Forsetakosningar í Bandaríkjunum 2020

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna úr Repúblikanaflokknum
Joe Biden, forsetaefni Demókrataflokksins

Forsetakosningar í Bandaríkjunum munu næst fara fram þann 3. nóvember árið 2020. Sitjandi forseti Bandaríkjanna úr Repúblikanaflokknum, Donald Trump, hyggst bjóða sig fram til endurkjörs ásamt varaforseta sínum, Mike Pence. Áætlað er að helsti keppinautur Trumps um forsetastólinn verði Joe Biden, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna. Biden var formlega tilnefndur forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins á flokksþingi Demókrata þann 18. ágúst 2020.[1] Varaforsetaefni Bidens í kosningunum er öldungadeildarþingmaðurinn Kamala Harris.[2]

Kosningarnar fara fram í skugga alþjóðlegs kórónaveirufaraldurs, sem hefur komið sérlega illa niður á Bandaríkjamönnum og leikið efnahag Bandaríkjanna grátt. Vegna faraldursins hefur mikið verið deilt um ráðstafanir til að auðvelda fólki að greiða atkvæði utan kjörfundar svo það þurfi ekki að safnast saman á kjörstað og hætta á að dreifa veirusýkinni frekar. Trump forseti hefur ítrekað haldið því fram að utankjörfundaratkvæði leiði til stórtæks kosningasvindls en hefur ekki fært rök fyrir máli sínu eða bent á fordæmi fyrir því,[3] auk þess sem hann hefur sjálfur nokkrum sinnum nýtt sér póstþjónustu til að greiða atkvæði utan kjörfundar.[4]

Kosningabaráttan hefur einnig litast af umræðu um kerfisbundna kynþáttamismunun í Bandaríkjunum í kjölfar mótmæla bandarískra blökkumanna sem hófust í maí eftir að lögreglumenn í Minnesota drápu blökkumann að nafni George Floyd að tilefnislausu. Morðið á Floyd og mótmælin sem hafa fylgt í kjölfarið hafa leitt til deilna um það hvort rétt sé að endurskipuleggja eða draga úr fjármagni til bandarískra lögreglumanna eða hvort nauðsynlegt sé sem aldrei fyrr að viðhalda lögum og reglu til að koma í veg fyrir óeirðir og skemmdarverk.[5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Biden form­lega út­nefnd­ur“. mbl.is. 18. ágúst 2020. Sótt 24. ágúst 2020.
  2. Freyr Gígja Gunnarsson (11. ágúst 2020). „Kamala Harris verður varaforsetaefni Biden“. RÚV. Sótt 11. ágúst 2020.
  3. „Leggst gegn aukafjárveitingu til póstþjónustu“. RÚV. 13. ágúst 2020. Sótt 24. ágúst 2020.
  4. Miles Parks (19. ágúst 2020). „Trump, While Attacking Mail Voting, Casts Mail Ballot Again“. NPR. Sótt 24. ágúst 2020.
  5. „Lög­reglu­sam­tök styðja Trump“. mbl.is. 16. júlí 2020. Sótt 24. ágúst 2020.
Wiki letter w.svg  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.