Hofsós
Hofsós | |
---|---|
![]() | |
![]() | |
Hnit: 65°54′N 19°26′V / 65.900°N 19.433°V | |
Land | Ísland |
Landshluti | Norðurland vestra |
Kjördæmi | Norðvestur |
Sveitarfélag | Skagafjörður |
Mannfjöldi (2024)[1] | |
• Samtals | 156 |
Póstnúmer | 565 |
Vefsíða | skagafjordur |
Hofsós er þorp á Höfðaströnd við austanverðan Skagafjörð, báðum megin við ósa Hofsár. Þar er ágætt skipalægi frá náttúrunnar hendi, einkum í norðaustanátt, og betra en annars staðar við Skagafjörð. Talið er að verslun hafi hafist á staðnum á 16. öld, og er Hofsós því einn elsti verslunarstaður landsins. Þangað sóttu Skagfirðingar nær alla sína verslun þar til byggð hófst á Sauðárkróki upp úr 1870. Íbúar voru 156 árið 2024.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Föst búseta hófst á Hofsósi á 19. öld og flestir urðu íbúar þorpsins um 300 um miðja 20. öld. Aðalatvinnuvegurinn var lengst af fiskveiðar og vinnsla sjávarafla og þjónusta við sveitirnar í kring en á síðustu árum hefur ferðamannaþjónusta skipað æ stærri sess. Á Hofsósi er að finna eitt elsta bjálkahús landsins, Pakkhúsið, vörugeymslu frá tíma einokunarverslunarinnar. Það var reist árið 1772. Í Pakkhúsinu er nú Drangeyjarsafn, helgað Drangey og nýtingu hennar fyrr og nú. Þar er einnig Vesturfarasetrið, safn og rannsóknarsetur tengt vesturferðum Íslendinga 1870-1914. Það er í gömlu timburhúsi þar sem Kaupfélag Austur-Skagfirðinga var áður til húsa, og í nýbyggingu sem reist var í sama stíl. Allmörg önnur gömul hús eru í þorpinu, einkum á Plássinu svonefnda, niður við sjóinn, sem hafa flest verið gerð upp og eru sum þeirra notuð sem sumarhús.
Örskammt sunnan við Hofsós er annar gamall verslunarstaður, Grafarós, og spölkorn innar á ströndinni sá þriðji, Kolkuós. Strandlengjan í nágrenni Hofsóss þykir falleg og þar eru merkilegar stuðlabergsmyndanir, einkum í Staðarbjargavík og þó enn frekar í Þórðarhöfða, sem gengur út frá Höfðaströnd spölkorn utan við þorpið.
Ný sundlaug á Hofsósi var vígð um páskana 2010 og er hún gjöf frá athafnakonunum Lilju Pálmadóttur og Steinunni Jónsdóttur, sem eiga jarðir á Höfðaströnd og búa þar eða dvelja löngum.
Upphaflega var Hofsós í Hofshreppi, en þorpið og næsta nágrenni þess var gert að sérstökum hreppi, Hofsóshreppi, 1. janúar 1948. 10. júní 1990 var Hofsóshreppur sameinaður Hofshreppi á ný, ásamt Fellshreppi.
Hinn 6. júní 1998 sameinaðist svo Hofshreppur 10 öðrum sveitarfélögum í Skagafirði og mynduðu þau saman Sveitarfélagið Skagafjörð.


Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Mannfjöldi eftir byggðakjörnum, kyni og aldri 1. janúar 1998-2024“. px.hagstofa.is.