Fæðingar- og foreldraorlof á Íslandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Fæðingar- og foreldraorlof, í daglegu tali oft nefnd fæðingarorlof, er orlof sem foreldrar hafa heimild til að taka í tengslum við fæðingu eða frumættleiðingu barns sem er yngra en átta ára og töku barns sem er yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Auk þess stofnast til fæðingarorlofs við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu. Fæðingarorlof var í fyrstu eingöngu ætlað mæðrum en frá árinu 2000 hafa feður haft sjálfstæðan rétt til launaðs fæðingarorlofs. Greiðslur í fæðingarorlofi koma úr Fæðingarorlofssjóði sem stofnaður var árið 2000. Sjóðurinn er fjármagnaður með tryggingagjöldum sem allir launagreiðendur greiða.

Í lok árs 2020 voru gerðar breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof og er orlofið nú 12 mánuðir sem skiptast á milli foreldra.

Sögulegt yfirlit[breyta | breyta frumkóða]

Ísland var nokkur eftirbátur annarra Norðurlandaþjóða þegar kom að lögfestingu fæðingarorlofs. Fyrstu lög um fæðingarorlof á Norðurlöndum voru sett í Noregi árið 1892 en það var sex vikna fæðingarorlof eingöngu fyrir konur sem störfuðu í verksmiðjum. Sambærileg réttindi fyrir starfskonur í verksmiðjum voru lögfest í Svíþjóð árið 1900, í Danmörku árið 1901 og í Finnlandi árið 1917. Greiðslur í fæðingarorlofi, svokallaður fæðingarstyrkur, komu fyrst til sögunnar á Íslandi árið 1946. Konur áttu þá rétt á styrk sem var föst upphæð en mæður sem voru úti á vinnumarkaðnum áttu rétt á aukagreiðslu í þrjá mánuði en giftar konur áttu aðeins þennan rétt ef makar þeirra gátu ekki séð fyrir heimilinu. Árið 1950 voru breytingar gerðar á lögunum þess efnis að aukagreiðslur til útivinnandi kvenna voru afnumdar og fæðingarstyrkurinn var um það bil sú upphæð sem mæður þurftu að borga fyrir fæðingu inn á heilbrigðistofnun. Á þessum tíma var heilbrigðisþjónusta ókeypis en þar sem fæðing var hvorki flokkuð sem sjúkdómur né veikindi var rukkað fyrir þá þjónustu sem fæðingum tengdist.[1]

Verkakonur öðlast orlofsrétt[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1954 öðluðust konur sem störfuðu hjá ríkinu rétt til þriggja mánaða launa í fæðingarorlofi.[1] Verkalýðsfélögin fóru í kjölfarið að krefjast sömu réttinda fyrir mæður innan sinna raða. Á 25. þingi Alþýðusambands Íslands árið 1956 var samþykkt að skora á Alþingi að tryggja að allar konur sem vinna utan heimilis ættu rétt á sambærilegu leyfi frá störfum í tengslum við fæðingu barns og starfskonur hjá ríkinu, eða full laun í þrjá mánuði. Árið 1957 gerði Starfskvennafélagið Sókn kjarasamninga við Ríkisspítalana, Elli- og hjúkrunarheimilið Grund, Reykjavíkurbæ, Landskotsspítala, Barnavinafélagið Sumargjöf (sem rak leikskóla) og Hrafnistu að konur sem unnið hefðu lengur en í fjögur ár hefðu rétt á leyfi í þrjá mánuði á fullum launum. Alþýðusambandið taldi mikilvægt að láglaunakonur ættu þennan rétt ekki síður en þær konur sem störfuðu hjá ríki og borg.[2]

Í nóvember árið 1960 lagði Margrét Sigurðardóttir varaþingmaður Alþýðubandalagsins fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt var til að allar konur sem tækju laun fyrir vinnu sína ættu rétt á orlofi vegna barnsburðar. Fastráðnar konur í fullri vinnu fengju launað orlof í þrjá mánuði en konur í hlutastörfum fengju minna. Lagt var til að stofnaður yrði sérstakur sjóður innan Tryggingastofnunar ríkisins og myndu atvinnurekendur greiða iðgjald í sjóðinn og ríkið kæmi á móti með jafnhátt framlag.[3] Vinnuveitendasamband Íslands ásamt ríkisstjórnarflokkunum tveimur, Sjálfstæðisflokki og Alþýðuflokki lögðust gegn frumvarpinu en kvennasamtök líkt og Hjúkrunarfélag Íslands og Kvenréttindafélag Íslands studdu það.[4] Samþykkt var að vísa frumvarpinu til ríkisstjórnarinnar en þar dagaði það uppi. Margrét fylgdi málinu talsvert eftir og vakti athygli á því með fyrirspurnum til ráðherra og kynnti það einnig á fundum ýmissa félagasamtaka. Í aðdraganda alþingiskosninganna árið 1963 var fæðingarorlofsmálið enn í umræðunni og var það m.a. á kosningastefnuskrá Alþýðubandalagsins.[5]

Rauðsokkahreyfingin kemur til sögunnar[breyta | breyta frumkóða]

Í kringum 1970 hafði konum sem unnu utan heimilis fjölgað talsvert og umræða um laun í fæðingarorlofi varð háværari samfara þessum þjóðfélagsbreytingum. Rauðsokkahreyfingin tók fæðingarorlofsmálin upp á sína arma þegar hreyfingin varð til árið 1970. Eitt af baráttumálum hennar var að allir foreldrar fengju fæðingarorlof, mæður í þrjá mánuði en feður í hálfan mánuð. Með því móti yrði komið í veg fyrir upplausn heimilisins á meðan konan væri fjarverandi á fæðingardeild og faðirinn myndi öðlast þau réttindi að kynnast barni sínu og umönnun þess.[6] Árið 1975 hélt Rauðsokkahreyfingin ásamt nokkrum verkalýðsfélögum ráðstefnu um kjör láglaunakvenna og sendi ráðstefnan frá sér ályktun um að tryggingakerfi hins opinbera ætti að standa undir greiðslum í fæðingarorlofi, því ef það yrði á ábyrgð vinnuveitenda væri sú hætta fyrir hendi að þeir myndu forðast að ráða til sín konur.[7] Snemma árs 1975 flutti Bjarnfríður Leósdóttir varaþingmaður Alþýðubandalagsins þingsályktunartillögu þar sem lagt var til að ríkisstjórninni yrði falið að gera breytingu á lögum um almannatryggingar og tryggja konum þriggja mánaða fæðingarorlof á launum en jafnframt að fæðingarstyrkur verði greiddur hverri konu utan vinnumarkaðar.

Frumvarp Ragnhildar Helgadóttur[breyta | breyta frumkóða]

Vorið 1975 lagði Ragnhildur Helgadóttir þingkona Sjálfstæðisflokksins fram, ásamt fleiri þingmönnum stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frumvarp um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar sem ætti að tryggja þeim konum sem forfallast úr vinnu vegna barnseignar atvinnuleysisbætur í þrjá mánuði.[8] Í tímariti Rauðsokkahreyfingarinnar, Forvitin rauð gagnrýndi Bjarnfríður Leósdóttr tillöguna og taldi óæskilegt að greiðslur til kvenna í fæðingarorlofi kæmu úr Atvinnuleysistryggingasjóði.[9] Gylfi Þ. Gíslason þingmaður Alþýðuflokksins lýsti því yfir að þingmenn flokksins myndu styðja frumvarpið en þingmenn Alþýðubandalagsins og Samtaka frjálslyndra og vinstri manna lýstu sig andvíga því á þeirri forsendu að slíkur útgjaldaauki ríkisins gæti komið niður á lánamöguleikum Atvinnuleysistryggingasjóðs til atvinnurekenda og sveitarfélaga.[10] Frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi og höfðu útivinnandi mæður þá í fyrsta sinn öðlast rétt á greiðslum í fæðingarorlofi í þrjá mánuði.

Lagabreytingar 1980[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1980 var lögfest að allar konur ættu rétt á þriggja mánaða fæðingarorlofi og greiðslum í sex mánuði. Heimavinnandi konur fengu rétt á þriðjungi af þeim greiðslum sem vinnandi konur áttu rétt á. Annars vegar var um að ræða fæðingarstyrk sem var föst upphæð og hins vegar fæðingardagpeninga og miðaðist sú upphæð við atvinnuþátttöku móður miðað við vinnustundir síðustu 12 mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Breytingin hafði einnig í för með sér að greiðslur í fæðingarorlofi voru ekki lengur skilgreindar sem atvinnuleysisbætur heldur fengu mæður greiðslur úr almannatryggingakerfinu. Með lögunum var sett á bann við uppsögnum á meðan kona væri í fæðingarorlofi. Samkvæmt lögunum var móður heimilt að yfirfæra fæðingarorlof sitt til föðurins 30 dögum eftir fæðingu barns.[1]

Fæðingarorlof feðra[breyta | breyta frumkóða]

Á Íslandi komst sjálfstæður réttur giftra feðra til fæðingarorlofs á árið 1998 og áttu feður rétt á tveggja vikna orlofi með greiðslum sem þeir gátu nýtt fyrstu átta vikurnar eftir fæðingu barns. Ef faðir notfærði sér ekki réttinn féll hann niður og einungis feður í hjúskap eða sambýlismenn barnsmóðurinnar áttu rétt á orlofinu. Árið 2000 voru gerðar miklar breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Það sem hæst bar voru aukin réttindi feðra sem hafði í för með sér að nú var lagalegur möguleiki á sex mánaða launuðu fæðingarorlofi fyrir feður. Í lögunum var níu mánaða orlof lögfest sem skiptist þannig að móðirin átti rétt á þriggja mánaða sjálfstæðum rétti til orlofs, faðirinn einnig þriggja mánaða sjálfstæðan rétt og svo voru þrír mánuður sem foreldrar gátu skipt á milli sín eða annað foreldrið tekið þá alla. Foreldri sem ekki fór með forsjá barns átti rétt á orlofi ef forsjárforeldrið samþykkti. Markmiðið með auknum rétti feðra var í upphafi tvíþætt, annars vegar að skapa þeim tækifæri til aukinnar þáttöku í heimilisstörfum og barnauppeldi en einnig til þess að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Feðraorlofinu var ætlað að auðvelda móðurinni að fara aftur út á vinnumarkaðinn eftir barnsburð.[1]

Fæðingarorlofssjóður stofnaður[breyta | breyta frumkóða]

Auk breytinga á réttindum feðra árið 2000 var Fæðingarorlofssjóður stofnaður og annast hann greiðslu launa í fæðingarorlofi. Sjóðurinn er fjármagnaður með tryggingagjaldi sem allir launagreiðendur greiða.

Fæðingar- og foreldraorlof í dag[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2020 lagði Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra fram nýtt frumvarp til breytinga á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Frumvarp ráðherra gerði ráð fyrir því orlofið yrði lengt úr tíu mánuðum í tólf og að hvort for­eldri taki sex mánuði í fæðing­ar­or­lof, með heim­ild til þess að fram­selja þar af einn mánuð til ann­ars hvors foreldris. Frumvarpið sætti talsverði gagnrýni úr ýmsum áttum þó lengingu orlofsins í tólf mánuði hafi almennt verið fagnað. Barnaheill, Geðverndarfélagið og félag Fjölskyldufræðinga töldu frumvarpið t.d. ekki tryggja barni rétt til samvista við foreldra sína, heldur sé verið að tryggja rétt foreldranna. Félögin lögðu til að börn fái 12 mánaða sjálfstæðan rétt til orlofs með öðru foreldri sínu eða báðum.[11][12]

Frumvarpið tók talsverðum breytingum í meðförum þingsins en það var samþykkt á Alþingi í desember árið 2020. Samkvæmt nýju lögunum er fæðingarorlof nú tólf mánuðir. Foreldrar eiga nú sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að fjóra mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Þessi réttur er ekki framseljanlegur. Auk þessa eiga foreldrar sameiginlegan rétt á tveimur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér.[13]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Fríða Rós Valdimarsdóttir, „Þróun löggjafar um fæðingarorlof á Norðurlöndum og reynsla þjóðanna“ (Akureyri, 2005)
  2. „Sóknarkonur njóta nú sama réttar og konur í opinberum störfum“, Þjóðviljinn, 14. október 1958 (skoðað 14. janúar 2021)
  3. „Konur er vinna föst störf fái þriggja mánaða fæðingarorlof“ Þjóðviljinn, 13. nóvember 1960 (skoðað 14. janúar 2021)
  4. „Ríkisstjórn og vinnuveitendaklíkan móti lögfestingu fæðingarorlofs“ Þjóðviljinn, 15. febrúar 1961 (skoðað 14. janúar 2021)
  5. „Kosningastefnuskrá Alþýðubandalagsins“ Þjóðviljinn, 25. maí 1963 (skoðað 14. janúar 2021)
  6. „Rauðsokkar þinga“ Tíminn, 23. september 1970 (skoðað 14. janúar 2021)
  7. „Tryggingar standi undir þriggja mánaða fæðingarfríi“ Vísir, 27. janúar 1975 (skoðað 14. janúar 2021)
  8. „Þriggja mánaða fæðingarorlof“, Tíminn, 10. apríl 1975 (skoðað 14. janúar 2021)
  9. Bjarnfríður Leósdóttir, „Atvinnuleysisbætur eða fæðingarorlof“, Forvitin rauð, 5. tbl. 1975 (skoðað 14. janúar 2021)
  10. „Stefnt að þingslitum fyrir hvítasunnu“, Morgunblaðið, 13. maí 1975 (skoðað 14. janúar 2021)
  11. Stundin.is, „Landlæknir, ljósmæður og Barnaheill gagnrýna nýtt frumvarp um fæðingarorlof“ (skoðað 15. janúar 2021)
  12. Mbl.is, „SUS gagnrýnir frumvarp um fæðingarorlof“ (skoðað 15. janúar 2021)
  13. Alþingi.is, „Lög um fæðingar- og foreldraorlof“ (skoðað 15. janúar 2021)