 26. nóvember 1961.
  2. Kolbrún Bergþórsdóttir (29. janúar 2022). „Sundið sem sam­fé­lags­hönnun“. Fréttablaðið.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]