Elísabet Gunnarsdóttir (knattspyrnuþjálfari)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Elísabet.

Elísabet Gunnarsdóttir (f. 2. október 1976) er íslenskur knattspyrnuþjálfari, íþróttakennari og fyrrverandi leikmaður Vals í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu. Frá árinu 2009 hefur Elísabet þjálfað lið Kristianstads DFF í úrvalsdeild kvenna í Svíþjóð. Elísabet hefur tvisvar sinnum verið útnefnd þjálfari ársins í sænsku úrvalsdeildinni[1] og komið liðinu sínu í meistaradeild Evrópu.[2]

Knattspyrnuferill[breyta | breyta frumkóða]

Knattspyrnuferill Elísabetar hófst í yngri flokkum Vals. Árið 1995 fór hún yfir til Stjörnunnar í Garðabæ og spilaði tvö tímabil með félaginu. Hún snéri aftur til Vals og spilaði þar til ársins 2001 er hún ákvað að leggja skóna á hilluna og snúa sér að þjálfun. Hún hóf feril sinn sem meistaflokksþjálfari hjá ÍBV í Vestmannaeyjum þegar hún var 24 ára gömul.

Þjálfaraferill[breyta | breyta frumkóða]

Elísabet hóf þjálfaraferil sinn 16 ára gömul er hún hóf störf sem aðstoðarþjálfari yngri flokka hjá Val. Um níu ára skeið þjálfaði hún hjá Val samhliða því að spila með meistaraflokki félagsins. Hún átti stóran þátt í að byggja upp öflugt starf yngri flokka í kvennaliðum Vals. Lið undir stjórn Elísabetar unnu til fjölda Íslandsmeistaratitla og árið 1999 hlaut hún titilinn yngri flokka þjálfari ársins.

Elísabet yfirgaf Val árið 2001 og hóf störf sem þjálfari úrvalsdeildarliðs kvenna hjá ÍBV í Vestmannaeyjum. Ári síðar tók hún við öðrum flokki kvenna hjá Breiðabliki og varð liðið Íslandsmeistari undir stjórn Elísabetar. Árið 2003 snéri hún aftur til Vals og tók við meistaraflokki kvenna hjá félaginu og vann liðið sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í 15 ár undir stjórn hennar. Elísabet var yfirþjálfari kvennaliðs Vals í fimm ár og vann liðið fjóra Íslandsmeistaratitla undir hennar stjórn auk bikarmeistaratitils.

Í janúar árið 2009 fluttist Elísabet til Svíþjóðar og tók við þjálfun kvennaliðs Kristianstads DFF í sænsku úrvalsdeildinni. Í tíð Elísabetar hjá Kristianstads hafa m.a. knattspyrnukonurnar Margrét Lára Viðarsdóttir, Sif Atladóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir leikið með liðinu.

Árin 2017 og 2020 var Elísabet útnefnd þjálfari ársins í sænsku úrvalsdeildinni og í nóvember árið 2020 varð ljóst að lið hennar Kristianstads mun leika í meistaradeild Evrópu.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Elísabet Gunnarsdóttir“ á ensku útgáfu Wikipedia. Skoðað 30. nóvember 2020.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Mbl.is, „Elísabet þjálfari ársins í Svíþjóð“ (skoðað 30. nóvember 2020)
  2. Frettabladid.is, „Draumurinn var fjarlægur þegar Elísabet tók við“ Geymt 19 nóvember 2020 í Wayback Machine (skoðað 30. nóvember 2020)