Fara í innihald

18. öldin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Árþúsund: 2. árþúsundið
Aldir: 17. öldin · 18. öldin · 19. öldin
Áratugir:

1701–1710 · 1711–1720 · 1721–1730 · 1731–1740 · 1741–1750
1751–1760 · 1761–1770 · 1771–1780 · 1781–1790 · 1791–1800

Flokkar: Fædd · Dáin · Stofnað · Lagt niður

18. öldin er öld sem hófst 1. janúar 1701 og lauk 31. desember 1800. Á þessari öld stóð Upplýsingin sem hæst og undir áhrifum frá henni voru gerðar byltingar í Ameríku, Frakklandi og á Haítí. Á sama tíma náði þrælahald og mansal hátindi sínum á heimsvísu. Öldin hefur verið kölluð „öld ljóssins“ og „öld skynseminnar“ með vísun í heimspeki upplýsingarinnar sem boðaði breytta tíma byggða á skynsemishyggju. Í fyrstu tóku margir einvaldar Evrópu hugmyndafræði Upplýsingarinnar fagnandi og gerðust upplýstir einvaldar en eftir Frönsku byltinguna tóku þeir höndum saman og mynduðu gagnbyltingarbandalög.

Stórveldistími Svíþjóðar leið undir lok eftir ósigur þeirra gegn Rússum í Norðurlandaófriðnum mikla. Rússland, Prússland og Austurríska keisaradæmið skiptu Pólsk-litháíska samveldinu á milli sín og breyttu þannig landslagi Mið-Evrópu til frambúðar. Tyrkjaveldi þandist út og gekk í gegnum velmegunarskeið þar sem það tók ekki þátt í neinum styrjöldum í Evrópu frá 1740 til 1768. Vegna þessa dróst Tyrkjaveldi hernaðarlega aftur úr Evrópuveldunum í þeirri endurnýjun sem þau réðust í í kringum Sjö ára stríðið 1756-1763. Á seinni hluta aldarinnar beið það röð ósigra gegn Rússlandi.

Bretland gerðist heimsveldi þegar Breska Austur-Indíafélagið lagði undir sig stóra hluta Indlandsskaga eftir sigur í orrustunni við Plassey 1757 og keppti við Holland um nýlendur í Suðaustur-Asíu. Á sama tíma missti Bretland nýlendur í Norður-Ameríku eftir frelsisstríð Bandaríkjanna og í Indíánastríðunum. Í Mið-Asíu varð lát Nader Shah Persakonungs til þess að Durraniveldið var stofnað í Afganistan og þar sem nú er Pakistan. Á Indlandsskaga markar lát Aurangzeb endalok stórveldisskeiðs Mógúlanna. Frakkar kepptu við Breta um áhrif á Indlandsskaga.

Undir stjórn Qianlong náði Tjingveldið mestu landfræðilegu útbreiðslu sinni í Asíu. Það lagði Dsungaríu undir sig og tryggði áhrif sín í Tíbet og Víetnam. Útþensla Kína varð til þess að ríkið varð fjölþjóðlegra en áður sem skapaði aukna hættu á uppreisnum og íþyngdi fjárhagnum. Stöðnun og spilling tók að einkenna stjórn ríkisins og lagði grunninn að áföllunum sem Kína varð fyrir á 19. öld.

Landnám Evrópubúa í Ameríku og öðrum heimshlutum fór vaxandi og þróun seglskipa þegar Skútuöld náði hámarki gerði mögulega fólksflutninga milli heimsálfa í áður óþekktum mæli. Iðnbyltingin hófst undir lok aldarinnar með framförum í smíði gufuvéla. Fyrstu járnbrautirnar litu dagsins ljós rétt fyrir aldamótin 1800. Í menningu Evrópu markar 18. öldin skilin milli síðbarokksins (rókokóstíll, Johann Sebastian Bach og Georg Friedrich Händel) og klassíska tímabilsins (Jacques-Louis David, Joseph Haydn og Wolfgang Amadeus Mozart). Rómantíkin hófst undir lok aldarinnar með verkum Johann Wolfgang von Goethe og James Macpherson.

Ár og áratugir[breyta | breyta frumkóða]

18. öldin: Ár og áratugir

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]