Suðurskautslandið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Suðurskautslandið
Samsett gervihnattamynd af Suðurskautslandinu.

Suðurskautsland eða Antarktíka (stundum kallað „Suðurheimskautslandið“ eða „Suðurskautið“) er syðsta heimsálfa jarðarinnar og er Suðurpóllinn á henni. Það er á suðurhveli jarðar, að miklu leyti fyrir sunnan suðurheimskautsbaug og er umlukið Suður-Íshafinu. Suðurskautslandið er um það bil 14 milljón ferkílómetrar og því fimmta stærsta heimsálfanflatarmáli á eftir Asíu, Afríku, Norður Ameríku og Suður Ameríku. Af flatarmáli Suðurskautslandsins eru 98% undir jökulís, sem er að meðaltali 1,6 kílómetra þykkur.

Að meðaltali er Suðurskautsland kaldasta, þurrasta og vindasamasta heimsálfan og að auki hálendust þeirra allra að meðaltali. Vegna þess hversu úrkoman er lítil annars staðar en við strendurnar, er meginland álfunnar að þeim undanskildum fræðilega séð stærsta eyðimörk í heimi. Ekkert fólk hefur varanlega búsetu á Suðurskautslandinu og þar eru engin ummerki um núverandi eða forsögulegar byggðir manna. Þar lifa aðeins plöntur og dýr sem þola kulda vel, til dæmis mörgæsir, nokkrar tegundir hreifadýra, mosar, fléttur og margar tegundir þörunga.

Þrátt fyrir að rekja megi goðsagnir og getgátur um Terra Australis („landið í suðri“) aftur í fornöld, er almennt viðurkennt að Suðurskautslandið hafi fyrst sést í rússneskum leiðangri árið 1820 sem Mikhail Lazarev og Fabian Gottlieb von Bellingshausen fóru fyrir. John Davis steig mögulega fyrstur manna fæti á Suðurskautslandið, þann 7. febrúar 1821. Hins vegar var heimsálfunni gefinn lítill gaumur fram á 20. öldina vegna óblíðrar veðráttu, skorts á auðlindum og einangrunar.

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Suðurskautslandið er syðsta meginland heims. Það liggur á og óreglulega umhverfis suðurpólinn. Suðurskautslandið er umkringt Suður-Íshafinu samkvæmt algengri skilgreiningu, en stundum eru Atlantshafið, Kyrrahafið og Indlandshaf látin ná alveg að strönd þess. Nokkrar ár og vötn eru á Suðurskautslandinu. Lengsta áin er Ónyxá sem rennur í áttina frá sjó í Vönduvatn. Stærsta stöðuvatn Suðurskautslandsins er Vostokvatn sem er eitt af stærstu vötnum undir jökli í heimi. Suðurskautslandið er yfir 14 milljón ferkílómetrar að stærð og um 1,3 af stærð Evrópu. Strandlengjan er 17.968 km að lengd og er að mestu umlukin ís; aðeins um 5% eru bert grjót.

Suðurskautslandið skiptist í tvennt við Þverfjöll Suðurskautslandsins milli Rosshafs og Weddell-hafs. Vestari hlutinn nefnist Vestur-Suðurskautsland og afgangurinn Austur-Suðurskautsland.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Erlendir

  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.