Keir Starmer
Sir Keir Starmer | |
---|---|
Forsætisráðherra Bretlands | |
Núverandi | |
Tók við embætti 5. júlí 2024 | |
Þjóðhöfðingi | Karl 3. |
Forveri | Rishi Sunak |
Leiðtogi breska Verkamannaflokksins | |
Núverandi | |
Tók við embætti 4. apríl 2020 | |
Forveri | Jeremy Corbyn |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 2. september 1962 Southwark, London, Englandi |
Þjóðerni | Breskur |
Stjórnmálaflokkur | Verkamannaflokkurinn |
Maki | Victoria Alexander (g. 2007) |
Börn | 2 |
Bústaður | Downingstræti 10 |
Háskóli | Háskólinn í Leeds St Edmund Hall, Oxford |
Undirskrift |
Sir Keir Rodney Starmer (f. 2. september 1962) er breskur stjórnmálamaður sem hefur verið forsætisráðherra Bretlands frá 2024. Hann hefur verið leiðtogi Verkamannaflokksins frá 2020.
Hann tók við formannsembættinu í Verkamannaflokkinum af Jeremy Corbyn árið 2020 eftir að Verkamannaflokkurinn galt afhroð í þingkosningum árið áður. Starmer vann áður sem saksóknari hjá embætti breska ríkissaksóknarans.[1] Starmer hefur verið lýst sem málsvara „mjúka vinstrisins“ innan Verkamannaflokksins en hann hefur þó lýst yfir vilja til að halda í róttækni síðustu ára.[2] Í þingkosningunum 2024 vann Verkamannaflokkurinn stórsigur og varð Keir því að forsætisráðherra þann 5. júlí 2024.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Keir Starmer er fæddur árið 1962 í London og er kominn af einörðum vinstrimönnum. Hann er nefndur í höfuðið á Keir Hardie, stofnanda og fyrsta þingflokksformanni Verkamannaflokksins.[2] Móðir hans starfaði fyrir bresku heilbrigðisþjónustuna og faðir hans var verkamaður. Starmer ólst upp í smábæ í Surrey nálægt London.[3]
Starmer nam lögfræði í háskóla og að loknu námi tók hann þátt í að reka vinstrisinnaða tímaritið Socialist Alternatives. Árið 2008 varð hann yfirmaður hjá saksóknaraembætti bresku krúnunnar.[3] Sem saksóknari átti Starmer þátt í viðbrögðum stjórnvalda við óeirðunum í Englandi árið 2011. Hann tók ákvörðun um að réttarkerfið skyldi vera opið allan sólarhringinn og um þúsund manns fóru í fangelsi vegna óeirðanna.[4]
Starmer hlaut árið 2014 riddaranafnbót fyrir störf sín í þágu hins opinbera sem mannréttindalögfræðingur og saksóknari hjá ríkinu. Hann komst fyrst á breska þingið eftir kosningarnar árið 2015 og var frá árinu 2016 meðlimur í skuggaríkisstjórn Jeremy Corbyn sem ráðherra Brexit-málefna. Hann sagði sig síðar úr skuggaríkisstjórninni vegna ágreiningsefna við Corbyn. Á flokksfundi Verkamannaflokksins árið 2018 var Starmer málsvari þess að flokkurinn berðist fyrir annarri þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Bretlands í Evrópusambandinu og að möguleikinn um að Bretland yrði áfram aðili að ESB yrði uppi á borðinu. Eftir slæma útreið Verkamannaflokksins í kosningum árið 2019 hefur Starmer sagst tilbúinn að sætta sig við að Bretland yfirgefi Evrópusambandið.[2]
Corbyn sagði af sér sem leiðtogi Verkamanna eftir kosningarnar 2019. Starmer var kjörinn nýr leiðtogi flokksins þann 4. apríl árið 2020 með rúmum 56 prósentum atkvæða. Stuttu eftir að Starmer tók við forystu flokksins lýsti hann yfir að hann myndi reyna að uppræta Gyðingahatur innan flokksins, en flokkurinn hafði sætt gagnrýni fyrir meinta Gyðingaandúð á formannstíð Corbyns.[5] Starmer skipaði skuggaráðuneyti sem þótti bera vott um endurkömu „mjúka vinstrisins“ eftir róttækari formannstíð Corbyns.[2]
Í leiðtogatíð Starmers hefur Verkamannaflokkurinn færst til hægri miðað við stefnu flokksins undir forystu Corbyns. Starmer lét hreinsa marga af róttækustu vinstrisinnunum úr flokknum, auk þess sem Corbyn var vikið úr flokknum í stjórnartíð hans.[6]
Undir forystu Starmers vann Verkamannaflokkurinn stórsigur í þingkosningum Bretlands sem haldnar voru þann 4. júlí árið 2024. Því tók hann við af Rishi Sunak sem forsætisráðherra Bretlands daginn eftir.[7]
Einkahagir
[breyta | breyta frumkóða]Starmer er tveggja barna faðir og stuðningsmaður fótboltaliðsins Arsenal.[6]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Brýnt að vernda réttin til að "stuða"“. Blaðamannafélag Íslands. 12. október 2012. Sótt 8. júní 2020.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 Arnar Þór Ingólfsson (7. apríl 2020). „Fékk vinstrimennsku í vöggugjöf“. Kjarninn. Sótt 7. júní 2020.
- ↑ 3,0 3,1 „Hver er Keir Starmer, nýr forsætisráðherra Bretlands?“. DV. 5. júlí 2024. Sótt 5. júlí 2024.
- ↑ Ari Páll Karlsson; Ragnar Jón Hrólfsson; Grétar Þór Sigurðsson (7. ágúst 2024). „Mótmæli gegn óeirðaseggjum fóru að mestu friðsamlega fram“. RÚV. Sótt 14. ágúst 2024.
- ↑ Ólöf Ragnarsdóttir (4. apríl 2020). „Keir Starmer nýr leiðtogi Verkamannaflokksins“. RÚV. Sótt 8. júní 2020.
- ↑ 6,0 6,1 „Hver er Keir Starmer?“. mbl.is. 4. júlí 2024. Sótt 5. júlí 2024.
- ↑ Þorgils Jónsson; Hugrún Hannesdóttir Diego; Grétar Þór Sigurðsson (4. júlí 2024). „Starmer verður forsætisráðherra eftir stórsigur Verkamannaflokksins“. RÚV. Sótt 5. júlí 2024.
Fyrirrennari: Rishi Sunak |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |