Fara í innihald

Sameinuðu arabísku furstadæmin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sameinuðu arabísku furstadæmin
الإمارات العربيّة المتّحدة
Al-Imārāt al-‘Arabīyah al-Muttahidah
Fáni Sameinuðu arabísku furstadæmanna Skjaldarmerki Sameinuðu arabísku furstadæmanna
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Ishy Bilady
Staðsetning Sameinuðu arabísku furstadæmanna
Höfuðborg Abú Dabí
Opinbert tungumál arabíska
Stjórnarfar Sambandsríki

Forseti Mohamed bin Zayed Al Nahyan
Forsætisráðherra Mohammed bin Rashid Al Maktoum
Sjálfstæði frá Bretlandi
 • Yfirlýst 2. desember 1971 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
114. sæti
83.600 km²
0
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
92. sæti
9.890.400
99/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 647,65 millj. dala (34. sæti)
 • Á mann 70.441 dalir (7. sæti)
VÞL (2019) 0.890 (31. sæti)
Gjaldmiðill SAF-díram (AED)
Tímabelti UTC+4
Þjóðarlén .ae
Landsnúmer +971

Sameinuðu arabísku furstadæmin eru sambandsríki sjö furstadæma á suðausturhorni Arabíuskagans. Furstadæmin eru Abú Dabí, Adsman, Dúbæ, Fúdsaíra, Ras al-Kaíma, Sjarja og Úmm al-Kúvaín. Þau eiga landamæri að Sádí-Arabíu og Óman og strönd að Persaflóa. Sameinuðu arabísku furstadæmin eru þriðji stærsti olíuframleiðandinn við Persaflóa, á eftir Íran og Sádí-Arabíu.

Ríkið var stofnað árin 1971 og 1972 af Sáttastrandarríkjunum sjö sem áður voru undir vernd Bretlands. Yfir hverju furstadæmanna sjö ríkir emír. Emírarnir koma saman í sambandsráðinu sem er æðsti löggjafi og framkvæmdavald landsins. Einn af emírunum er skipaður forseti af ráðinu. Höfuðborgin er Abú Dabí en Dúbæ er fjölmennasta borgin. Arabíska er opinbert tungumál landsins og íslam opinber trúarbrögð. Íbúar eru um níu milljónir en voru innan við 100.000 árið 1963. Stór hluti íbúa eru farandverkafólk og í landinu búa 2,2 karlmenn á móti hverri konu. Verkalýðsfélög eru bönnuð og verkfallsréttur ekki viðurkenndur.

Olíulindir fundust í landinu á 6. áratug 20. aldar og útflutningur hráolíu hófst frá Abú Dabí árið 1962. Olía og tengdar afurðir eru langstærsta útflutningsgrein landsins. Olíubirgðir Sameinuðu arabísku furstadæmanna eru taldar vera þær sjöundu mestu í heimi. Fyrsti forseti landsins, Zayed bin Sultan Al Nahyan, sá til þess að olíuauðnum var varið til að byggja upp innviði, heilbrigðisþjónustu og menntun. Sameinuðu arabísku furstadæmin eru hátekjuland með tiltölulega háa lífsgæðavísitölu. Efnahagslíf furstadæmanna er það fjölbreyttasta meðal ríkja innan Persaflóasamstarfsráðsins. Fjölmennasta borgin, Dúbaí, er alþjóðleg miðstöð fyrir flugsamgöngur og alþjóðaviðskipti. Landið reiðir sig því mun síður á olíu en áður og áhersla hefur verið lögð á að byggja upp ferðaþjónustu og viðskipti. Tekjuskattur er ekki innheimtur í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, en þar eru fyrirtækjaskattar og virðisaukaskattur upp á 5% var lagður á árið 2018.

Sameinuðu arabísku furstadæmin eru miðveldi í sínum heimshluta. Landið er aðili að Sameinuðu þjóðunum, Arababandalaginu, Samtökum um íslamska samvinnu, Samtökum olíuframleiðsluríkja, Samtökum hlutlausra ríkja og Persaflóasamstarfsráðinu.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Kort af Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Eyðimerkurlandslag í útjaðri Dúbaí.

Sameinuðu arabísku furstadæmin eru staðsett á hernaðarlega mikilvægu svæði rétt sunnan við Hormússund, þar sem mikið af hráolíu frá olíulindum við Persaflóa er flutt í gegn. Landið á bæði strönd að Ómanflóa og Persaflóa.

Landið liggur milli 22°30' og 26°10' lengdargráðu norður og 51° og 56°25′ breiddargráðu austur. Það á 530 km löng landamæri að Sádi-Arabíu í vestri og suðri, og 450 km löng landamæri við Óman í austri. Auk þess á landið 19 km löng landamæri að Katar við víkina Khawr al Udayd í norðvestri, en það er umdeilt hvort landið nær það langt vestur. Samkvæmt Jeddah-sáttmálanum frá 1974 á Sádi-Arabía land að Persaflóa austan við Katar. Sá samningur var hins vegar aldrei fullgiltur af stjórn furstadæmanna. Að auki gera furstadæmin tilkall til eyja í Persaflóa sem Íran annars vegar og Katar hins vegar gera einnig tilkall til. Þessar landamæradeilur eru enn óútkljáðar. Landmesta furstadæmið er Abú Dabí sem nær yfir 87% af landsvæði furstadæmanna, eða 67.340 km². Minnsta furstadæmið er Adsman sem nær yfir 259 km².

Strönd Sameinuðu arabísku furstadæmanna á suðurströnd Persaflóa er 650 km löng. Mest af ströndinni eru saltflatir sem ná langt inn í land. Stærsta náttúrulega höfn landsins er í Dúbaí en aðrar hafnir hafa verið búnar til með dýpkunum. Fjöldi eyja er í Persaflóa undan strönd landsins. Breytileg sandrif og kóralrif skapa hættu fyrir sjófarendur. Sjávarfallastraumar og stormar geta gert siglingar við strönd landsins erfiðar. Furstadæmin eiga líka strönd að Ómanflóa við Al Bāţinah, en norðan við hana er Musandamskag sem er útlenda Ómans.

Sunnan og vestan við furstadæmin rennur eyðimörkin saman við Rub al-Khali-eyðimörkina í Sádi-Arabíu. Í eyðimörkinni við Abú Dabí eru tvær mikilvægar vinjar með nægilegt vatn neðanjarðar til að standa undir varanlegri byggð og ræktun. Liwa-vinin er í suðri, nálægt landamærunum að Sádi-Arabíu. Um 100 km norðaustan við Liwa er Al-Buraimi beggja vegna landamæranna að Óman. Zakher-vatn er manngert vatn við landamæri Óman.

Áður en Bretar drógu sig frá landinu 1971 skiptu þeir landsvæðinu milli furstadæmanna þannig að sem minnst hætta væri á ágreiningi sem gæti komið í veg fyrir myndun sambandsríkis. Furstarnir samþykktu þessa skiptingu að mestu, en landamerkjadeilur milli Abú Dabí og Dúbaí og Dúbaí og Sjarja voru ekki leystar fyrr en eftir að landið fékk sjálfstæði. Flóknastar urðu deilurnar um landamæri í Al Hajar-fjöllum þar sem fimm furstadæmanna deildu um yfir 10 útlendur.

Plöntur og dýralíf

[breyta | breyta frumkóða]
Akasíutré í Fúdsaíra.

Í vinjunum eru ræktaðir döðlupálmar, akasíur og tröllatré. Í eyðimörkinni er lítið um gróður sem er aðallega grös og þyrnirunnar. Stærri spendýrum var nærri útrýmt með veiðum en á 8. áratugnum hóf Sheikh Zayed bin Sultan Al Nahyan verndun villtra dýra á eyjunni Bani Yas, sem kom í veg fyrir útdauða dýra á borð við arabíuóryx, drómedara og hlébarða. Í hafinu við strönd landsins lifir fjöldi fiskitegunda auk sjávarspendýra.

Ríkjandi loftslag í Sameinuðu arabísku furstadæmunum er hlýtemprað eyðimerkurloftslag með heit sumur og hlýja vetur. Júlí og ágúst eru heitustu mánuðirnir en þá fer meðaldagshiti yfir 45° við ströndina. Í Al-Hajar-fjöllum er hitinn mun lægri vegna hæðarmunar. Meðalnæturhiti í janúar og febrúar er milli 10 og 14°. Síðsumars gengur Sharqi-vindur yfir landið úr suðaustri og skapar oft sandstorma. Meðalúrkoma við ströndina er minni en 120 mm en sum staðar í fjalllendi er hún yfir 350 mm. Við ströndina fellur regn í sem skammvinnt úrhelli í sumarmánuðunum og skapar flóð í þurrum flóðdölum. Stundum ganga öflugir sandstormar yfir landið.

Þann 28. desember 2004 féll snjór í landinu í fyrsta skipti í manna minnum í fjallinu Jebel Jais. Nokkrum árum síðar sást aftur snjór og haglél.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]
Location of the Emirates
Location of the Emirates

Sameinuðu arabísku furstadæmin eru sjö talsins. Dúbaí er fjölmennasta furstadæmið með 35,6% af öllum íbúafjölda landsins. Abú Dabí er með 31,2%, þannig að yfir tveir þriðju hlutar landsmanna búa annað hvort í Abú Dabí eða Dúbaí.

Stærð Abú Dabí er 67.340 km² sem er 86,7% af stærð landsins, fyrir utan eyjarnar. Strandlengja þess er 400 km og skiptist í þrjú meginhéruð. Strandlengja Dúbaí er aðeins 72 km og stærð furstadæmisins 3.885 km² sem jafngildir um 5% af heildarstærð landsins, fyrir utan eyjarnar. Sjarja á 16 km langa strönd við Persaflóa og er 80 km² að stærð. Norðurfurstadæmin, Fúdsaíra, Ras al-Kaíma og Úmm al-Kúvaín eru samanlagt 3.881 km² að stærð. Tvö svæði heyra undir samstjórn. Eitt er undir stjórn Ómans og Adsman og hitt undir stjórn Fúdsaíra og Sjarja.

Madha er ómönsk útlenda innan landamæra furstadæmanna. Það er hálfa vegu milli Musandam-skagans og Ómans í Sjarja. Madha er 75 km² að stærð og landamæri þess voru ákveðin árið 1969. Norðausturhorn Madha er næst veginum milli Khor Fakkan og Fúdsaíra, í aðeins 10 metra fjarlægð. Innan Madha er Nahwa sem er útlenda SAF og tilheyrir líka Sjarja. Hún er um 8 km á slóða vestan við bæinn Nýju-Madha. Þar eru um 40 hús með eigin heilsugæslu og símstöð.

Fáni Furstadæmi Höfuðborg Íbúar Stærð
2018 % (km2) (mi2) %
Abú Dabí Abú Dabí 2.784.490 29,0% 67.340 26.000 86,7%
Adsman Adsman 372.922 3,9% 259 100 0,3%
Dúbaí Dúbaí 4.177.059 42,8% 3.885 1.500 5,0%
Fúdsaíra Fúdsaíra 152.000 1,6% 1.165 450 1,5%
Ras al-Kaíma Ras al-Kaíma 416.600 4,3% 2.486 950 3,2%
Sjarja Sjarja 2.374.132 24,7% 2.590 1.000 3,3%
Úmm al-Kúvaín Úmm al-Kúvaín 72.000 0,8% 777 300 1%
SAF Abú Dabí 9.599.353 100% 77.700 30.000 100%

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.