Tækniminjasafn Austurlands

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Seyðisfjörður
Seyðisfjörður
Frá Seyðisfirði

Tækniminjasafn Austurlands á Seyðisfirði fjallar um þann hluta Íslandssögunnar sem snýr að tæknivæðingu landsins frá um 1880 til dagsins í dag. Markmið safnsins er að safna, varðveita, skrá og sýna verkkunnáttu, muni, minjar og frásagnir sem hafa gildi fyrir sögu tækniþróunar á starfssvæðinu.[1] Vegna sérhæfingar safnsins sem minjasafns er fjallar um nútímavæðingu þjóðarinnar er mikið um óvenjulegar vélar, búnað og aðrar menningarminjar sem ekki eru til sýnis á öðrum söfnum landsins.

Safnið er nú lokað vegna aurskriðu sem féll á Seyðisfjörð árið 2020. Unnið er að því að finna nýtt húsnæði.[2]

Tækniminjasafnið sýnir hvernig tæknibreytingar sem snúa að véltækni, rafmagni, fjarskiptum, samgöngum og byggingalist eru samofnar breytingum á lifnaðarháttum og umhverfi. Safnið er staðsett á svokallaðri Wathnestorfu á Seyðisfirði en þar er að finna hús sem spila stór hlutverk í tækniminjasögu landsins, meðal annars svokallað Wathneshús og Vélsmiðju Jóhanns Hanssonar. Þá er safnið einnig byggðasafn Seyðfirðinga.


Á safninu eru haldin námskeið og sýningar, þar eru stundaðar rannsóknir og kennsla auk þess sem safnið tekur þátt í margvíslegu menningarstarfi og samstarfsverkefnum. Sýningar eru lifandi og leitast er við að endurvekja andrúm tímans sem fjallað er um. Safnasvæðið er jafnframt tilvalið útivistarsvæði fyrir gönguferðir og samveru.[3]


Tækniminjasafnið var meðal tíu verkefna sem komu til greina sem handhafar Eyrarrósarinnar Geymt 2015-01-30 í Wayback Machine árið 2014


Heimilisfang Hafnargata 38-44, 710 Seyðisfjörður
Sími 472-1696
Staðsetning 900m frá miðbæ Seyðisfjarðar og um 500m frá

Ferjuhöfninni þar sem ferjan Norræna leggur að.

Opnunartímar og aðgangseyrir Sjá hér Geymt 2016-03-04 í Wayback Machine
Forstöðumaður Pétur Kristjánsson


Saga safnsins[breyta | breyta frumkóða]

Það er engin tilviljun að Tækniminjasafn Austurlands skuli vera staðsett á Seyðisfirði því segja má að þar liggi rætur tækniþróunar á Íslandi. Því til stuðnings má nefna að fyrsta ritsímastöðin tók til starfa í bænum árið 1906 eftir að sæstrengur hafði verið lagður frá Skotlandi til Seyðisfjarðar og í kjölfarið var talsímalína lögð frá Seyðisfirði til Reykjavíkur. Þá hófu Seyðfirðingar smíðar mótorbáta árið 1905, elsta vélsmiðja landsins tók til starfa á Seyðisfirði árið 1907 og síðast en ekki síst var Seyðisfjarðarkaupstaður fyrsti bærinn á landinu til að rafvæðast þegar Fjarðaselsvirkjun var tekin í notkun árið 1913.[4]


Árið 1976 afhenti Samgönguráðuneytið Seyðisfjarðarkaupstað Wathneshúsið, einnig þekkt sem Gamla símstöðin, undir safn og þar með hófst söfnun og varðveisla muna. Tækniminjasafn Austurlands var síðan formlega stofnað árið 1984. Árið 1993 keypti safnið Vélsmiðju Seyðisfjarðar sem áður hafði borið nafnið Vjelsmiðja Jóhanns Hanssonar og hafin var viðgerð á húsunum sem hýstu smiðjuna. Fyrsta sýning safnsins var opnuð árið 1995 á efri hæð Wathneshúss og árið 2001 var elsti hluti Vélsmiðjunnar opnaður almenningi.[5] Í dag tilheyra sex hús safninu.

Þann 18. Desember 2020 gjör eyðilagðist safnið í aurskriðum sem fellu á Seyðisfjörð. [6]

Wathnestorfan[breyta | breyta frumkóða]

Tækniminjasafnið er staðsett á svokallaðri Wathnestorfu og tilheyra sex hús á torfunni safninu. Þeirra á meðal eru Wathneshús og Vélsmiðja Jóhanns Hanssonar

Wathneshús[breyta | breyta frumkóða]

Húsið var reist árið 1894 og var upphaflega íbúðarhús norska athafnamannsins Ottós Wathne. Síðar keypti Mikla norræna ritsímafélagið húsið og opnaði þar fyrstu ritsímastöð landsins 25. ágúst 1906 þegar sæstrengur hafði verið lagður frá meginlandinu til Seyðisfjarðar. Húsið hýsir nú sýningar Tækniminjasafnsins. [7]

Vjelsmiðja Jóhanns Hanssonar[breyta | breyta frumkóða]

Vjelsmiðja Jóhanns Hanssonar er elsta vélsmiðja landsins en hún var tekin í notkun árið 1907. Smiðjan var stækkuð árið 1918 og þá bættist við málmbræðsla. Árið 1993 keypti safnið smiðjuna en þar er að finna töluvert af upprunalegum vélbúnaði, bræðsluofn, túrbínur, eldsmiðju og fleira. Það er nú hluti af fastasýningu safnsins auk þess sem aðstaðan er notuð til kennslu á ýmsum handverksnámskeiðum.[8]


Smiðjuhátíð[breyta | breyta frumkóða]

Frá árinu 2006 hefur Tækniminjasafnið staðið fyrir árlegri Smiðjuhátíð. Á hátíðinni eru haldin námskeið þar sem hefðbundið og nútímalegt handverk er kennt á faglegan hátt auk þess sem sýningar og tónleikahald skipa stór hlutverk. Markmið hátíðarinnar er fyrst og fremst að vekja áhuga á gömlu handverki. Meðal námskeiða sem haldin hafa verið undanfarin ár eru námskeið í eldsmíði, málmsteypu, hnífasmíði og prent og bókverkanámskeið. Allar upplýsingar um hátíðina og námskeiðin má finna á heimasíðu safnsins[óvirkur tengill]

Umfjöllun mbl.is um Smiðjuhátíðina 2013


Aðgengi[breyta | breyta frumkóða]

Stærstur hluti sýninga safnsins er á jarðhæð en þar sem húsin sem hýsa safnið er mjög hver gömul er aðgengi fyrir fatlaða ekki í samræmi við nútímakröfur. Unnið hefur verið að því að bæta aðgengismál safnsins


Samstarfsverkefni[breyta | breyta frumkóða]

Tækniminjasafn Austurlands hefur tekið þátt í mörgum samstarfsverkefnum sem flest eiga það sameiginlegt að fela í sér einhvers konar fræðslu. Þá hafa dyr safnsins staðið opnar fyrir listamenn og fleiri sem vilja nýta sér það sem safnið hefur uppá að bjóða.


Undanfarin tíu ár hafa myndlistarnemar frá Listaháskóla Íslands komið til Seyðisfjarðar til að stunda list sína. Þar er um að ræða samstarfsverkefni Listaháskólans, Dieter Roth Akademíunnar, Skaftfells Menningarmiðstöðvar Austurlands og Tækniminjasafns Austurlands. Afraksturinn er síðan sýndur á sýningu í Skaftfelli. Árið 2013 bar sýning nemendanna nafnið TRAAPPA[óvirkur tengill]


Skólaárið 2013-2014 tók Tækniminjasafnið þátt í fræðsluverkefni á vegum Skaftfells menningarmiðstöðvar þar sem grunnskólabörnum á Austurlandi var boðið í vettvangsfer til Seyðisfjarðar og þeim boðið uppá fræðslu um Dieter Roth og prenttækni. Hér Geymt 2014-01-30 í Wayback Machine má lesa nánar um verkefnið.

Umfjöllun Austurfréttar um verkefnið


Á skólaárinu 2008 – 2009 var tók Tækniminjasafnið þátt í verkefninu Fræðakistillinn[óvirkur tengill] í samstarfi við Skaftfell, menningarmiðstöð Austurlands. Verkefnið gekk út að gefa grunnskólabörnum tækifæri til að skoða sambandið milli lista og vísinda á örvandi hátt. Kistillinn fór í alla grunnskólanna á Austurlandi og fékk mjög góðar viðtökur.


Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Tækniminjasafn Austurlands (2002): 4.
  2. Húsnæðismál
  3. Tækniminjasafn Austurlands. www.tekmus.is
  4. Jón Jónsson og Kristín Schram (2002): 3.
  5. Tækniminjasafn Austurlands (2002): 3
  6. „Tæknimynjasafnið gjörónýtt“.
  7. Tækniminjasafn Austurlands: www.tekmus.is
  8. Tækniminjasafn Austurlands: www.tekmus.is


Heimildir[breyta | breyta frumkóða]


Tenglar[breyta | breyta frumkóða]


Puzzle stub.svg  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.