Harvey Weinstein

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Harvey Weinstein
Harvey Weinstein árið 2014.
Fæddur19. mars 1952 (1952-03-19) (72 ára)
ÞjóðerniBandarískur
MenntunHáskólinn í Buffalo
StörfKvikmyndaframleiðandi
Þekktur fyrirAð fremja fjölda kynferðisafbrota sem urðu ein kveikjan að MeToo-hreyfingunni
MakiEve Chilton (g. 1987; sk. 2004)
Georgina Chapman (g. 2007; sk. 2021)
Börn5

Harvey Weinstein (f. 19. mars 1952) er bandarískur fyrrum kvikmyndaframleiðandi og dæmdur kynferðisafbrotamaður.

Ásamt bróður sínum, Bob Weinstein, stofnaði Harvey Weinstein kvikmyndafélagið Miramax Films og The Weinstein Company. Þeir bræðurnir framleiddu fjölda vinsælla kvikmynda á borð við Scream-myndirnar, kvikmyndir Quentins Tarantino, The English Patient, Chicago, The Aviator, The Fighter, The King's Speech og The Artist. Weinstein var meðal framleiðenda sem tóku við Óskarsverðlaunum í flokki bestu kvikmyndarinnar fyrir myndina Shakespeare in Love árið 1998.

Árið 2017 stigu rúmlega áttatíu konur úr kvikmyndaiðnaðinum fram og upplýstu ein af annarri um að Weinstein hefði beitt þær kynferðislegu ofbeldi og kynferðislegri áreitni. Uppljóstranir um kynferðisafbrot Weinsteins, sem höfðu verið opið leyndarmál í Hollywood um árabil, urðu ein kveikjan að Me too-byltingunni, þar sem konur voru hvattar til að segja frá kynferðisofbeldi sem þær hefðu verið beittar og skila skömminni til gerenda.

Í febrúar 2020 var Weinstein dæmdur sekur fyrir kynferðisbrot og nauðgun. Hann var síðan dæmdur í 23 ára fangelsi í mars sama ár. Hann hlaut sextán ára dóm til viðbótar fyrir aðra nauðgun árið 2023.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Harvey Weinstein stofnaði kvikmyndafélagið Miramax ásamt bróður sínum, Bob Weinstein, árið 1979. Miramax varð eitt stærsta kvikmyndaver heims á tíunda áratugnum og framleiddi fjölda vinsælla mynda.[1]

Weinstein-bræðurnir seldu Disney-fyrirtækinu Miramax árið 1993 fyrir tæplega 100 milljónir Bandaríkjadala. Þeir unnu áfram hjá fyrirtækinu í eigu Disney til ársins 2005 en þá stofnuðu þeir nýtt kvikmyndafélag, The Weinstein Company. Velgengni bræðranna varð aldrei eins mikil eftir Miramax-tímabilið en undir formerkjum nýja kvikmyndaversins framleiddu þeir þó vinsælar myndir á borð við Inglourious Basterds og The King's Speech.[2] Áhrif Weinsteins í bandaríska kvikmyndaiðnaðinum fóru að dvína nokkuð á öðrum áratugi 21. aldar.[1]

Á starfsferli sínum naut Weinstein lengst af nokkurrar virðingar fyrir störf sín, meðal annars vegna baráttu sinnar gegn fátækt og framlaga sinna til rannsókna á sykursýki og MS-sjúkdómi. Hann hafði hlotið sæmdarorðu frá Elísabetu Bretadrottningu fyrir framlög sín til kvikmyndagerðar. Þá var Weinstein kunnur bakhjarl Demókrataflokksins í bandarískum stjórnmálum og hafði veitt ríkuleg framlög í kosningasjóði Baracks Obama og Hillary Clinton í forsetaframboðum þeirra.[3]

MeToo-hreyfingin og málaferlin gegn Weinstein[breyta | breyta frumkóða]

Í október árið 2017 hófu blöðin The New York Times og The New Yorker að birta blaðagreinar þar sem fram stigu konur, þar á meðal þekktar leikkonur og aðrar konur úr kvikmyndageiranum, sem greindu frá kynferðisbrotum Weinsteins og annarri ósæmilegri hegðun hans. Flestar frásagnirnar gengu út á að Weinstein hefði gefið það beint eða óbeint í skyn að konurnar yrðu að gera honum kynferðislega greiða í skiptum fyrir hjálp hans til að komast áfram á framabrautinni í kvikmyndaiðnaðinum. Margar sökuðu hann um nauðgun eða önnur ofbeldisbrot.[4]

Mira Sorvino, Rosanna Arquette, Gwyneth Paltrow, Angelina Jolie og Léa Seydoux voru meðal fjölmargra kvenna sem stigu fram í október 2017 og sökuðu Weinstein um kynferðisbrot og nauðganir á hendur þeim.[5][3] Það var leikkonan Alyssa Milano sem átti frumkvæðið að því að hvetja konur til að skrifa færslur á samfélagsmiðlum með merkinu Me too til að greina frá kynferðisbrotum sem þær hefðu verið beittar í kjölfar uppljóstrananna um brot Weinsteins. Varð þetta upphafið að Me too-hreyfingunni.[4]

Umfjöllunin um Weinstein leiddi til þess að hann var rekinn úr stjórn fyrirtækisins sem hann hafði stofnað The Weinstein Company.[3] Hann var síðan rekinn úr bandarísku kvikmyndaakademíunni þann 14. október 2017 og var þetta í fyrsta skipti sem ein­hver var rek­inn úr aka­demí­unni vegna persónulegrar hegðunar sinnar.[6]

Weinstein var ákærður fyrir nauðgun á tveimur konum í New York í maí árið 2018.[7] Dómur féll í máli Weinsteins í mars árið 2020 og var hann þá dæmdur í 23 ára fangelsi.[4] Weinstein var dæmdur í sextán ára fangelsi til viðbótar í desember 2022 vegna annarrar nauðgunar sem hann hafði framið í Los Angeles um áratug fyrr.[8][9]

Dóminum gegn Weinstein í New York var snúið við eftir áfrýjun árið 2024 á grundvelli þess að Weinstein hefði ekki hlotið réttláta málsmeðferð. Vísað var til þess að saksóknarar hafi notast við vitnisburði sem komu málsmeðferðinni ekki við og að hann hefði verið sakfelldur vegna hegðunar sinnar á margra ára tímabili en ekki vegna hins tiltekna glæps sem kæran gekk út á. Weinstein dvelur engu að síður áfram í fangelsi vegna annarra dóma gegn sér.[10]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Inga Rún Sigurðardóttir (15. október 2017). „Fall kvikmyndarisa“. Morgunblaðið. bls. 6.
  2. Sæbjörn Valdimarsson (5. desember 2010). „Weinstein-bræður komnir á kreik“. Morgunblaðið. bls. 44.
  3. 3,0 3,1 3,2 Þórgnýr Einar Albertsson (14. október 2017). „Goðsögn orðin að alræmdum skúrki“. Vísir. Sótt 4. mars 2023.
  4. 4,0 4,1 4,2 „Harvey Weinstein dæmdur í 23 ára fangelsi“. Kjarninn. 11. mars 2020. Sótt 28. nóvember 2021.
  5. Guðrún Hálfdánardóttir (14. október 2017). „Viðbrögðin minna á snjóflóð“. mbl.is. Sótt 4. mars 2023.
  6. „Weinstein rekinn úr akademíunni“. mbl.is. 14. október 2017. Sótt 4. mars 2023.
  7. „Weinstein loks ákærður“. Fréttablaðið. 26. maí 2018. bls. 13.
  8. Oddur Ævar Gunnarsson (20. desember 2022). „Harvey Wein­stein dæmdur fyrir aðra nauðgun“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. mars 2023. Sótt 4. mars 2023.
  9. Vésteinn Örn Pétursson (23. febrúar 2023). „Sex­tán ár bætast við dóm Wein­stein“. Vísir. Sótt 4. mars 2023.
  10. Rafn Ágúst Ragnarsson (25. apríl 2024). „Dómi Harvey Weinstein snúið við“. Vísir. Sótt 25. apríl 2024.