Alfreð Þorsteinsson
Alfreð Þorsteinsson (fæddur 15. febrúar 1944, látinn 27. maí 2020) var íslenskur stjórnmálamaður og blaðamaður. Hann gegndi störfum borgarfulltrúa og var fyrrverandi formaður Knattspyrnufélagsins Fram.
Ævi og störf
[breyta | breyta frumkóða]Alfreð fæddist í Reykjavík og hóf ungur störf á dagblaðinu Tímanum. Þar starfaði hann frá 1962-1977 og skrifaði m.a. mikið um íþróttir. Þá tók hann við stöðu forstjóra hjá Sölu varnarliðseigna og gegndi því starfi uns fyrirtækið var lagt niður um miðjan tíunda áratuginn. Hann hefur setið í stjórnum fjölda opinberra fyrirtækja og stofnanna í tengslum við stjórnmálaþátttöku sína.
Stjórnmál
[breyta | breyta frumkóða]Alfreð starfaði alla tíð innan Framsóknarflokksins. Hann varð varaborgarfulltrúi í borgarstjórnarkosningunum 1970 og tók sæti aðalmanns þegar Einar Ágústsson hætti í borgarstjórn eftir að hafa tekið við ráðherradómi árið eftir. Alfreð var aðalborgarfulltrúi Framsóknarflokksins frá 1971-78 og varafulltrúi frá 1986-94.
Árið 1994 tók Framsóknarflokkurinn þátt í kosningabandalaginu Reykjavíkurlistanum og fengu þau Alfreð og Sigrún Magnúsdóttir örugg sæti sem fulltrúar Framsóknarflokks. Alfreð sat í borgarstjórn öll þrjú kjörtímabilin sem Reykjavíkurlistinn var við lýði, en dró sig í hlé fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006.
Hann tók hann við formennsku í stjórn veitustofnanna Reykjavíkur, sem var sameiginleg stjórn Rafmagnsveitunnar, Hitaveitunnar og Vatnsveitunnar árið 1994. Undir hans stjórn voru Rafmagnsveitan og Hitaveitan sameinuð undir merkjum Orkuveitu Reykjavíkur þann 1. janúar 1999 og ári síðar rann Vatnsveitan einnig inn í hið sameinaða fyrirtæki.
Alfreð var virkur stjórnarformaður Orkuveitunnar á miklu vaxtarskeiði hennar. Ráðist var í stórframkvæmdir í virkjanamálum, s.s. stækkun Nesjavallavirkjunar og gerð virkjunar á Hellisheiði. Mörgum þótti nóg um framkvæmdagleðina. Þannig var bygging höfuðstöðva Orkuveitunnar á Bæjarhálsi harðlega gagnrýndar, sem og tilraunir fyrirtækisins til að blanda sér í slaginn á fjarskiptamarkaði.
Íþróttamál
[breyta | breyta frumkóða]Alfreð varð snemma áberandi í félagsstörfum innan Knattspyrnufélagsins Fram. Þegar á táningsaldri var hann farinn að sjá um þjálfun yngri flokka. Árið 1965 tók hann, aðeins 21 árs að aldri, við formennsku knattspyrnudeildar, en skömmu hafði Framliðið fallið úr efstu deild í fyrsta sinn. Ákveðið var að rífa upp starfið. Framarar sigruðu í annarri deild sumarið 1966, sama gaf knattspyrnudeildin út veglegt Fram-blað, en það hafði þá ekki komið út í átta ár. Síðast en ekki síst tóku Framarar á móti skoska félaginu Dundee United, sem þá var eitt sterkasta knattspyrnulið Evrópu.
Árið 1972 var Alfreð kjörinn formaður Knattspyrnufélagsins Fram og gegndi því embætti til 1976. Á þeim tíma flutti félagið loks starfsemi sína frá gamla félagssvæðinu fyrir neðan Stýrimannaskólann í Safamýrina. Gamla félagsheimilið í Skipholtinu var endanlega yfirgefið, enda orðið grátt leikið af innbrotsþjófum og skemmdarvörgum. Þess í stað var ráðist í vallarframkvæmdir og byggingu fyrsta áfanga félagsheimilis á nýja svæðinu. Félagsheimilið hýsir í dag félagsmiðstöðina Tónabæ. Árið 1989 var Alfreð á ný kallaður til formennsku í Fram. Að þessu sinni með það að meginmarkmiði að koma upp íþróttahúsi á félagssvæðinu, ásamt félagsaðstöðu. Húsið var vígt sumarið 1994 og lét Alfreð af formennsku á aðalfundi þá um haustið.
Á þessu seinna formannstímabili Alfreðs komst mjög í umræðuna hvort rétt væri að flytja félagið til í borginni. Til tals kom að Framarar fengju aðsetur í Laugardalnum. Varð sú hugmynd endanlega úr sögunni árið 1998 þegar Þróttarar fengu úthlutað þar starfssvæði.
Önnur hugmynd var að flytja Fram upp í Grafarvog, til að flýta fyrir íþróttauppbyggingu í hverfinu. Skiptar skoðanir voru um ágæti þessarar hugmyndar meðal Framara og að lokum réð andstaða hins nýstofnaða Ungmennafélagsins Fjölnis því að ekkert varð úr flutningum. Í tengslum við flutningana íhuguðu Framarar að stofna golfdeild og sóttust eftir landi undir golfvöll.
Á 90 ára afmæli Knattspyrnufélagsins Fram var Alfreð Þorsteinsson útnefndur heiðursfélagi.
Fyrirrennari: Jón Þorláksson |
|
Eftirmaður: Steinn Guðmundsson | |||
Fyrirrennari: Birgir Lúðvíksson |
|
Eftirmaður: Sveinn Andri Sveinsson |