Alexander Lúkasjenkó
Alexander Lúkasjenkó Алякса́ндр Лукашэ́нка | |
---|---|
![]() Alexander Lúkasjenkó í herbúningi árið 2001. | |
Forseti Hvíta-Rússlands | |
Núverandi | |
Tók við embætti 20. júlí 1994 | |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 30. ágúst 1954 Kopys, hvítrússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum (nú Hvíta-Rússlandi) |
Stjórnmálaflokkur | Belaya Rus |
Maki | Galina Sjelneróvítsj (g. 1975) |
Undirskrift | ![]() |
Alexander Grígorjevítsj Lúkasjenkó (Алякса́ндр Рыго́равіч Лукашэ́нка á kyrillísku letri; f. 30. ágúst 1954) er fyrsti og núverandi forseti Hvíta-Rússlands. Hann hefur gegnt embættinu frá því að það var stofnað þann 20. júlí 1994. Lúkasjenkó er kennari að mennt og hafði verið virkur í ungliðahreyfingu hvítrússneska kommúnistaflokksins. Áður en hann hóf virka þátttöku í stjórnmálum var Lúkasjenkó aðstoðarframkvæmdastjóri samyrkjubús, framkvæmdastjóri ríkisbús[1] og hafði gegnt þjónustu í sovéska landamæraverðinum og sovéska hernum. Hann var eini hvítrússneski þingmaðurinn sem kaus á móti sjálfstæði landsins frá Sovétríkjunum árið 1991. Á tíunda áratugnum hélt Lúkasjenkó á lofti hugmyndum um endursameiningu Hvíta-Rússlands og Rússlands[2] en í seinni tíð hefur hann lagt áherslu á mikilvægi fullveldis Hvíta-Rússlands, ekki síst vegna versnandi sambands hans við ríkisstjórn Rússlands.
Lúkasjenkó var mótfallinn því að innleiða efnahagslega frjálslyndisvæðingu í vestrænum stíl eftir fall kommúnismans og undir stjórn hans eru flestir mikilvægustu iðnaðir Hvíta-Rússlands því enn ríkisreknir. Hvíta-Rússland hefur forðast einkavæðinguna sem var framkvæmd í stórum stíl í flestum öðrum Sovétlýðveldum eftir hrun Sovétríkjanna. Ríkisstjórn Lúkasjenkós hefur einnig viðhaldið mestöllu myndmáli og útliti Sovéttímans, sérstaklega í herskrúðgöngum á evrópska sigurdeginum. Vestrænir andstæðingar Lúkasjenkós kalla hann gjarnan „síðasta einræðisherra Evrópu“.[3] Andstæðingar Lúkasjenkós fullyrða að ekkert ríki í Evrópu hafi jafnmarga leyniþjónustu- og lögreglumenn á sínum snærum miðað við höfðatölu og Hvíta-Rússland.[4] Lúkasjenkó hefur réttlætt stjórnarhætti sína með því móti að þeir hafi bjargað Hvíta-Rússlandi frá glundroða og komið í veg fyrir að fátækt og fáveldi festi þar rætur líkt og í öðrum fyrrum Sovétlýðveldum.
Frá árinu 2006 hafa Evrópusambandið og Bandaríkin öðru hverju beitt Hvíta-Rússland efnahagsþvingunum fyrir mannréttindabrot ríkisstjórnarinnar.[4] Samband Hvíta-Rússlands við vesturveldin hefur hins vegar batnað að nokkru leyti frá því að Lúkasjenkó gagnrýndi hernám og innlimun Rússa á Krímskaga árið 2014 og hélt friðarráðstefnu milli Rússa og Úkraínumanna til að freista þess að binda endi á átökin í Úkraínu.[4]
Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]
- ↑ Jón Ólafsson (7. mars 1999). „Meta forsetann meira en sjálfstæðið“. Morgunblaðið. Sótt 16. október 2018.
- ↑ „Þjóð í greipum fortíðar“. mbl.is. 22. febrúar 2003. Sótt 16. október 2018.
- ↑ „Gengið til kosninga í síðasta einræðisríki Evrópu“. blaðið. 16. mars 2006. Sótt 16. október 2018.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 „Hvítrússar kjósa þaulsætinn forseta“. RÚV. 11. október 2015. Sótt 31. október 2018.