Fara í innihald

Austurbæjarskóli

Hnit: 64°8′31.31″N 21°55′23.89″V / 64.1420306°N 21.9233028°V / 64.1420306; -21.9233028
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Austurbæjarskóli
Stofnaður: 1930
Skólastjóri: Kristín Jóhannesdóttir
Aldurshópar: 6 til 15 ára
Staðsetning: Miðbær Reykjavíkur
Vefsíða

Austurbæjarskóli er grunnskóli í miðborg Reykjavíkur. Skólinn var eitt fyrsta hús Reykjavíkur sem kynt var með hitaveitu. Skólinn var vel lengi notaður sem kjörstaður fyrir ýmsar kosningar. Í skólanum eru um 600 nemendur (yngsta-, mið- og unglingastig) og 100 starfsmenn. Hann hóf störf 1930. Núverandi Skólastjóri er Kristín Jóhannesdóttir.

Séð yfir Austurbæjarskóla úr Hallgrímskirkju

Saga skólans

[breyta | breyta frumkóða]

Austurbæjarskóli tók til starfa haustið 1930. Áður hafði skólinn við Tjörnina, síðar nefndur Miðbæjarskólinn, verið aðalskóli bæjarins. Áratugurinn 1920 til 1930 fór í undirbúning og byggingu skólans sem reis í austanverðu Skólavörðuholti og var í fyrstu kallaður Nýi barnaskólinn. Sigurður Guðmundsson, húsameistari gerði teikningar og sá um bygginguna. Austurbæjarskóli er fyrsta húsið í Reykjavík sem hitað er upp með hitaveituvatni. Ásmundur Sveinsson, myndhöggvari gerði lágmyndir yfir báðum aðaldyrum skólans og einnig yfir dyrum á austurgöflum. Árið sem skólinn tók til starfa var ákveðið að færa skólaskylduna niður um 2 ár, börnin hæfu skólagönguna 8 ára gömul. Fyrsti skólastjórinn var Sigurður Ó. Thorlacius og 32 kennarar störfuðu við skólann. Í skólanum voru 30 almennar kennslustofur. Auk þeirra voru margar sérgreinastofur: teiknistofa, kennslueldhús, smíðastofa, sundlaug, fimleikasalur, handavinnustofa stúlkna, samkomusalur fyrir skemmtanir (jólaskemmtanir), kvikmyndasýningar og söngsalur. Einnig sérbúnar náttúrufræði- og landafræðistofur velbúnar kennslugögnum. Þetta kallaði á nýja og frjálslegri kennsluhætti. Frá upphafi voru þéringar felldar niður og ákveðið var að börnin gengu frjáls inn í skólann en skipuðu sér ekki í raðir úti í porti. Skólastjórinn sem var hámenntaður og áhugasamur brautryðjandi í fræðslumálum safnaði að sér velmenntuðum kennurum. Vinnubókagerð og samvinna nemenda var tekin upp. Mikill skortur var á námsbókum og öðru lesefni handa börnum. Margir af kennurum Austurbæjarskóla voru mikilvirkir rithöfundar sem skrifuðu fjölþætt efni handa börnum. Má þar nefna höfunda eins og Jóhannes úr Kötlum, Gunnar M. Magnúss, Ragnheiði Jónsdóttur, Vilborgu Dagbjartsdóttur og Stefán Jónsson. Einnig má nefna að fyrsti matreiðslukennari skólans var Helga Sigurðardóttir, síðar fyrsta skólastýra hússtjórnarskólans og rithöfundur. Nokkru eftir 1950 varð nemendafjöldinn mestur, 1839. Nemendur skiptust í allt að 11 deildir í hverjum árgangi. Nú eru 479 nemendur á aldrinum 6-15 ára í Austurbæjarskóla í 21 bekkjardeild. Starfsmenn eru 79. Skólinn hefur verið einsetinn frá haustinu 1996. Skólahúsnæðið ásamt lóð hafa á síðustu árum verið í gagngerri endurnýjun. Vilhjálmur Hjálmarsson, arkitekt hefur stjórnað verkinu og endurhannað þessa friðuðu byggingu og aðlagað hana að breyttum kröfum með fullri virðingu fyrir sögulegu gildi hússins. Í janúar árið 2000 var tekin í notkun 320 m2 viðbygging sunnan við skólann og er þá heildarflatarmál skólans 6.717 m2.

Stefánsdagur

[breyta | breyta frumkóða]

Stefán Jónsson (1905-1966) var kennari í Austurbæjarskóla frá árinu 1933 til dánardægurs. Árið 1996 eða þegar 30 ár voru liðin frá láti hans var ákveðið að efna til sérstakrar dagskrár til minningar um Stefán. Þar sem fæðingardagur Stefáns er 22. desember, þegar jólafrí er, var dánardagurinn valinn til að minnast hans. Stefánsdagurinn hefur síðan verið haldinn hátíðlegur ár hvert, í maí.

Hollvinafélag Austurbæjarskóla

[breyta | breyta frumkóða]

Á vordögum 2009 hófst undirbúningur að stofnun Hollvinafélags Austurbæjarskóla og þann 6. febrúar 2010 var hollvinafélagið formlega stofnað af nokkrum eldri kennurum. Arnfinnur Jónsson var fyrsti formaður félagsins og síðar tók Guðmundur Sighvatsson, fyrrum skólastjóri Austurbæjarskóla, við. Tilgangur félagsins er að starfrækja skólamunastofu í Austurbæjarskóla sem heldur utan um sögu skólans og um leið íslenska skólasögu. Í skólastjóratíð Kristínar Jóhannesdóttur fékk Hollvinafélagið til umráða skólastofu í risi skólans. Þar hefur félagið sett upp skólamunastofu og komið þar fyrir gömlum húsgögnum, myndum, kennslutækjum o.fl. Hollvinafélag Austurbæjarskóla gefur út fréttabréf til félagsmanna og er öllum frjálst að ganga í félagið.

Skólastjórar Austurbæjarskóla

[breyta | breyta frumkóða]
Ár Nafn
1930-45 Sigurður Thorlacius
1945-46 Gísli Jónasson
1946-64 Arnfinnur Jónsson
1965-67 Ársæll Sigurðsson
1967-68 Einar M. Þorvaldsson
1968-73 Friðbjörn Benónýsson
1973-79 Hjalti Jónasson
1979-95 Alfreð Eyjólfsson
1995-05 Guðmundur Sighvatsson
2005-06 Héðinn Pétursson
2006-15 Guðmundur Sighvatsson
2015- Kristín Jóhannesdóttir

Fjöldatölur

[breyta | breyta frumkóða]
Gata 1946 2018
Bergstaðastræti 1081 398
Freyjugata 472 196
Grettisgata 1169 594
Grundarstígur 243 148
Njálsgata 1350 681
Skólavörðustígur 517 232
Fjöldi nemenda 1531 u.þ.b. 600


Byggingar í grennd við Austurbæjarskóla

[breyta | breyta frumkóða]

Saga skólans Geymt 26 mars 2020 í Wayback Machine

Hollvinafélag Austurbæjarskóla

64°8′31.31″N 21°55′23.89″V / 64.1420306°N 21.9233028°V / 64.1420306; -21.9233028