Hvíta stríðið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hvíta stríðið eða drengsmálið er nafn á óeirðum sem urðu fyrir utan íbúð Ólafs Friðrikssonar, ritstjóra Alþýðublaðsins, á Suðurgötu 14 í Reykjavík árið 1921.

Ólafur var þekktur jafnaðarmaður og hafði snúið heim frá alþjóðaþingi kommúnista, Komintern með 14 ára dreng, Natan Friedman með sér. Natan var með smitandi augnsjúkdóm, egypskt augnkvef (e. trachoma) og því vildi landlæknir láta vísa honum úr landi til þess að koma í veg fyrir að fólk á Íslandi smitaðist.

Þann 18. nóvember ákvað lögreglan að gera atlögu að húsi Ólafs og freista þess að fjarlægja Natan með valdi. Lögreglumenn, leiddir af Jóni Hermannssyni náðu drengnum á sitt vald en stuðningsmenn Ólafs náðu honum jafnharðan aftur til sín. Þann 22. nóvember var fjölmennara lið, undir forystu Jóhanns P. Jónssonar, setts lögreglustjóra, gert út af ríkisstjórninni til þess að ná Natan með valdi. Það hafðist og 28. nóvember var Natan sendur af landi brott með Gullfossi.

Ólafur var dæmdur í fangelsi ásamt Hendriki Ottóssyni og fleirum. Þeir voru náðaðir fimm árum seinna.

Um hádegisbil föstudaginn 18. nóvember 1921, sama dag og lögreglan gerði í fyrsta sinn atlögu að heimili Ólafs Friðrikssonar, setti Lárus Jóhannesson, fulltrúi bæjarfógeta, lögreglurétt Reykjavíkur á skrifstofu fógetans. Þar sagði Jón Kjartansson lögreglufulltrúi að „einangra“ þyrfti hús Ólafs á við Suðurgötu frá símasambandi við umheiminn. Því þyrfti að loka tveimur símum á heimili hans en einnig símanum á afgreiðslu Alþýðublaðsins. Að öllum líkindum var þetta í fyrsta skiptið sem síma var lokað á Íslandi að beiðni lögreglu og fengnum dómsúrskurði.[1]

Tilvitnun[breyta | breyta frumkóða]

  1. Guðni Th. Jóhannesson (2006). Óvinir ríkisins. Ógnir og innra öryggi í kalda stríðinu á Íslandi. Mál og menning. bls. 31-2. ISBN 9979328088.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]