Qaboos bin Said al Said

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Al Saíd-ætt Soldán Ómans
Al Saíd-ætt
Qaboos bin Said al Said
Qaboos bin Said al Said
قابوس بن سعيد آل سعيد‎
Ríkisár 23. júlí 197010. janúar 2020
SkírnarnafnQaboos bin Said al Said
Fæddur18. nóvember 1940
 Salalah, Óman og Múskat
Dáinn10. janúar 2020 (79 ára)
 Múskat, Óman
GröfKonunglegi grafreiturinn í Múskat
Konungsfjölskyldan
Faðir Said bin Taimur
Móðir Mazoon al-Mashani

Qaboos bin Said al Said (18. nóvember 1940 – 10. janúar 2020) var soldán Ómans frá árinu 1970 til dauðadags árið 2020. Qaboos var talið til tekna að hafa á ríkisárum sínum breytt Óman úr fátæku og vanþróuðu landi með lélega innviði í nútímalegt ríki með betri lífsskilyrði en í flestum nágrannalöndunum.[1]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Qaboos bin Said al Said fæddist árið 1940 og var eini sonur soldánsins Saids bin Taimur. Á valdatíð föður hans var Óman verulega lokað og vanþróað ríki þar sem innviðir voru vanræktir en stranglega var farið eftir fornum siðum. Qaboos var sendur til náms í Bretlandi þegar hann var sextán ára.[2] Hann gekk þar í konunglega breska herforingjaskólann í Sandhurst og gegndi þjónustu í skoskri herdeild í Vestur-Þýskalandi í níu mánuði að loknu námi.[3]

Qaboos sneri heim til Ómans árið 1964. Hann leiddi árið 1970 blóðlausa byltingu gegn föður sínum og lýsti sjálfan sig nýjan soldán Ómans. Sem soldán reyndi Qaboos að draga úr vægi olíuvinnslu í efnahagslífi Ómans og leggja aukna áherslu á landbúnað og fiskveiðar með því að veita bændum rausnarlega styrki og útvega veiðimönnum báta með utanborðsmótorum.[2] Á fyrsta ári sínu við völd lét Qaboos einnig banna þrælahald í Óman.[4] Á valdatíð Qaboosar var ráðist í verulega uppbyggingu á innviðum. Meðal annars hafði á tíunda áratugnum verið lagt um 4.000 km vegakerfi með bundnu slitlagi og 79 heilsugæslustöðvar höfðu verið settar á fót auk þriggja stórra fæðingarstöðva, 300 grunnskóla og háskóla sem stofnaður var árið 1986.[2]

Árið 1970 tókst stjórn Qaboosar að vinna bug á kommúnísku Dhofar-uppreisninni með hjálp Breta, Jórdaníumanna og Írana. Á stjórnartíð Qaboosar hafði ómanski herinn breska yfirmenn á launum og Óman viðhélt vinsamlegu sambandi við Vesturlönd. Á sama tíma rak Qaboos þó frá árinu 1985 svokallaða „jafnvægispólitík“ í utanríkismálum og stofnaði í því skyni til formlegs stjórnmálasambands við Sovétríkin á valdatíð Mikhaíls Gorbatsjev.[3]

Þegar fyrra Persaflóastríðið braust út árið 1991 með innrás Saddams Hussein í Kúveit tók Qaboos afstöðu með alþjóðabandalaginu sem barðist gegn Írak í stríðinu, þrátt fyrir að almenningur í Óman væri að mestu hlynntur Saddam.[5] Qaboos átti frumkvæði að því að Persaflóasamstarfsráðið tók ekki einhliða afstöðu með Írak í stríðinu og að því að Óman reyndi að miðla málum milli stríðsaðila í átökunum.[6]

Árið 1997 setti Qaboos ómanska ríkinu nýja stjórnarskrá. Í stjórnarskránni var sjálfstæði dómstóla tryggt, sem var þá einsdæmi í arabaríki, og ráðherrum og aðstoðarráðherrum var bannað að sitja í stjórnum fyrirtækja sem væru skráð á verðbréfamarkaðnum í Múskat. Þá var komið á laggirnar æðri deild 80 manna ráðgjafarnefndar sem Qaboos hafði stofnað árið 1991.[7]

Qaboos lést þann 10. janúar árið 2020 og hafði þá setið lengst allra þáverandi þjóðhöfðingja í arabaheiminum. Qaboos átti hvorki syni né bræður, en í bréfi sem hann lét eftir sig kvað hann á um að arftaki hans í soldánsembætti yrði frændi hans, menningarmálaráðherrann Haitham bin Tariq Al Said.[8]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Ævar Örn Jósepsson (11. janúar 2020). „Soldáninn af Óman látinn“. RÚV. Sótt 12. janúar 2020.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Í Oman er það soldáninn sem ræður“. HelgarDagur. 13. mars 1993. Sótt 11. janúar 2020.
  3. 3,0 3,1 „Oman reynir að halda jafnvægi“. Alþýðublaðið. 23. mars 1988. Sótt 11. janúar 2020.
  4. Suzanne Miers (2003). Slavery in the Twentieth Century: The Evolution of a Global Problem. Rowman & Littlefield. bls. 347. ISBN 0-7591-0340-2.
  5. Jóhanna Kristjónsdóttir (14. apríl 1991). „Soldáninn stendur sterkari eftir“. Morgunblaðið. Sótt 12. janúar 2020.
  6. „Oman reiðubúið til málamiðlunar í Persaflóastríðinu“. Dagblaðið Vísir. 4. maí 1991. Sótt 12. janúar 2020.
  7. Jóhanna Kristjónsdóttir (18. febrúar 1997). „Ný stjórnarskrá í Óman talin fyrirboði breytinga“. Morgunblaðið. Sótt 12. janúar 2020.
  8. Andri Eysteinsson (11. janúar 2020). „Soldáninn af Óman látinn“. Vísir. Sótt 12. janúar 2020.


Fyrirrennari:
Said bin Taimur
Soldán Ómans
(23. júlí 197010. janúar 2020)
Eftirmaður:
Haitham bin Tariq Al Said