Winnipeg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þinghúsið í Winnipeg

Winnipeg er stærsta borg og höfuðborg Manitoba í Kanada. Winnipeg er sjöunda stærsta borg Kanada og þar búa yfir 60% íbúa Manitobafylkis eða um 700.000 íbúar (2015).[1] Winnipeg er nálægt landfræðilegri miðju Norður Ameríku.

Nafnið „Winnipeg“ kemur úr Cree tungumálinu og merkir „gruggugt vatn“ og vísar það til vatnsins í ám og vötnum á svæðinu.

Winnipeg svæðið var viðskiptamiðstöð frumbyggja fyrir komu Evrópubúa til svæðisins um aldamótin 1800. Á seinni hluta 19. aldar og byjun 20. aldar var Winnipeg ein af ört stækkandi borgum Norður-Ameríku og varð hún fljótt miðstöð flutninga og framleiðslu.

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Winnipeg liggur í botni Rauðárdalsins (Red River Valley). Fyrir norðan Winnipeg er Winnipegvatn (11. stærsta stöðuvatnið í heimi).[2] Svæðið er nánast alveg flatt og það eru engar brekkur eða hæðir í borginni eða í nágrenni við hana. Hæð Winnipeg yfir sjávarmáli er 240m. Flatarmál borgarinnar er samtals 464.08 km2 (179.18 sq mi).

Álmur vex víða í borginni og setur svip sinn á eldri hluta bæjarins.[3]

Veðurfar[breyta | breyta frumkóða]

Winnipeg hefur rakt loftslag með miklum hitasveiflum eftir árstíðum. Hitinn er yfirleitt fyrir neðan frostmark frá miðjum nóvember fram í miðjan mars. Mesti kuldi sem mælst hefur var -47.8 °C þann 24.desember 1879. Sumur í Winnipeg geta svo verið ansi heit, en mesti hiti sem mældur hefur verið var 42.2 °C þann 11.júlí, 1936. Þrátt fyrir þessar miklu sveiflur í hita þá státar Winnipeg þó af titlinum Önnur sólríkasta borg Kanada.[4]

Samfélag[breyta | breyta frumkóða]

Íbúar Winnipeg eru margir hverjir af evrópskum uppruna. Einnig er hlutfall frumbyggja í borginni hærra en í öðrum borgum Kanada (um 11%) og er fjöldi tungumála talaður á svæðinu. Auk ensku og frumbyggjatungumála eins og Cree er m.a. þar töluð franska, þýska, og tagalog en í Winnipeg er næst stærsta samfélag Filipseyinga í Kanada á eftir Toronto.

Samgöngur[breyta | breyta frumkóða]

Borgin státar af góðum lestarsamgöngum, almenningsvögnum og góðum þjóðvegum. Í Winnipeg er líka alþjóðaflugvöllurinn James Armstrong Richardson International Airport.

Winnipeg

Íslendingar í Winnipeg[breyta | breyta frumkóða]

Nokkur fjöldi Íslendinga er búsettur í Winnipeg og bæjum í kring í Manitobafylki, m.a. Gimli. Íslenskur heiðurskonsúll hefur starfað í Winnipeg frá 1942, en árið 1999 var opnuð aðalræðisskrifstofa með útsendum diplómat. Ræðismaður Íslands í Winnipeg er nú Þórður Bjarni Guðjónsson.[5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. [1], skoðað þann 3. júlí 2016
  2. „Lake Winnipeg“. World Lake Database. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. feb. 2007. Sótt 4. mars 2014.
  3. „Winnipeg Tree Facts“ (PDF). City of Winnipeg. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 5. mars 2014. Sótt 4. mars 2014.
  4. [2], skoðað 5. júlí 2016
  5. [3][óvirkur tengill], skoðað 5. júlí 2016

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]