Fara í innihald

Sigurbergur Sigsteinsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sigurbergur Sigsteinsson (10. febrúar 1948 - 29. janúar 2020) var íslenskur íþróttamaður sem keppti undir merkjum Fram. Hann varð Íslandsmeistari í bæði handbolta og fótbolta, keppti landsleiki í báðum íþróttum og gegndi jafnframt störfum landsliðsþjálfara.

Ferill[breyta | breyta frumkóða]

Sigurbergur fæddist og ólst upp í Reykjavík og hóf ungur íþróttaiðkun með Fram. Hann lauk námi frá Íþróttakennaraskólanum að Laugarvatni árið 1969. Sigurbergur kom úr mikilli íþróttafjölskyldu, en systur hans Jóhanna og Oddný kepptu einnig með Fram. Systkinin urðu öll þrjú Íslandsmeistarar handknattleiksárið 1969-70.

Hann lék 352 meistaraflokksleiki fyrir Fram í handknattleik og 78 A-landsleiki, þar á meðal á Ólympíuleikunum 1972 og var í liði Íslands sem vann Dani í fyrsta sinn árið 1968. Hann þjálfaði meistaraflokk karla hjá Fram handknattleiksárið 1978-79 og kvennalið félagsins árin 1974-75 og 1980-81. Hann stýrði jafnframt kvennalandsliðinu á árunum 1974-75 og aftur 1980-83. Þá þjálfaði hann karlalið Hauka í efstu deild um tíma. Einnig stýrði hann kvennaliði ÍR um nokkurra ára skeið og gerðið liðið m.a. að bikarmeisturum í fyrsta og eina sinn.

Sigurbergur lék um árabil með meistaraflokki Fram í knattspyrnu og var í Íslandsmeistaraliði félagsins árið 1972. Hann spilaði fyrir hönd Íslands í leik gegn áhugamannaliði Englands árið 1971. Árið 1985 tók hann við stjórn kvennalandsliðsins og leiddi það til sigurs í sínum fyrsta leik, 2:3 gegn Svisslendingum. Hann þjálfaði fjölda yngri flokka í knattspyrnu en einnig meistaraflokka karla hjá Þrótti Neskaupstað og Leikni Reyðarfirði.[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Morgunblaðið 6. febrúar 2020“.