Sinn Féin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Við sjálf
Sinn Féin
Forseti Mary Lou McDonald
Varaforseti Michelle O'Neill
Aðalritari Ken O'Connell
Þingflokksformaður Niall Ó Donnghaile
Stofnár 28. nóvember 1905; fyrir 118 árum (1905-11-28) (í upprunalegri mynd)
17. janúar 1970; fyrir 54 árum (1970-01-17) (í núverandi mynd)
Stofnandi Arthur Griffith
Höfuðstöðvar 44 Parnell Square, Dyflinni 1, D01 XA36
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Írsk lýðveldishyggja, jafnaðarstefna, vinstriþjóðernishyggja
Einkennislitur Grænn     
Neðri deild írska þingsins
Efri deild írska þingsins
Þing Norður-Írlands
Neðri deild breska þingsins (n-írsk sæti)¹
Evrópuþingið
Vefsíða www.sinnfein.ie
¹ Sinn Féin býður fram á breska þingið en frambjóðendur flokksins taka ekki sæti á þinginu þótt þeir nái kjöri.

Sinn Féin (íslenska: „Við sjálf“) er írskur stjórnmálaflokkur sem starfar bæði í írska lýðveldinu og á Norður-Írlandi. Á tíma vandræðanna á Norður-Írlandi var flokkurinn jafnan talinn stjórnmálaarmur írska lýðveldishersins.[1]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Sinn Féin var stofnað í upprunalegri mynd þann 28. nóvember árið 1905 að undirlagi Arthurs Griffith til þess að berjast fyrir sjálfstæði Írlands frá Bretlandi. Sjálfstæðisbaráttan skilaði þeim árangri að árið 1911 boðaði ríkisstjórn Frjálslynda flokksins í Bretlandi til samningaviðræða um írska heimastjórn, en andstaða Íhaldsflokksins og sambandssinna á Írlandi leiddu til þess að þessar áætlanir runnu út í sandinn. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út voru viðræður um aukið sjálfræði á Írlandi settar á ís, sem stuðlaði að því að páskauppreisnin braust út árið 1916. Vegna harkalegra viðbragða Breta við uppreisninni og óánægju með áætlaða herkvaðningu á Írlandi vann Sinn Féin stórsigur í kosningum árið 1918 og stofnaði sjálfstætt löggjafarþing sem lýsti yfir fullveldi Írlands undan breskum yfirráðum.[2] Við lok írska sjálfstæðisstríðsins sömdu ráðamenn Sinn Féin við Breta um stofnun írska fríríkisins, sem fól meðal annars í sér að Norður-Írland yrði klofið frá Írlandi. Óánægja með samninginn var víðtæk meðal róttækustu sjálfstæðissinnanna og því klufu andstæðingar hans með Éamon de Valera í broddi fylkingar sig úr Sinn Féin og stofnuðu nýjan flokk, Fianna Fáil.[3] Á næstu árum dró verulega úr áhrifum Sinn Féin og frá og með stofnun írska lýðveldisins hafa flokkarnir Fianna Fáil og Fine Gael jafnan skipst á að fara með stjórn landsins.

Sinn Féin á lýðveldistímanum[breyta | breyta frumkóða]

Sinn Féin varð til í núverandi mynd árið 1970 þegar gamli flokkurinn klofnaði í tvennt vegna deilna um það hversu róttæk flokksmarkmiðin í þjóðfélagsmálum ættu að vera. Um skeið voru því tveir flokkar starfandi undir þessu nafni: Hið „opinbera“ (official) Sinn Féin, sem var skipuð kommúnistum og marxistum og vann að því markmiði að stofna sósíalískt ríki í sameinuðu Írlandi, og hið „tímabundna“ (provisional) Sinn Féin, sem var skipuð kaþólskum þjóðernissinnum sem höfðu sameiningu Írlands efst í forgangsröð sinni en stefndu jafnframt að uppbyggingu sósíaldemókratísks samfélags.[4] Hið „opinbera“ Sinn Féin breytti síðar nafni sínu í Verkalýðsflokkinn og hið „tímabundna“ Sinn Féin er því eini flokkurinn sem enn notar nafnið í dag.

Herskárri meðlimir Sinn Féin tóku þátt í aðgerðum stéttarfélaga, hverfasamtaka og kvenréttindafélaga og í ýmsum alþjóðlegum mótmælaaðgerðum, meðal annars gegn einræðisstjórnum í Suður-Ameríku og gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku.[5]

Í írska lýðveldinu hlaut flokkurinn fimm þingsæti á neðri deild írska þingsins árið 2001. Flokkurinn vann einnig nokkrar héraðskosningar og komst meðal annars í stjórn bæjarins Sligo.

Í febrúar árið 2016 hlaut Sinn Féin 13,85 % atkvæða og 23 þingmenn í þingkosningum Írlands, sem var þá þeirra besta kosning frá stofnun lýðveldisins.

Í kosningum í febrúar árið 2020 fékk Sinn Féin 24,5 prósent fyrsta-forgangsatkvæða, mest allra flokka. Flokkarnir Fianna Fáil og Fine Gael fengu hvor um sig 22,2 og 20,9 prósent atkvæða. Þessi mikla fylgisaukning Sinn Féin í kosningunum er talin hafa sett tvíflokkakerfið sem hefur verið við lýði milli Fianna Fáil og Fine Gael frá stofnun lýðveldisins verulega úr skorðum.[6]

Sinn Féin á Norður-Írlandi[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1986 breytti Sinn Féin þeirri stefnu sinni að taka ekki sæti og greiða ekki atkvæði í norður-írskum stjórnmálum og tók virkari þátt í því að reyna að leysa átökin á Norður-Írlandi. Flokkurinn hlaut 18 þingsæti af 108 í kosningum á nýja norður-írska þingið sem stofnað var með föstudagssáttmálanum árið 1998. Árið 2007 varð flokksmaður Sinn Féin, Martin McGuinness, varaforsætisráðherra Norður-Írlands.

Árið 2001 fékk Sinn Féin fjóra þingmenn kjörna á neðri deild breska þingsins og varð þar með stærsti kaþólski flokkurinn á Norður-Írlandi. Flokkurinn hefur hins vegar viðhaldið þeirri stefnu að nýta ekki þau sæti sem hann vinnur á breska þinginu þar sem þingseta þar felur í sér hollustueið til Karls konungs, sem flokkurinn telur þjóðhöfðingja erlends ríkis. Sæti sem flokkurinn vinnur í Bretlandi standa því jafnan auð.

Í janúar árið 2017 sagði Martin McGuinness af sér sem leiðtogi flokksins í Norður-Írlandi. Við honum tók Michelle O'Neill.[7] Eftir kosningar á þing Norður-Írlands í mars sama ár hlutu Sinn Féin og aðrir lýðveldisflokkar fleiri atkvæði en sambandsflokkarnir.[8]

Í kosningum á þing Norður-Írlands árið 2022 varð Sinn Féin í fyrsta sinn stærsti þingflokkurinn.[9] Eftir tæplega tveggja ára töf tók Michelle O'Neill, varaforseti Sinn Féin, því við embætti sem fyrsti ráðherra Norður-Írlands. Hún er fyrsti írski lýðveldissinninn til að sinna því embætti.[10]

Leiðtogar Sinn Féin[breyta | breyta frumkóða]

Nafn Formannstíð Athugasemdir
Edward Martyn 1905–1908
John Sweetman 1908–1911
Arthur Griffith 1911–1917
Éamon de Valera 1917–1926 Sagði sig úr Sinn Féin og stofnaði Fianna Fáil árið 1926
John J. O'Kelly (Sceilg) 1926–1931
Brian O'Higgins 1931–1933
Michael O'Flanagan 1933–1935
Cathal Ó Murchadha 1935–1937
Margaret Buckley 1937–1950 Fyrsta konan til að leiða flokkinn.
Paddy McLogan 1950–1952
Tomás Ó Dubhghaill 1952–1954
Paddy McLogan 1954–1962
Tomás Mac Giolla 1962–1970 Var forseti hins „opinbera“ Sinn Féin (síðar Verkalýðsflokksins) frá 1970.
Ruairí Ó Brádaigh 1970–1983 Sagði sig úr Sinn Féin og stofnaði Lýðveldishreyfingu Sinn Féin árið 1986.
Gerry Adams 1983–2018 Sat lengst allra formanna Sinn Féin og sat á neðri deild írska þingsins fyrir Louth-kjördæmi frá árinu 2011 til ársins 2020.
Mary Lou McDonald 2018– Núverandi flokksformaður og þingmaður á neðri deild írska þingsins fyrir miðbæjarkjördæmi Dyflinnar frá 2011.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Davíð Logi Sigurðsson (25. júní 2004). „Af hverju er Norður-Írland ekki sjálfstætt?“. Vísindavefurinn. Sótt 7. febrúar 2024.
  2. „Samtökin Sinn Féin stofnuð í Dublin“. Fréttablaðið. 28. nóvember 2006. bls. 12.
  3. Gunnar Pálsson (23. mars 1978). „„Mikill örn með ylblíða klóglófa". Morgunblaðið. bls. 70-73; 76.
  4. „Sinn Fein og IRA“. Morgunblaðið. 27. febrúar 1972. bls. 12.
  5. „Gerry Adams et les évolutions du Sinn Féin“ (franska). L'Humanité. 8. desember 2017. Sótt 30. júlí 2019.
  6. Ævar Örn Jósepsson (10. janúar 2020). „Sinn Féin fékk flest atkvæði í írsku kosningunum“. RÚV. Sótt 10. janúar 2020.
  7. „Sinn Fein: la nouvelle dirigeante désignée“ (franska). Le Figaro. 23. janúar 2017. Sótt 30. júlí 2019.
  8. « Percée historique du Sinn Féin en Irlande du Nord », tdg.ch, 5. mars 2017.
  9. Sigurjón Björn Torfason (7. maí 2022). „Sinn Féin vinnur sögu­legan sigur á Norður-Ír­landi“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. maí 2022. Sótt 8. maí 2022.
  10. „Fyrsti forsætisráðherrann úr Sinn Féin“. mbl.is. 3. febrúar 2024. Sótt 3. febrúar 2024.