Kvennaframboð í Reykjavík 1908-1916
Á árunum 1908-1916 buðu konur sig fram til embættis í sveitarstjórnarkosningum á Íslandi í fyrsta skiptið. Fyrstu konurnar sem settust í bæjarstjórn á Íslandi voru kjörnar af kvennalistum sem buðu fram til bæjarstjórnarkosninga í Reykjavík í janúar árið 1908. Í næstu fjórum kosningum bauð listinn fram og náði í öll skipti að koma manni að í bæjarstjórn.
Kosningaréttur kvenna í bæjarstjórnarkosningum
[breyta | breyta frumkóða]Konur höfðu fyrst fengið kosningarétt í bæjarstjórnarkosningum árið 1882. Þá fengu ekkjur og ógiftar konur eldri en 25 ára sem stóðu fyrir búi kosningarétt. Þær fengu þó ekki kjörgengi fyrr en 1902. Árið 1908 fengu giftar konur í Reykjavík og Hafnarfirði í fyrsta sinn kosningarétt og kjörgengi. Hjú og vinnufólk fékk ekki kosningarétt og kjörgengi í bæjarstjórnarkosningum fyrr en á árunum 1917 – 1926, þegar samræmd löggjöf var sett um allt land.
Kvennaframboðið 1908
[breyta | breyta frumkóða]Bríet Bjarnhéðinsdóttir átti hugmyndina að því að kvenfélögin í Reykjavík bæru fram sérstakan kvennalista árið 1908. Kvenfélögin sem stóðu að baki listanum voru fimm að tölu: Kvenréttindafélag Íslands, Hið íslenska kvenfélag, Thorvaldsensfélagið, Hvítabandið og Kvenfélagið Hringurinn. Fyrir utan Hið íslenska kvenfélag starfa öll félögin enn þann dag í dag. Efsta sæti á listanum var skipað Katrínu Magnússon, formanni Hins íslenska kvenfélags.
Framboðslisti kvennaframboðsins:
[breyta | breyta frumkóða]- Katrín Magnússon (1858-1932), formaður Hins íslenska kvenfélags
- Þórunn Jónassen (1850-1922), formaður Thorvaldsensfélagsins
- Bríet Bjarnhéðinsdóttir (1856-1940), formaður Kvenréttindafélags Íslands
- Guðrún Björnsdóttir (1853-1936), félagi í Kvenréttindafélagi Íslands
Kosningabaráttan
[breyta | breyta frumkóða]Konurnar skipulögðu framboðið mjög vel. Efnt var til fyrirlestra um lagalega stöðu kvenna, um nýju kosningalögin og um bæjar- og sveitarstjórnarmál. Þær skiptu bænum í níu hverfi og kusu nefndir sem höfðu það hlutverk að heimsækja hverja einustu konu með kosningarétt og hvetja hana til að kjósa. Þær opnuðu kosningaskrifstofu og gáfu út kosningastefnuskrá. Í stuttu máli má segja að þær hafi verið upphafsmenn að skipulögðum kosningaáróðri i Reykjavík.
Kosningarnar 1908
[breyta | breyta frumkóða]Í kosningunum voru alls bornir fram 18 listar í Reykjavík en þetta var aðeins í annað skiptið sem haldnar voru listakosningar á Íslandi. Kvenfélögin í bænum báru fram sérstakan lista, Kvennalistann, og fékk hann bókstafinn F. Í kosningunum 1908 voru 2.838 á kjörskrá, en bæjarbúar voru alls 11.016. Konur á kjörskrá voru 1.209 og karlar 1.629. Atvæðisréttar neyttu 593 konur (49%) og 1.027 karlar (63%) eða 57% kjósenda og hafði þátttakan aldrei verið meiri. Framboðslisti kvenna fékk flest atkvæði af öllum listum sem í framboði voru, 345 eða 21,8% greiddra atkvæða og fjóra fulltrúa af þeim 15 sem um var kosið. Sá listi sem næstur var að atkvæðatölu fékk 235 atkvæði.
Allir frambjóðendur kvennalistans náðu kjöri.
Kosningar 1910 – 1916
[breyta | breyta frumkóða]1908 var kosið um 15 fulltrúa en síðan átti að draga út fimm fulltrúa á 2ja ára fresti og kjósa aðra fimm í þeirra stað. Það voru því kosningar annað hvert ár. Kvenfélög í Reykjavík buðu fram lista í öllum kosningum fram til ársins 1918 að þau buðu fram með karlmönnum í fyrsta sinn. Konur sem kjörnar voru af kvennalista eða fyrir kvenfélögin sátu í bæjarstjórn til ársins 1922.
Fylgi kvennalistanna 1908 – 1916:
[breyta | breyta frumkóða]Ár | Fylgi |
---|---|
1908 | 21,8% |
1910 | 21,3% |
1912 | 21,8% |
1914 | 14,5% |
1916 | 10,2% |
Í kosningunum 1918 bauð Bandalag kvenna í Reykjavík fram með félaginu Sjálfstjórn, félagi borgara sem sameinuðust gegn Alþýðuflokknum. Bandalag kvenna náði einum manni inn, Ingu Láru Lárusdóttur.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Auður Styrkársdóttir (1994). Barátta um vald: konur í bæjarstjórn Reykjavíkur 1908-1922. Háskólaútgáfan. ISBN 9979540826.
- Auður Styrkársdóttir (1998). From feminism to class politics : the rise and decline of women's politics in Reykjavík, 1908-1922. Umeå University, Department of Political Science. ISBN 9171915419.
- Lesefni um fyrstu kvennaframboðin á vef Kennasögusafns Íslands Geymt 28 júlí 2013 í Wayback Machine. Sótt 23. nóvember 2010.
- Björg Einarsdóttir, „Brutu blað í stjórnmálasögunni“, Morgunblaðið 24. janúar 1988, bls. 26-27, 32-33.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Konur i bæjarstjórn Reykjavikur, umfjöllun í blaðinu Óðni 1. maí 1908
- Kosningablað kvenna, sem kom út þann 23. janúar 1912
- Bæjarstjórnarkosningarnar og konurnar., grein í Kvennablaðinu 30. nóvember 1907