2020
Útlit
(Endurbeint frá Febrúar 2020)
Árþúsund: | 3. árþúsundið |
---|---|
Aldir: | |
Áratugir: | |
Ár: |
Árið 2020 (MMXX í rómverskum tölum) var í gregoríska tímatalinu hlaupár sem byrjar á miðvikudegi.
Atburðir
[breyta | breyta frumkóða]Janúar
[breyta | breyta frumkóða]- 3. janúar – Persaflóakreppan 2019–2020: Íranski hershöfðinginn Qasem Soleimani var drepinn í drónaárás Bandaríkjahers á flugvöll í Bagdad.
- 5. janúar – Seinni umferð forsetakosninga fór fram í Króatíu. Sitjandi forseti landsins, Kolinda Grabar-Kitarović, beið ósigur gegn mótframbjóðanda sínum, fyrrum forsætisráðherranum Zoran Milanović.
- 8. janúar – Persaflóakreppan 2019–2020: 176 manns létust þegar Íransher skaut niður úkraínska farþegaflugvél eftir flugtak í Teheran í Íran.
- 8. janúar – Persaflóakreppan 2019–2020: Tveimur írönskum eldflaugum var skotið á herstöðvar í Sádi-Arabíu þar sem bandarískir hermenn dvöldu.
- 9. janúar – Stjörnufræðingar uppgötvuðu sjaldgæfa tvístirnisplánetu, TOI 1338-b.
- 9. janúar – 89 nígerískir hermenn létust í árás Íslamska ríkisins í Sahara á herstöð í Nígeríu.
- 10. janúar – Haitham bin Tarik tók við völdum sem soldán í Óman.
- 11. janúar – Þing- og forsetakosningar fóru fram í Lýðveldinu Kína á Taívan. Tsai Ing-wen, sitjandi forseti landsins, vann endurkjör og flokkur hennar, Lýðræðislegi framfaraflokkurinn, vann aukinn þingmeirihluta.
- 12. janúar – Taal-fjall á Filippseyjum gaus.
- 14. janúar – Þrjú mjög stór snjóflóð féllu á Vestfjörðum með skömmu millibili rétt fyrir miðnætti. Tvö flóðanna féllu á Flateyri en eitt á Suðureyri. Mikið eignatjón varð en engin alvarleg slys urðu á fólki.
- 16. janúar – Mikhaíl Misjústín tók við embætti forsætisráðherra Rússlands eftir afsögn Dímítrí Medvedevs.
- 20. janúar – Kórónaveirufaraldurinn 2019–2021: Yfirvöld í Kína staðfestu smit SARS-CoV-2 milli manna.
- 23. janúar – Kórónaveirufaraldurinn 2019–2021: Kínverska borgin Wuhan var sett í sóttkví.
- 25. janúar – Boeing 777X flaug í fyrsta skipti.
- 30. janúar – Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti yfir alþjóðlegu neyðarástandi vegna faraldurs kórónaveirunnar 2019-nCoV frá Wuhan í Kína.
- 31. janúar – Bretland yfirgaf Evrópusambandið formlega.
Febrúar
[breyta | breyta frumkóða]- 8. febrúar – Þingkosningar fóru fram á Írlandi. Lýðveldisflokkurinn Sinn Féin vann í fyrsta sinn flest atkvæði af öllum flokkum.
- 5. febrúar – Öldungadeild Bandaríkjaþings kaus að sýkna Donald Trump Bandaríkjaforseta af ákæru um valdníðslu fyrir landsdómi Bandaríkjanna.
- 8. febrúar – 29 manns létust í skotárás fyrrum liðsforingja úr Taílandsher í borginni Nakhon Ratchasima.
- 10. febrúar – Evrópska geimferðastofnunin og NASA sendu geimkönnunarfarið Solar Orbiter á loft til að kanna „pólsvæði“ sólarinnar.
- 10. febrúar – Tónskáldið Hildur Guðnadóttir hlaut Óskarsverðlaun í flokki kvikmyndatónlistar fyrir tónlist í kvikmyndinni Joker. Hildur var fyrsti Íslendingurinn sem hlotið hefur Óskarsverðlaun.
- 10. febrúar – Suðurkóreska kvikmyndin Parasite vann Óskarsverðlaun sem besta kvikmyndin, fyrst kvikmynda á öðru máli en ensku.
- 19. febrúar – Skotárásin í Hanau 2020: Ellefu manns létu lífið í skotárás í Hanau í Þýskalandi.
- 23. febrúar – Versti Kalimavindur síðustu 40 ára gekk yfir Kanaríeyjar. Öllum flugvöllum eyjanna var lokað í þrjá daga.
- 24. febrúar – Yfir 30 særðust þegar maður ók bíl inn í mannfjölda í Volkmarsen í Þýskalandi.
- 24. febrúar – Stjórn Pakatan Harapan í Malasíu féll og Perikatan Nasional tók við völdum.
- 26. febrúar – Óeirðirnar í Delí 2020: 23 létust og 189 særðust í óeirðum í norðausturhluta Delí á Indlandi.
- 27. febrúar – Dow Jones-vísitalan féll um 1.190,95 punkta eða 4,4%, vegna ótta við efnahagsleg áhrif Kórónaveirufaraldursins, sem var mesta hrun á einum degi í sögu vísitölunnar.
- 28. febrúar – Fyrsti Íslendingurinn greindist með COVID-19-veiruna.
- 29. febrúar – Bandaríkjamenn undirrituðu friðarsamkomulag við Talíbana í von um að binda enda á stríðið í Afganistan.
Mars
[breyta | breyta frumkóða]- 9. mars – Ítalía tók upp útgöngubann á landsvísu vegna COVID-19.
- 11. mars – Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti yfir heimsfaraldri vegna COVID-19.
- 11. mars – Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein var dæmdur í 23 ára fangelsi fyrir nauðgun.
- 11. mars – Gullbrúin kom til Stokkhólms frá Kína.
- 12. mars – Svarti fimmtudagurinn: Gengi verðbréfa hrundi á mörkuðum um allan heim vegna faraldursins.
- 13. mars – Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti víðtækt samkomubann vegna COVID-19 sem tók gildi 16. mars.
- 16. mars – Dow Jones-vísitalan féll um 2.997,10 punkta, sem var mesta lækkun sögunnar í punktum talið og önnur mesta lækkunin í prósentum.
- 17. mars – Landamærum Schengen-svæðisins var lokað tímabundið vegna faraldursins.
- 17. mars – Ákveðið var að fresta Evrópukeppninni í knattspyrnu 2020 og Copa América 2020 til næsta árs.
- 18. mars – Ákveðið var að hætta við Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2020, í fyrsta sinn í sögu keppninnar.
- 18. mars – Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hóf Samstöðuprófanirnar til að leita að lyfjum gegn COVID-19.
- 24. mars – Útgöngubanni var komið á í Bretlandi og Indlandi.
- 24. mars – Ákveðið var að fresta Ólympíuleikunum um eitt ár.
- 27. mars – Norður-Makedónía gerðist aðili að NATO.
- 30. mars – Olíuverðstríð Rússlands og Sádi-Arabíu 2020: Sádi-Arabía lækkaði verð á hráolíu í 23 dollara, sem var það lægsta frá 2002.
Apríl
[breyta | breyta frumkóða]- 1. apríl – Ríkisstjórn Jemen lét lausa yfir 470 fanga vegna ótta við útbreiðslu COVID-19 í fangelsum landsins.
- 2. apríl – Sagt var frá því að fjöldi smita af völdum COVID-19 væri kominn yfir 1.000.000 manns á heimsvísu.
- 4. apríl – Keir Starmer tók við sem leiðtogi Breska verkamannaflokksins af Jeremy Corbyn.
- 6. apríl – Bandaríkjastjórn lýsti því yfir að litið væri á Rússnesku keisarahreyfinguna sem hryðjuverkasamtök.
- 7. apríl – Japan lýsti yfir neyðarástandi vegna COVID-19.
- 8. apríl – Sádi-Arabía og bandamenn þeirra lýstu yfir einhliða vopnahléi í borgarastyrjöldinni í Jemen.
- 10. apríl – Geimkönnunarfarið BepiColombo hóf ferð sína til Venus.
- 10. apríl – Fjármálaráðherrar Evrópusambandsins samþykktu 504 milljarða evra lánapakka til að bregðast við efnahagslegum afleiðingum faraldursins.
- 12. apríl – OPEC-ríkin samþykktu að skera olíuframleiðslu niður um 9,7 milljón tunnur á dag frá 1. maí.
- 14. apríl – Donald Trump lýsti því yfir að Bandaríkin myndu stöðva fjárframlög til Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.
- 15. apríl – Tala smitaðra af völdum COVID-19 fór yfir 2.000.000 á heimsvísu.
- 19. apríl – Mótmæli gegn ráðstöfunum stjórnvalda vegna faraldursins brutust út í París, Berlín, Vladikavkas og fleiri stöðum.
- 20. apríl – Hráolíuverð náði sögulegu lágmarki vegna faraldursins og verð á West Texas Intermediate-hráolíu varð neikvætt.
- 20. apríl – Benjamin Netanyahu og Benny Gantz samþykktu að mynda þjóðstjórn í Ísrael og binda þannig enda á langa stjórnarkreppu.
- 22. apríl – Ryfast-vegtengingin var opnuð í Noregi.
- 28. apríl – Kólumbía gerðist formlega aðili að Efnahags- og framfarastofnuninni.
Maí
[breyta | breyta frumkóða]- 4. maí – Yfirvöld í Venesúela handtóku málaliða frá Silvercorp USA sem ætluðu sér að hrekja Nicolás Maduro úr embætti forseta.
- 4. maí – Hópur vísindamanna frá Bandaríkjunum og Kenía tilkynntu að þeir hefðu uppgötvað sníkjusvepp af ættkvíslinni Microsporidia sem kæmi í veg fyrir malaríusmit frá moskítóflugum.
- 6. maí – Stjörnufræðingar tilkynntu fund svarthols í stjörnukerfinu HR 6819 sem sést með berum augum.
- 9. maí – Átök brutust út meðal kínverskra og indverskra landamæravarða við Nathu La.
- 12. maí – Byssumenn réðust inn á spítala í Dashte Barchi í Afganistan og myrtu 24, þar á meðal tvö nýfædd börn. Sama dag létust 32 þegar sjálfsmorðssprengjumaður sprengdi sig í loft upp við jarðarför í Kuz Kunar.
- 15. maí – Vísindamenn lýstu því yfir að steingervingur margfætlu af ættkvíslinni Kampecaris sem fannst á eyjunni Kerrera í Suðureyjum væri elsta þekkta landdýr heims. Hún var uppi fyrir um 425 milljón árum.
- 16. maí – Leikir hófust á ný í þýsku Bundesligunni.
- 16. maí – Rúandíski athafnamaðurinn Félicien Kabuga var handtekinn í Frakklandi fyrir þátt sinn í þjóðarmorðinu í Rúanda.
- 21. maí – Fellibylurinn Ampan kom á land á Indlandi og Bangladess þar sem hann olli dauða 100 manna og hrakti 4 milljónir frá heimilum sínum.
- 21. maí – Bandaríkin lýstu því yfir að þau drægju sig úr Samningi um opna lofthelgi vegna samningsbrota Rússa.
- 22. maí – Pakistan International Airlines flug 8303 hrapaði við Karachi með þeim afleiðingum að 97 létust og tugir slösuðust á jörðu niðri.
- 23. maí – Engin ný tilfelli af COVID-19 fundust í Kína, í fyrsta sinn frá því faraldurinn hófst.
- 24. maí – Rio Tinto viðurkenndi að hafa sprengt hella í Juukan Gorge í Ástralíu sem voru helgistaðir frumbyggja.
- 25. maí – Bandarískur blökkumaður að nafni George Floyd var kæfður til dauða í haldi bandarískra lögreglumanna í Minneapolis. Dauði hans hratt af stað öldu mótmæla gegn kynþáttabundnu ofbeldi lögreglumanna gegn blökkumönnum.
- 26. maí – Hjónaband samkynhneigðra varð löglegt í Kosta Ríka.
- 26. maí – LATAM Airlines, stærsta flugfélag Rómönsku Ameríku, varð gjaldþrota.
- 27. maí – Ríkisstjórn Kína herti enn tökin á Hong Kong með nýjum þjóðaröryggislögum.
- 30. maí – Fyrsta mannaða flug geimfarsins SpaceX Dragon 2 fór fram á Canaveral-höfða.
Júní
[breyta | breyta frumkóða]- 3. júní – SpaceX sendi 60 Starlink-gervihnetti á braut um jörðu. Heildarfjöldi Starlink-gervihnatta varð þá 482.
- 3. júní – Vladimír Pútín lýsti yfir neyðarástandi þegar 20.000 lítrar af olíu láku út í ána Ambarnaja norðan heimskautsbaugs.
- 4. júní – Þjóðarsáttarstjórn Líbíu lýsti því yfir að hún hefði náð tökum á höfuðborginni Trípólí eftir að sveitir Frelsishers Líbíu hörfuðu þaðan.
- 4. júní – Þing Hong Kong samþykkti hina umdeildu Reglugerð um þjóðsöng Kína.
- 6. júní – Joe Biden var útnefndur forsetaefni Demókrataflokksins í Bandaríkjunum.
- 10. júní – Sænski saksóknarinn Krister Petersson benti á Stig Engström sem grunaðan vegna morðsins á Olof Palme um leið og hann lýsti rannsókninni lokið.
- 15. júní:
- Hæstiréttur Bandaríkjanna komst að þeirri niðurstöðu að ólöglegt væri að segja upp starfsfólki á grundvelli kynhneigðar eða kyngervis.
- Að minnsta kosti 20 indverskir hermenn og 40 kínverskir hermenn létu lífið í átökum milli Indverja og Kínverja við landamæri ríkjanna í Galwan-dalnum.
- Tyrkneskar og íranskar hersveitir hófu loftárásir á hersveitir Kúrdíska verkamannaflokksins í Íraska Kúrdistan.
- 21. júní – Hringmyrkvi átti sér stað.
- 23. júní – Jarðskjálfti af stærðinni 7,5 reið yfir við strönd Oaxaca í Mexíkó. Tíu létu lífið.
- 25. júní – Eldur kviknaði í húsi að Bræðraborgarstíg 1 með þeim afleiðingum að þrír létust og tvær konur slösuðust alvarlega.
- 25. júní - Liverpool F.C. vann ensku úrvalsdeildina í fyrsta skipti í 30 ár.
- 27. júní – Forsetakosningar fóru fram á Íslandi. Guðni Th. Jóhannesson sitjandi forseti var endurkjörinn með 92,2% atkvæða.
- 28. júní – Fjöldi smita vegna COVID-19 komst yfir 10 milljónir á heimsvísu. Á sama tíma fór fjöldi látinna yfir 500.000.
- 30. júní – Stjórnin í Beijing samþykkti hin umdeildu lög um þjóðaröryggi Hong Kong sem auðvelda stjórninni að berja niður andstöðu.
Júlí
[breyta | breyta frumkóða]- 1. júlí – Rússar samþykktu breytingar á stjórnarskrá Rússlands í þjóðaratkvæðagreiðslu sem gefa Vladimír Pútín færi á að bjóða sig fram í tvö kjörtímabil til viðbótar eftir að núverandi valdatíð hans lýkur 2024.
- 1. júlí - Fríverslunarsamningurinn USMCA tók við af NAFTA í Norður-Ameríku.
- 7. júlí - Mótmæli hófust í Búlgaríu gegn spillingu í ríkisstjórn Boyko Borisov.
- 7. júlí - Þúsundir mótmæltu hertum reglum vegna Covid-19-faraldursins í Belgrad.
- 8. júlí - Líkamsleifar 180 manns fundust í fjöldagröfum í Djibo í Búrkína Fasó og grunur lék á að stjórnarherinn hefði stundað aftökur án dóms og laga.
- 10. júlí - Búlgaría og Króatía fengu aðgang að gengissamstarfi Evrópu sem er aðdragandi þess að taka upp evru.
- 10. júlí - Recep Tayyip Erdoğan gaf út tilskipun sem gerði Ægisif aftur að mosku, en hún hafði árið 1934 verið gerð að safni.
- 12. júlí - Flóðin í Kína 2020: 141 voru taldir af eða týndir og 28.000 heimili eyðilögðust.
- 19. júlí - Flóð í Brahmaputra ollu dauða 189 manns og eyðilögðu heimili 4 milljóna í Indlandi og Nepal.
- 25. júlí - Japanska olíuflutningaskipið Wakashio strandaði á kóralrifi við Máritíus.
- 28. júlí - Fyrrum forsætisráðherra Malasíu, Najib Razak, var dæmdur í 12 ára fangelsi vegna 1MDB-hneykslisins.
- 30. júlí - Mars 2020: NASA sendi geimfar til Mars með tvo marsbíla sem eiga að kanna hvort líf geti hafa þróast á Mars.
Ágúst
[breyta | breyta frumkóða]- 1. ágúst - Barakah-kjarnorkuverið í Sameinuðu arabísku furstadæmunum hóf starfsemi.
- 3. ágúst – Jóhann Karl 1., fyrrverandi konungur Spánar, fór í sjálfskipaða útlegð frá heimalandi sínu vegna hneykslismála.
- 4. ágúst – Að minnsta kosti 135 manns létu lífið í tveimur sprengingum ammóníumnítrats í höfninni í Beirút.
- 9. ágúst - Endurkjör Alexanders Lúkasjenkós, forseta Hvíta-Rússlands, leiddi til harðra mótmæla.
- 11. ágúst - Vladimír Pútín tilkynnti að Rússland hefði samþykkt fyrsta Covid-19-bóluefni heims.
- 11. ágúst - Svjatlana Tsitsjanúskaja, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi, flúði til Litháen.
- 11. ágúst - Joe Biden tilkynnti að Kamala Harris yrði varaforsetaefni hans.
- 13. ágúst – Ísrael undirritaði friðarsáttmála og tók upp formlegt stjórnmálasamband við Sameinuðu arabísku furstadæmin.
- 15. ágúst - Japanska olíuflutningaskipið Wakashio brotnaði í tvennt á kóralrifi við Máritíus með þeim afleiðingum að 1.000 tonn af olíu runnu út í sjó.
- 18. ágúst - Valdaránið í Malí 2020: Hópur herforingja framdi valdarán og hneppti forsetann, Ibrahim Boubacar Keïta, í fangelsi.
- 19. ágúst – Malíski herinn framdi valdarán gegn forsetanum Ibrahim Boubacar Keïta.
- 23. ágúst - Þýska knattspyrnuliðið Bayern München sigraði Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu karla með 1-0 sigri á Paris Saint-Germain.
- 26. ágúst - Jeff Bezos varð fyrsti auðkýfingur heims til að ná yfir 200 milljarða dala mati, samkvæmt tímaritinu Forbes.
- 30. ágúst - 27 ungmenni leituðu læknishjálpar vegna kolmónoxíðeitrunar eftir ólöglegt partý í aflögðu varnarmannvirki í St. Hanshaugen í Ósló.
September
[breyta | breyta frumkóða]- 3. september - Bein af 200 mammútum og 30 öðrum dýrum fundust þegar grafið var fyrir grunni við Felipe Ángeles-alþjóðaflugvöllinn í Mexíkóborg.
- 4. september - Benedikt 16. varð langlífasti páfi sögunnar þegar hann náði 93 ára, 4 mánaða og 16 daga aldri.
- 4. september - Kosóvó og Serbía gerðu samning um að taka upp eðlilegt viðskiptasamband.
- 4. september - Ísrael gerði friðarsamkomulag við Barein og löndin tóku upp stjórnmálasamband.
- 14. september - Konunglega breska stjörnufræðifélagið tilkynnti fund fosfíns á Venus sem er talið góð vísbending um líf.
- 14. september - Vel varðveittar leifar hellabjörns sem var uppi fyrir 22.000 til 39.500 árum fundust í sífrera í Síberíu.
- 16. september – Yoshihide Suga tók við af Shinzō Abe sem forsætisráðherra Japans.
- 16. september - Sendinefnd frá Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna ásakaði ríkisstjórn Venesúela formlega um glæpi gegn mannkyni.
- 20. september - Buzzfeed og Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna gáfu út FinCEN-skjölin sem segja frá 200.000 grunsamlegum peningafærslum frá 1999 til 2017.
- 21. september - Microsoft keypti tölvuleikjafyrirtækið ZeniMax Media fyrir 7,5 milljarða dala.
- 29. september – Vopnuð átök brutust út á ný milli Armeníu og Aserbaísjan í Nagornó-Karabak.
- 29. september - Fjöldi andláta vegna Covid-19 fór yfir eina milljón á heimsvísu.
Október
[breyta | breyta frumkóða]- 2. október - Donald Trump Bandaríkjaforseti greindist með Covid-19.
- 10. október - Armenía og Aserbaísjan sömdu um vopnahlé í átökunum í Nagornó-Karabak.
- 15. október – Sooronbay Jeenbekov, forseti Kirgistans, sagði af sér vegna mótmæla og uppþota eftir þingkosningar í landinu.
- 15. október - Mótmælin í Taílandi 2020-2021: Ríkisstjórn Taílands lýsti yfir neyðarástandi og bannaði samkomur fleiri en 5.
- 16. október - Franski sagnfræðikennarinn Samuel Paty var myrtur af 18 ára gömlum hryðjuverkamanni í Conflans-Sainte-Honorine í Frakklandi.
- 17. október – Verkamannaflokkurinn undir forystu Jacindu Ardern vann stórsigur í þingkosningum á Nýja-Sjálandi.
- 19. október – Luis Arce var kjörinn forseti Bólivíu.
- 20. október – Jarðskjálfti af stærð 5,6 reið yfir á Reykjanesskaga.
- 20. október - Geimfarið OSIRIS-REx lenti á loftsteininum Bennu og tók þar sýni.
- 21. október - Miklar rigningar ollu skriðum í Thua Thien Hue í Víetnam með þeim afleiðingum að 17 byggingaverkamenn og 13 hermenn fórust.
- 22. október - 34 ríki undirrituðu Samkomulagsyfirlýsinguna í Genf gegn fóstureyðingum að undirlagi Mike Pompeo.
- 23. október - Ísrael og Súdan tóku upp stjórnmálasamband.
- 26. október - Amy Coney Barrett tók við stöðu hæstaréttardómara í Bandaríkjunum.
- 29. október - Alþjóðastofnun um fólksflutninga staðfesti að 140 manns hefðu drukknað þegar bátur með flóttafólki fórst við strendur Senegal.
- 30. október - Eyjahafsjarðskjálftinn 2020: Jarðskjálfti, 7,0 að stærð, reið yfir í Tyrklandi og Grikklandi með þeim afleiðingum að 119 létust.
- 31. október - Fellibylurinn Goni gekk á land í Catanduanes á Filippseyjum og olli miklu tjóni.
- 31. október - Brandenborgarflugvöllur í Berlín var opnaður eftir 14 ára byggingartímabil.
Nóvember
[breyta | breyta frumkóða]- 1. nóvember - Maia Sandu var kjörin forseti Moldóvu fyrst kvenna.
- 2. nóvember - Fellibylurinn Eta gekk á land í Mið-Ameríku þar sem yfir 100 fórust.
- 3. nóvember - Bandaríska fylkið Mississippi tók upp nýjan fylkisfána þar sem ekki er lengur vísað í fána Suðurríkjanna.
- 4. nóvember - Stjórn Eþíópíu hóf hernað í Tigray-héraði.
- 7. nóvember – Forsetakosningar í Bandaríkjunum: Joe Biden, frambjóðandi Demókrataflokksins, sigraði sitjandi forsetann Donald Trump og var kjörinn 46. forseti Bandaríkjanna.
- 10. nóvember - Fyrstu Apple-tölvurnar með nýjum Apple silicon-örgjörvum komu á markað.
- 10. nóvember – Perúska þingið lýsti yfir vantrausti gegn Martín Vizcarra, forseta Perú, og leysti hann úr embætti.
- 15. nóvember - 15 lönd í Asíu og við Kyrrahafið undirrituðu RCEP-samninginn, stærsta fríverslunarsamning heims.
- 15. nóvember - NASA og SpaceX sendu á loft fyrsta mannaða Crew Dragon geimfarið.
- 16. nóvember - Fellibylurinn Iota gekk á land í Níkaragva, aðeins tveimur vikum eftir fellibylinn Eta.
- 19. nóvember - Brereton-skýrslan um stríðsglæpi í stríðinu í Afganistan kom út.
- 22. nóvember – Elísabet Gunnarsdóttir þjálfari kvennaliðs Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni var valin þjálfari ársins í Svíþjóð.
- 22. nóvember - Bandaríkin drógu sig út úr Samningi um opna lofthelgi.
- 27. nóvember - Helsti kjarnorkusérfræðingur Írans, Mohsen Fakhrizadeh, var myrtur í nágrenni Teheran.
- 28. nóvember - Koshobe-fjöldamorðin: Boko Haram myrtu 43 í Jere í Nígeríu.
Desember
[breyta | breyta frumkóða]- 1. desember – Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu staðfesti dóm réttarins í Landsréttarmálinu.
- 2. desember - Breska lyfjaeftirlitið samþykkti BNT162b2-bóluefnið frá Pfizer-BioNTech.
- 2. desember - Fíkniefnanefnd Sameinuðu þjóðanna tók kannabis út af lista yfir hættuleg eiturlyf, vegna notagildis þess í læknisfræðilegum tilgangi.
- 5. desember - Rússar hófu bólusetningu með Spútnik V-bóluefninu.
- 8. desember - Nepal og Kína náðu formlegu samkomulagi um hæð Everestfjalls, 8.848,86 metrar.
- 11. desember - Evrópusambandið samþykkti að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55% á næsta áratug.
- 18. desember – Mörg hús eyðilögðust þegar skriður féllu á Seyðisfjörð eftir miklar rigningar. Tækniminjasafn Austurlands skemmdist mikið í hamförunum.
- 18. desember – Alþingi samþykkti ný lög um fæðingar- og foreldraorlof. Í nýju lögunum var orlofið lengt úr tíu mánuðum í tólf mánuði.
- 18. desember - Bandaríkin samþykktu bóluefni Moderna, en höfðu áður samþykkt bóluefni Pfizer-BioNTech.
- 18. desember - Fjölmiðlar sögðu frá því að stjörnufræðingar hefðu numið útvarpsmerkið BLC1, mögulegt merki um líf á öðrum hnöttum, frá stað í námunda við Proxima Centauri.
- 19. desember – Eysturoyargöngin, neðansjávargöng milli Straumeyjar og Austureyjar í Færeyjum, voru opnuð.
- 21. desember - Fyrstu Covid-19-smitin greindust á Suðurskautslandinu, í O'Higgins-rannsóknarstöðinni.
- 23. desember – Ríkisstjórn Benjamins Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, sprakk og kallað var til fjórðu þingkosninganna í landinu á tveimur árum.
- 24. desember – Bretland undirritaði verslunarsamning við Evrópusambandið og lauk þannig formlega útgönguferli sínu úr sambandinu.
- 29. desember – Byrjað var að bólusetja íslenskt heilbrigðisstarfsfólk og íbúa á hjúkrunarheimilum við COVID-19.
- 29. desember - Petrinjaskjálftinn, 6,4 að stærð, reið yfir í Króatíu.
- 30. desember - Bretland samþykkti notkun bóluefnis frá AstraZeneca.
Fædd
[breyta | breyta frumkóða]Dáin
[breyta | breyta frumkóða]- 3. janúar – Qasem Soleimani, íranskur hershöfðingi (f. 1957).
- 10. janúar – Qaboos bin Said al Said, soldán af Óman (f. 1940).
- 12. janúar – Roger Scruton, breskur heimspekingur (f. 1944).
- 14. janúar – Rósa Ingólfsdóttir, íslensk leikkona, sjónvarpsþula og auglýsingateiknari (f. 1947).
- 21. janúar – Terry Jones, breskur gamanleikari (f. 1942).
- 26. janúar – Kobe Bryant, bandarískur körfuknattleiksmaður (f. 1978).
- 28. janúar – Sigurbergur Sigsteinsson, íslenskur íþróttamaður og þjálfari (f. 1948).
- 31. janúar – Mary Higgins Clark, bandarískur rithöfundur (f. 1927).
- 5. febrúar – Kirk Douglas, bandarískur leikari (f. 1916).
- 25. febrúar
- Hosni Mubarak, fyrrum forseti Egyptalands (f. 1928).
- Ragnar Bjarnason, íslenskur söngvari (f. 1934).
- 4. mars – Javier Pérez de Cuéllar, fyrrum aðalritari Sameinuðu þjóðanna (f. 1920).
- 8. mars – Max von Sydow, sænskur leikari (f. 1929).
- 14. mars – René Follet, belgískur myndasöguhöfundur (f. 1931).
- 17. mars – Betty Williams, norður-írskur friðarsinni og Nóbelsverðlaunahafi (f. 1943).
- 20. mars – Kenny Rogers, bandarískur sveitasöngvari (f. 1938).
- 24. mars – Albert Uderzo, franskur myndasöguhöfundur (f. 1927).
- 6. apríl – Radomir Antić, serbneskur íþróttamaður og knattspyrnuþjálfari (f. 1948).
- 11. apríl – John Horton Conway, enskur stærðfræðingur (f. 1937).
- 29. apríl – Roger Westman, enskur arkitekt (f. 1939).
- 9. maí – Little Richard, bandarískur söngvari og lagahöfundur (f. 1932).
- 11. maí – Jerry Stiller, bandarískur gamanleikari (f. 1927).
- 27. maí – Alfreð Þorsteinsson, íslenskur stjórnmálamaður og blaðamaður (f. 1944).
- 8. júní – Pierre Nkurunziza, forseti Búrúndí (f. 1964).
- 29. júní – Carl Reiner, bandarískur leikari (f. 1922).
- 6. júlí – Ennio Morricone, ítalskt tónskald (f. 1928).
- 24. júlí – Regis Philbin, bandarískur leikari (f. 1931).
- 25. júlí – Olivia de Havilland, bresk-bandarísk leikkona (f. 1916).
- 28. júlí – Gísli Rúnar Jónsson, íslenskur leikari, leikstjóri og handritshöfundur (f. 1953).
- 1. ágúst
- Wilford Brimley, bandarískur leikari (f. 1934).
- Ragnheiður Ásta Pétursdóttir, þulur hjá Ríkisútvarpinu (f. 1941).
- 3. ágúst – John Hume, írskur stjórnmálamaður og Nóbelsverðlaunahafi (f. 1937).
- 15. ágúst – Stuart Christie, skoskur anarkisti og rithöfundur (f. 1946).
- 28. ágúst – Chadwick Boseman, bandarískur leikari (f. 1976).
- 10. september – Diana Rigg, ensk leikkona (f. 1938).
- 15. september – Moussa Traoré, forseti Malí (f. 1936).
- 18. september – Ruth Bader Ginsburg, bandarískur hæstaréttardómari (f. 1933).
- 19. september – John Turner, fyrrum forsætisráðherra Kanada (f. 1929).
- 29. september – Sabah Al-Ahmad Al-Jaber Al-Sabah, emír af Kúveit (f. 1929).
- 20. október – James Randi, kanadísk-bandarískur töframaður (f. 1928).
- 30. október – Örlygur Hálfdánarson, íslenskur bókaútgefandi (f. 1929).
- 31. október – Sean Connery, skoskur leikari (f. 1930).
- 10. nóvember – Amadou Toumani Touré, forseti Malí (f. 1948).
- 23. nóvember – Páll Pétursson, alþingismaður og félagsmálaráðherra. (f. 1937).
- 25. nóvember – Diego Armando Maradona, argentískur knattspyrnumaður (f. 1960).
- 2. desember – Valéry Giscard d'Estaing, fyrrum forseti Frakklands (f. 1926).
- 6. desember – Tabaré Vázquez, fyrrum forseti Úrúgvæ (f. 1940).
- 12. desember – John le Carré, breskur rithöfundur (f. 1931).
Nóbelsverðlaunin
[breyta | breyta frumkóða]- Bókmenntir: Louise Glück
- Efnafræði: Emmanuelle Charpentier og Jennifer Doudna
- Eðlisfræði: Roger Penrose, Reinhard Genzel og Andrea Ghez
- Friðarverðlaun: Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna
- Hagfræði: Paul Milgrom og Robert Wilson
- Lífeðlis- og læknisfræði: Harvey J. Alter, Charles M. Rice og Michael Houghton