Kaupstaður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Kaupstaðarréttindi)

Kaupstaður er heiti á þéttbýlisstað sem nýtur sérstakra réttinda sem verslunarstaður, með stjórnsýslu sem er aðgreind frá dreifbýlinu í kring (hefur „kaupstaðarréttindi“). Kaupstaðarréttindi voru sérstök réttindi sem kaupstaðir nutu og gátu meðal annars falið í sér eigin bæjarstjórn og bæjardómara og rétt til að reka verslun og iðnað. Orðið kauptún hefur verið haft um smærri þéttbýliskjarna sem ekki hafa formleg kaupstaðarréttindi.

Á Íslandi voru kaupstaðarréttindi innleidd þegar einokunarverslunin var lögð niður 18. ágúst 1786. Þá fengu sex staðir kaupstaðarréttindi á Íslandi: Reykjavík, Grundarfjörður, Ísafjarðarbær, Akureyri, Eskifjörður og Vestmannaeyjar. Vegna ýmissa erfiðleika næstu ár varð vöxtur þessara kaupstaða hægari en við var búist og féllu kaupstaðarréttindi þeirra allra, annarra en Reykjavíkur, niður árið 1836. Næstu áratugi börðust margir þessara staða fyrir endurheimt kaupstaðarréttinda og fleiri staðir fengu slík réttindi. Kaupstaðarréttindi voru veitt með sérlögum frá Alþingi og nutu kaupstaðir þess að vera sérstakt lögsagnarumdæmi aðgreint frá sýslunni. Með nýjum sveitarstjórnarlögum árið 1986 gátu bæir orðið kaupstaðir að uppfylltum vissum skilyrðum svo ekki þurfti lengur sérlög til. Með lögum um framkvæmdavald í héraði 1989 voru sýslurnar síðan felldar niður sem sérstakt stjórnsýslustig og eftir það var í raun enginn munur á stjórnsýslu sveitarfélaga eftir því hvort þau teldust kaupstaðir, kauptún, bæir eða hreppar. Síðasti bærinn sem fékk formleg kaupstaðarréttindi á Íslandi var Sandgerði árið 1990.