Borgarfjörður
- Um fjörð og samnefnt þorp á Austurlandi, sjá Borgarfjörður eystri. Um fjörð á Vestfjörðum,sjá Borgarfjörður (Arnarfirði).
Borgarfjörður er fjörður sem gengur inn úr Faxaflóa sunnan við Mýrar og norðan við Hvalfjörð. Við fjörðinn stendur bærinn Borgarnes. Fjörðurinn dregur nafn sitt af bæ Skalla-Gríms Kveld-Úlfssonar, Borg. Yfir fjörðinn liggur hringvegurinn um Borgarfjarðarbrúna sem var tekin í notkun 1980. Í fjörðinn rennur Hvítá en í henni verka áhrif flóðs og fjöru.
Út í fjörðinn að sunnanverðu gengur Kistuhöfði í landi Hvanneyrar.
Jarðfræði
[breyta | breyta frumkóða]Hafnarfjall, sem stendur sunnan Borgarfjarðar gengt Borgarnesi, er gömul megineldstöð, um fjögurra milljón ára. Eitt stærsta djúpbergsinnskot Íslands úr gabbrói er í Hafnarfjalli. Einnig hefur fundist dálítið af granófýr sem er kornótt djúpberg, mjög líkt graníti og með sömu samsetningu. Margar sjaldgæfar steindir hafa fundist við Borgarfjörð, eins og sítrín (gult litaafbrigði af bergkristal) og háhitasteindir. Hestfjall er gamalt og mjög veðrað fjall ekki langt frá Hafnarfjalli og eru tveir stórir berggangar í norðurhlíð fjallsins, um 20 metrar að þykkt. Mikið er um jaspis í Hestfjalli og hafa fundist 50-100 kílóa kristallar úr jaspis í fjallinu. Mikið er um holufyllingar á svæðinu umhverfis Borgarfjörð eins og annars staðar á landinu hjá gömlum eldstöðvum og megineldstöðvum.
Bærinn Borgarnes stendur á gömlum berggrunni, líklega úr hraunum úr Hafnarfjalli og að mestu með holufyllingum úr zeólítum og kvarssteinum.
Heimildir og ítarefni
[breyta | breyta frumkóða]Kristleifur Þorsteinsson; Þórður Kristleifsson bjó til prentunar (1944–1960). Úr byggðum Borgarfjarðar I–III. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Um lestaferðir Borgfirðinga; Kristleifur Þorsteinsson, Andvari janúar 1930, bls. 106–112.
- Borgfirsk æska fyrir sjötíu árum; Kristleifur Þorsteinsson, Viðar janúar 1939, bls. 95–105.
- Kirkjur og Kirkjusiðir í Borgarfirði fyrir 60 árum; Kristleifur Þorsteinsson, Prestafélagsritið janúar 1932, bls. 89–97.
- Úr byggðum Borgarfjarðar; Kristleifur Þorsteinsson, Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík 1944-1960.