Kamala Harris

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Kamala Harris
Senator Harris official senate portrait.jpg
Öldungadeildarþingmaður fyrir Kaliforníu
Núverandi
Tók við embætti
3. janúar 2017
Persónulegar upplýsingar
Fædd20. október 1964 (1964-10-20) (56 ára)
Oakland, Kaliforníu, Bandaríkjunum
StjórnmálaflokkurDemókrataflokkurinn
MakiDouglas Emhoff (g. 2014)
HáskóliHoward-háskóli
Kaliforníuháskóli í Hastings
StarfLögfræðingur, stjórnmálamaður
Undirskrift
Vefsíðakamalaharris.org

Kamala Devi Harris (f. 20. október 1964) er bandarískur stjórnmálamaður úr Demókrataflokknum sem hefur setið í öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Kaliforníu frá árinu 2017. Áður en hún tók sæti á þinginu var Harris dómsmálaráðherra Kaliforníu frá 2011 til 2017.[1]

Þann 21. janúar árið 2019 tilkynnti Harris framboð sitt til forseta Bandaríkjanna í forsetakosningunum 2020. Harris náði snemma talsverðu fylgi í forvali Demókrataflokksins en ákvað vegna dvínandi fylgis að draga framboð sitt til baka þann 3. desember 2019. Eftir að Joe Biden vann tilnefningu flokksins í kosningunum útnefndi hann Harris sem varaforsetaefni sitt.[2]

Bakgrunnur[breyta | breyta frumkóða]

Kamala Harris fæddist í Oakland í Kaliforníu. Foreldrar hennar, Shyamala Gopalan Harris og Donald Harris, voru báðir innflytjendur – móðir hennar frá Indlandi en faðir hennar frá Jamaíku. Foreldrar hennar skildu árið 1971 og árið 1976 flutti Harris til Kanada ásamt móður sinni og systur. Harris hóf nám við Howard-háskóla árið 1986 og útskrifaðist þaðan með gráðu í stjórnmálafræði.

Starfsferill[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1989 hóf Harris störf sem lögmaður eftir að hafa lokið lagaprófi við Hastings-lagaháskólann við Kaliforníuháskóla. Hún starfaði á skrifstofu héraðssaksóknarans í Alameda frá árinu 1990. Árið 1998 hóf hún störf á skrifstofu héraðssaksóknarans í San Francisco. Árið 2003 varð hún sjálf héraðssaksóknari borgarinnar.

Harris var dómsmálaráðherra Kaliforníu frá 2011 til 2017, þar til hún tók sæti í öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir fylkið.[3]

Þingframboð 2016[breyta | breyta frumkóða]

Í byrjun ársins 2016 tilkynnti Harris að hún myndi sækjast eftir kjöri á öldungadeild Bandaríkjaþings eftir að Barbara Boxer tilkynnti að hún myndi ekki sækjast eftir endurkjöri. Harris náði kjöri fyrir Demókrataflokkinn í nóvember 2016 og tók við þingsætinu þann 3. janúar 2017.[4]

Forsetaframboð 2020[breyta | breyta frumkóða]

Þann 21. janúar árið 2019 tilkynnti Harris formlega að hún hygðist gefa kost á sér í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningar Bandaríkjanna árið 2020.[5] Framboð hennar fór vel af stað og hún vakti mikla athygli í fyrstu kappræðum flokksins en eftir að fylgið hafði farið dvínandi í nokkra mánuði og fjárskortur var farinn að þjaka herferðina dró hún sig úr forvalinu þann 3. desember 2019.[6]

Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, tilkynnti þann 11. ágúst 2020 að hann hefði valið Harris sem varaforsetaefni sitt í kosningabaráttunni.[7]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Shenkman, Kenneth (2018). „Harris, Kamala“. World Book Advanced. Sótt May 8, 2018.
  2. „Joe Biden picks Kamala Harris as his running mate“. August 11, 2020.
  3. Newsmakers (2017). „Kamala Harris“. Student Resources In Context. Sótt May 8, 2018.
  4. „Kamala D. Harris“. Biography in Context. March 8, 2017. Sótt May 8, 2018.
  5. Reston, Maeve January 21, 2019, „Kamala Harris to run for president in 2020". CNN.
  6. Cadelago, Christopher December 3, 2019, „Kamala Harris drops out of presidential race". Politico. Skoðað December 3, 2019.
  7. Freyr Gígja Gunnarsson (11. ágúst 2020). „Kamala Harris verður varaforsetaefni Biden“. RÚV. Sótt 11. ágúst 2020.