Bólivía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fjölþjóðaríkið Bólivía
Estado Plurinacional de Bolivia (spænska)
Tetã Hetãvoregua Mborivia
(gvaraní)
Wuliwya Suyu
(aymara)
Puliwya Mamallaqta
(quechua)
Fáni Bólivíu Skjaldarmerki Bólivíu
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
¡La unión es la fuerza! (spænska)
Samheldni er styrkur!
Þjóðsöngur:
Bolivianos, el hado propicio
Staðsetning Bólivíu
Höfuðborg Súkre (löggjafavald og dómsvald) La Paz (aðsetur stjórnar)
Opinbert tungumál spænska, quechua, aymara og guaraní, ásamt 33 öðrum frumbyggjamálum
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Luis Arce
Sjálfstæði frá Spáni
 • Yfirlýst 6. ágúst 1825 
 • Viðurkennt 21. júlí 1847 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
27. sæti
1.098.581 km²
1,29
Mannfjöldi
 • Samtals (2022)
 • Þéttleiki byggðar
79. sæti
12.054.379
10,4/km²
VLF (KMJ) áætl. 2022
 • Samtals 118,8 millj. dala (94. sæti)
 • Á mann 9.933 dalir (120. sæti)
VÞL (2021) 0.692 (114. sæti)
Gjaldmiðill bólivíani (BOB)
Tímabelti UTC-4
Þjóðarlén .bo
Landsnúmer +591

Bólivía er landlukt land í miðvesturhluta Suður-Ameríku. Höfuðborg Bólivíu samkvæmt stjórnarskrá er Sucre en stjórnarsetur er í borginni La Paz. Stærsta og helsta iðnaðarborg landsins er Santa Cruz de la Sierra sem er staðsett í héraðinu Llanos Orientales, láglendi í austurhluta landsins.

Bólivía er óskipt ríki með níu umdæmi. Það nær frá Andesfjöllum í vestri að láglendi í austri sem er hluti af vatnasviði Amasónfljóts. Bólivía á landamæri að Brasilíu í norðri og austri, Paragvæ og Argentínu í suðri, og Síle og Perú í vestri. Þriðjungur landsins er innan Andesfjalla. Bólivía er fimmta stærsta land Suður-Ameríku á eftir Brasilíu, Argentínu, Perú og Kólumbíu. Það er, ásamt Paragvæ, annað af tveimur landluktum löndum álfunnar, 7. stærsta landlukta land heims og stærsta landlukta land suðurhvelsins.

Íbúar Bólivíu eru um 11 milljónir af fjölbreyttum uppruna. Spænska er opinbert mál landsins en þar eru líka töluð 36 frumbyggjamál sem hafa opinbera stöðu. Stærst þeirra eru gvaraní, aymara og quechua.

Fyrir komu Spánverja var sá hluti landsins sem er í Andesfjöllum hluti af Inkaveldinu, en láglendið í norðri og austri var byggt sjálfstæðum þjóðum. Spænskir landvinningamenn frá Cuzco og Asunción lögðu þetta svæði undir sig á 16. öld. Á nýlendutímanum heyrði landið undir Konunglega yfirréttinn í Charcas. Spánverjar byggðu veldi sitt að stórum hluta upp með silfri sem unnið var úr námum í Bólivíu. Árið 1809 hófst sjálfstæðisbarátta sem stóð í 16 ár. Árið 1825 var lýðveldið Bólivía stofnað og nefnt í höfuðið á Símoni Bólívar. Á 19. og 20. öld missti Bólivía yfirráð yfir landamærahéruðum, þar á meðal strandlengjunni sem Chile lagði undir sig 1879. Stjórnmál voru nokkuð stöðug í Bólivíu þar til Hugo Banzer leiddi herforingjabyltingu gegn sósíalíska leiðtoganum Juan José Torres 1971. Stjórn Banzers réðist af hörku gegn vinstrimönnum í landinu og beitti pyntingum og aftökum án dóms og laga gegn óbreyttum borgurum. Banzer var hrakinn frá völdum 1978 en varð síðar lýðræðislega kjörinn forseti frá 1997 til 2001.

Bólivía er aðili að Sameinuðu þjóðunum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Samtökum hlutlausra ríkja, Samtökum Ameríkuríkja, Samstarfssamningi Amasónríkja, Suðurbankanum, ALBA og Bandalagi Suður-Ameríkuþjóða. Bólivía er annað fátækasta land Suður-Ameríku. Landið er þróunarland sem situr um miðbik Vísitölu um þróun lífsgæða. 38,6% íbúa eru undir alþjóðlegum fátæktarmörkum. Efnahagslíf landsins byggist á landbúnaði, skógrækt, fiskveiðum, námavinnslu og framleiðslu á textíl, málmum og eldsneyti. Bólivía býr yfir verðmætum málmum eins og tini, silfri og litíni. Bólivía framleiðir um 80% af heimsframleiðslu brasilíuhnetna.

Heiti[breyta | breyta frumkóða]

Bólivía heitir eftir byltingarleiðtoganum Simón Bolívar sem var foringi í sjálfstæðisstríðum Spænsku Ameríku.[1] Antonio José de Sucre, leiðtogi Venesúela, hafði fengið þá kosti frá Bolívar að annað hvort sameina Charcas og Perú, sameinast Sameinuðum héruðum Río de la Plata eða lýsa formlega yfir sjálfstæði frá Spáni sem nýtt sjálfstætt ríki. Sucre ákvað að búa til nýtt ríki og nefndi það eftir Bolívar þann 6. ágúst 1825.[2]

Upphaflega hét ríkið Lýðveldið Bolívar. Nokkrum dögum síðar stakk Manuel Martín Cruz upp á breytingu þannig að nafnið yrði Bolivia. Nafnið var samþykkt þann 3. október 1825. Árið 2009 var opinberu heiti landsins breytt í stjórnarskrá í „fjölþjóðaríkið Bólivía“ (Estado Plurinacional de Bolivia) til að leggja áherslu á fjölbreyttan uppruna íbúa og aukin réttindi frumbyggja.[3][4]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Seinni hluti 20. aldar[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1971 framdi Hugo Banzer Suárez valdarán með stuðningi CIA og steypti Torres forseta af stóli.

Eftir 12 ára róstursama valdatíð varð klofningur innan Þjóðarhreyfingarinnar. Árið 1964 steypti herforingjaklíka Estenssoro forseta af stóli í byrjun þriðja kjörtímabils hans. Eftir lát herforingjans René Barrientos Ortuño, sem var kosinn forseti árið 1966, tók við röð veikra ríkisstjórna. Ótti við vaxandi vinsældir sósíalistaforingjans Juan José Torres leiddi til valdaráns hersins sem setti Hugo Banzer Suárez á forsetastól árið 1971. Torres flúði frá Bólivíu en var rænt og hann myrtur í tengslum við Kondóráætlunina árið 1976.[5]

Leyniþjónusta Bandaríkjanna (CIA) bæði fjármagnaði og þjálfaði herforingjastjórn Bólivíu á 7. áratugnum. Byltingarleiðtoginn Che Guevara var myrtur af hópi leyniþjónustumanna og bólivískra hermanna 9. október 1967 í Bólivíu.[6] Leyniþjónustumaðurinn Felix Rodríguez sagðist hafa fengið skipun frá forseta landsins um aftöku Guevara þar sem átti að láta líta svo út sem Guevara hefði fallið í átökum við hermennina.[7]

Kosningar árin 1979 og 1981 einkenndust af kosningasvindli. Fleiri herforingjabyltingar, gagnbyltingar og starfsstjórnir einkenndu þennan tíma. Árið 1980 framdi herforinginn Luis García Meza Tejada blóðugt valdarán sem naut ekki stuðnings meðal almennings. Yfir þúsund voru drepin á innan við einu ári. Tejada var frændi eins helsta kókaínframleiðanda landsins og studdi aukna framleiðslu á kókaíni.[8] Hann reyndi að róa öldurnar með því að lofa að vera aðeins eitt ár við völd, en þegar árið var liðið setti hann á svið baráttufund til að láta sem hann hefði stuðning almennings til að halda völdum.[9] Eftir að herinn hrakti hann frá völdum árið 1981 tóku við þrjár herforingjastjórnir á 14 mánuðum og vandamál fóru vaxandi. Vegna óróans neyddist stjórnin til að kalla bólivíska þingið sem hafði verið kosið árið 1980 aftur saman, og leyfa því að kjósa nýjan stjórnarleiðtoga. Í október 1982 varð Hernán Siles Zuazo aftur forseti, 22 árum eftir að fyrsta kjörtímabili hans lauk (1956-1960).

Vatnsstríðin í Cochabamba[breyta | breyta frumkóða]

Cochabamba mótmælin árið 2000, einnig þekkt sem vatnsstríðin í Cochabamba, var röð mótmæla sem áttu sér stað í Cochabamba, þriðju stærstu borg Bólivíu, frá desember 1999 til apríl 2000 til að bregðast við því að fyrirtækinu Semapa höfðu með einkavæðingu verið færð yfirráð yfir vatnsveitu borgarinnar. Svo ákváðu stjórnvöld að gefa einkaaðilum einkarétt á vatnsbólum og læstu brunnum í þorpunum svo fólk kæmist ekki í þá. Erlend fjárfestingarfélög höfðu beitt miklum þrýstingi til að fá að hækka vatnsverð vegna framkvæmda sem þau höfðu ráðist í við byggingu á stíflum. Þetta varð til þess að upp gaus mikil reiði á meðal almennings sem fékk ekki nóg vatn. Þegar þetta gerðist lýsti ríkisstjórn Bólivíu yfir herlögum og handtók og lét drepa nokkra mótmælendur. Einnig var lokað fyrir útsendingar útvarpsstöðva. Það voru aðallega Coordinadora-samtökin sem skipulögðu mótmælin til að verja aðgang fólks að vatni. Tugþúsundir manna börðust við lögreglu og eftir nokkurn tíma og mikinn þrýsting frá borgurunum var einkavæðing vatnsréttindanna tekin aftur þann 10. apríl árið 2000 þegar stjórnvöld komust að samkomulagi við Coordinadora.

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar[breyta | breyta frumkóða]

Bólivía skiptist í níu umdæmi: Pando-umdæmi, La Paz-umdæmi (Bólivíu), Beni-umdæmi, Oruro-umdæmi, Cochabamba-umdæmi, Santa Cruz-umdæmi (Bólivíu), Potosí-umdæmi, Chuquisaca-umdæmi og Tarija-umdæmi.

Lög um valddreifingu skilgreina leiðir til skiptingar ábyrgðar milli miðstjórnarvaldsins og annarra stjórnsýslueininga, eins og kveðið er á um í stjórnarskrá Bólivíu. Þau skilgreina fjögur stig valddreifingar: Héraðsstjórnir, skipaðar af héraðsþingum, sem bera ábyrgð á löggjöf innan héraðs. Héraðsstjóri er kosinn í almennum kosningum; Sveitarstjórnir eru skipaðar af bæjarráði sem ber ábyrgð á löggjöf innan sveitarfélagsins. Bæjarstjóri er kosinn með almennri kosningu; Héraðsstjórnir, myndaðar af nokkrum sýslum eða sveitarfélögum sem liggja saman innan umdæmis. Hún er skipuð af héraðsþingi; Frumbyggjastjórnir sem sjá um sjálfsforræði frumbyggjaþjóða sem búa á landi forfeðra sinna.

Kort Nr. Umdæmi Höfuðborg
Umdæmisskipting Bólivíu
1 Pando Cobija
2 La Paz La Paz
3 Beni Trinidad
4 Oruro Oruro
5 Cochabamba Cochabamba
6 Santa Cruz Santa Cruz de la Sierra
7 Potosí Potosí
8 Chuquisaca Sucre
9 Tarija Tarija

Íbúar[breyta | breyta frumkóða]

Íbúafjöldi
Ár Milljónir
1950 3,1
2000 8,3
2021 12,1
Fólk í miðborg La Paz.

Samkvæmt síðustu tveimur manntölunum sem Hagstofa Bólivíu hefur framkvæmt, hafði íbúum fjölgað úr 8,2 milljónum árið 2001 í 10 milljónir 2012.[10]

Undanfarin 50 ár hefur íbúafjöldi Bólivíu þrefaldast og vöxturinn verið 2,25% árlega. Milli manntalanna 1950 og 1976 og 1976 og 1992 var vöxtur um 2,05%, en milli 1992 og 2001 var hann 2,74%.

67,49% íbúa Bólivíu búa í þéttbýli, en 32,51% í dreifbýli. Meirihluti íbúa býr í umdæmunum La Paz, Santa Cruz og Cochabamba. Á hásléttunni í Andesfjöllum eru La Paz og Oruro fjölmennustu umdæmin. Í dölunum búa flestir í Cochabamba og Chuquisaca, meðan Santa Cruz og Beni eru fjölmennustu umdæmin í Llanos-héraði. Í heildina er þéttleiki byggðar 8,49, en dreifist mjög ójafnt og nær frá 0,8 í Pando-umdæmi að 26,2 í Cochabamba.

Mesti mannfjöldinn er við svokallaðan miðöxul og í Llanos-héraði. Bólivía er ung þjóð. Samkvæmt manntalinu 2011 voru 59% íbúa milli 15 og 59 ára og 39% undir 15 ára aldri. Næstum 60% þjóðarinnar eru undir 25 ára aldri.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Simón Bolívar“. Salem Press. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. ágúst 2013. Sótt 28. janúar 2014.
  2. „6 de Agosto: Independencia de Bolivia“. Historia-bolivia.com (spænska). Afrit af upprunalegu geymt þann 20. ágúst 2011. Sótt 14. júlí 2013.
  3. Kapoor, Ilan (2021). Universal Politics. Oxford University Press. bls. 164. ISBN 978-0-19-760761-9.
  4. Tovar-Restrepo, Marcela (2013). „Nations within Nations: Transnationalism and Indigenous Citizenship in Latin America“. Í Irazábal, Clara (ritstjóri). Transbordering Latin Americas: Liminal Places, Cultures, and Powers (T)Here. Routledge. bls. 150. ISBN 978-1-135-02239-6.
  5. „Operation Condor on Trial in Argentina“. Inter Press Service. 5. mars 2013.
  6. Grant, Will (8. október 2007). „CIA man recounts Che Guevara's death“. BBC News. Afrit af uppruna á 27. janúar 2010. Sótt 2. janúar 2010.
  7. „Statements by Ernesto "Che" Guevara Prior to His Execution in Bolivia“. Foreign Relations of the United States. United States Department of State. XXXI, South and Central America, Mexico. 13. október 1967. XXXI: 172.
  8. A Concise History of Bolivia, Cambridge Concise Histories, by Herbert S. Klein
  9. Boyd, Brian (20. janúar 2006). „Astroturfing all the way to No 1“. The Irish Times. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. janúar 2013. Sótt 7. apríl 2010.
  10. „Principales resultados del censo nacional de población y vivienda 2012 (CNPV 2012) – Estado plurinacional de Bolivia“ (PDF). Instituto Nacional de Estadística (INE). júlí 2013. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 9. febrúar 2014. Sótt 8. ágúst 2013.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.