Fara í innihald

Höfn í Hornafirði

Hnit: 64°16.02′N 15°11.90′V / 64.26700°N 15.19833°V / 64.26700; -15.19833
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

64°16.02′N 15°11.90′V / 64.26700°N 15.19833°V / 64.26700; -15.19833

Höfn í Hornafirði

Höfn í Hornafirði er þéttbýlisstaður við Hornafjörð á Suðausturlandi og er aðal þéttbýliskjarni Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Þar bjuggu 1.710 árið 2019.

Búseta hófst á Höfn árið 1897 þegar kaupmaðurinn Ottó Tulinius fluttist þangað, ásamt fjölskyldu sinni, frá Papósi. Smám saman myndaðist þar þéttbýli í kringum verslun og útgerð og varð bærinn að sérstökum hreppi, Hafnarhreppi, í ársbyrjun 1946, en hafði fram að því heyrt undir Nesjahrepp. Hafnarhreppur varð bæjarfélag í árslok 1988 og hét eftir það einfaldlega Höfn, án nokkurs viðskeytis.[1] Hinn 12. júlí 1994 sameinuðust Höfn og Nesjahreppur á ný, ásamt Mýrahreppi, undir nafninu Hornafjarðarbær.

Þann 6. júní 1998 sameinuðust svo Hornafjarðarbær, Bæjarhreppur, Borgarhafnarhreppur og Hofshreppur undir nafninu Sveitarfélagið Hornafjörður.

Höfn í Hornafirði séð úr Óslandi
Vítt útsýni er yfir skriðjökla Vatnajökuls frá Höfn.

Eitt og annað[breyta | breyta frumkóða]

  • Mönnuð veðurathugunarstöð Veðurstofunnar er á Höfn og hefur hún verið starfrækt síðan 2006. Áður voru veðurathuganir gerðar í Akurnesi, býli um 8 km norðar.
  • Í eina tíð gekk Höfn í Hornafirði stundum undir nafninu Konsó. [2]
  • Í Grikklandsárinu eftir Halldór Laxness, segir á einum stað: „Verslun kom á Hornafjörð um aldamótin þegar Túliníusbræður af Eskifirði, búsettir í Kaupmannahöfn, beindu skipum sínum gegnum smuguna í eiðið, inní lygnan ósinn, og reistu þar á tánganum verslunarhús pakkhús og kaupmannsbústað. En verslunarkóngsríkið á Höfn varð víst ekki nema tvítugt. Eftir Ottó Túliníus, sem sneri heim aftur, kom Þórhallur Daníelsson til skjalanna og réði ríkjum [...]. Konúngsríki hans hafði ekki staðið nema rúman áratug þegar nýstofnað Kaupfélag skaftfellínga dró lið saman og velti kaupmanninum úr sessi. Þórhallur tók sér þá fyrir hendur útgerð og fiskverslun.“

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Höfn með bæjarréttindi (5. janúar 1989). Austurland. Timarit.is
  2. Orðabók um slangur, slettur, bannorð og annað utangarðsmál, 1982; bls. 68
  Þessi landafræðigrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.