Kólumbía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
República de Colombia
Fáni Kólumbíu Skjaldarmerki Kólumbíu
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Libertad y Orden
(spænska: Frelsi og regla)
Þjóðsöngur:
Oh Gloria Inmarcesible!
Staðsetning Kólumbíu
Höfuðborg Bógóta
Opinbert tungumál spænska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Gustavo Petro
Sjálfstæði frá Spáni
 - Yfirlýst 20. júlí, 1810 
 - Viðurkennt 7. ágúst, 1819 
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)
25. sæti
1.141.748 km²
8,8
Mannfjöldi
 - Samtals (2015)
 - Þéttleiki byggðar
27. sæti
48.258.494
42/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 - Samtals 791,995 millj. dala (31. sæti)
 - Á mann 15.719 dalir (85. sæti)
VÞL (2018) 0.761 (79. sæti)
Gjaldmiðill pesói
Tímabelti UTC-5
Þjóðarlén .co
Landsnúmer +57

Kólumbía er land í norðvesturhluta Suður-Ameríku með landamæri að Venesúela og Brasilíu í austri, Ekvador og Perú í suðri og Panama í norðvestri. Það á strönd að Karíbahafi í norðri og Kyrrahafinu í vestri. Kólumbía ræður yfir stórum eyjaklasa í Karíbahafi, San Andrés y Providencia, undan strönd Níkaragva.

Landið þar sem nú er Kólumbía var byggt frumbyggjum frá því í steinöld. Þar stóðu menningarsamfélögin Muisca, Quimbaya og Tairona. Spánverjar komu til landsins árið 1499 og lögðu það brátt undir sig. Þeir stofnuðu Varakonungsdæmið Nýja-Granada með höfuðborgina Bógóta. Varakonungsdæmið lýsti yfir sjálfstæði sem Stór-Kólumbía í kjölfar herfara Simón Bolívar 1819. Nokkrum árum síðar klufu Venesúela og Ekvador sig frá þessu ríki og eftir varð Lýðveldið Nýja-Granada. Panama klauf sig frá Kólumbíu árið 1903. Eftir síðari heimsstyrjöld leiddu pólitísk átök til tíu ára vopnaðra átaka, La Violencia. Stjórnarsamstarf frjálslyndra og íhaldsmanna batt endi á þessi átök en brátt hófst skæruhernaður við ýmsa vopnaða hópa og glæpasamtök sem hefur haldið áfram til þessa dags.

Kólumbía er eitt af sautján löndum heims með mesta líffjölbreytni. Landið nær yfir regnskóga á Amasónsvæðinu, Andesfjöll og hitabeltisgresjur. Kólumbía er þriðja fjölmennasta ríki Rómönsku Ameríku og þriðja stærsta hagkerfið á eftir Brasilíu og Mexíkó. Flestar stærstu borgir landsins, eins og Bógóta og Medellín, standa á hásléttum í Andesfjöllum. Helstu útflutningsafurðir Kólumbíu eru olía og kol, en landið er líka þekkt fyrir framleiðslu smaragða, kaffis og pappírs meðal annars.

Heiti[breyta | breyta frumkóða]

Kólumbía dregur nafn sitt af landkönnuðinum Kólumbusi. Byltingarmaðurinn Francisco de Miranda sá fyrir sér að nafnið yrði notað yfir Nýja heiminn í heild sinni, sérstaklega þann hluta sem heyrði undir spænsk lög (sem á þeim tíma náði frá Mississippi til Patagóníu). Lýðveldið Kólumbía tók síðan nafnið upp árið 1819 þegar það var myndað úr löndum sem tilheyrðu Varakonungsdæminu Nýja-Granada (í dag löndin Kólumbía, Panama, Venesúela, Ekvador og norðvesturhluti Brasilíu).

Þegar Venesúela, Ekvador og Cundinamarca urðu sjálfstæð ríki tók fyrrum héraðið Cundinamarca upp nafnið Nýja-Granada. Árið 1858 breytti Nýja-Granada nafni sínu í Sambandslýðveldið Granada. Árið 1863 var nafninu aftur breytt í Bandaríki Kólumbíu og árið 1886 tók landið upp núverandi heiti, Lýðveldið Kólumbía.

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Hæðakort af Kólumbíu.

Landslag í Kólumbíu skiptist í sex landsvæði sem hvert hefur sín einkenni: Andesfjöllin, Kyrrahafsströndin, Karíbahafsströndin, Llanos (slétturnar), Amasónskógurinn og eyjarnar sem eru bæði í Atlantshafi og Kyrrahafi.[1] Landhelgi Kólumbíu nær að landhelgi Kosta Ríka, Níkaragva, Hondúras, Jamaíku, Haítí og Dóminíska lýðveldisins.[2] Í norðvestri á Kólumbía landamæri að Panama, að Venesúela og Brasilíu í austri, og Ekvador og Perú í suðri.[3] Mörk landhelginnar hafa verið staðfest með sjö samningum við nágrannaríki í Karíbahafi og þremur í Kyrrahafi.[2] Landið liggur milli 12. og 4. breiddargráðu suður og 67. og 79. lengdargráðu vestur.

Veðurfarsbelti í Kólumbíu.

Kólumbía er hluti af Eldhringnum þar sem jarðskjálftar eru algengir og eldvirkni útbreidd.[4] Innar í landinu eru Andesfjöllinn helsta einkenni á landslaginu. Flestir af stærstu þéttbýliskjörnum Kólumbíu eru í hálendinu inni í landinu. Handan við Kólumbíufjöll (í suðvestursýslunum Cauca og Nariño) skiptast fjöllin í þrjá fjallgarða (cordilleras): Cordillera Occidental sem liggur meðfram Kyrrahafsströndinni, Cordillera Central milli árdala Cauca og Magdalena, og Cordillera Oriental sem liggur norðaustur í átt að Guajira-skaga. Í Cordillera Occidental er borgin Santiago de Cali; í Cordillera Central eru borgirnar Medellín, Manizales, Pereira og Armenia; og í Cordillera Central eru borgirnar Bucaramanga og Cúcuta.[1][5][6]

Fjöllin í Cordillera Occidental ná yfir 4.700 metra hæð og í Cordillera Central og Oriental ná þau 5.000 metra hæð. Bogotá liggur í 2.600 metra hæð og er hæsta borg heims af þessari stærðargráðu.[1]

Austan við Andesfjöllin eru gresjur sem nefnast Llanos og eru hluti af ársléttu Órinókófljóts. Lengst í suðaustri er svo Amasónfrumskógurinn. Samanlagt eru þessi láglendissvæði yfir helmingur af landsvæði Kólumbíu, en þar búa innan við 6% landsmanna. Í norðri, við strönd Karíbahafsins, búa 21,9% landsmanna. Þar eru helstu hafnarborgir landsins, Barranquilla og Cartagena. Þar eru að mestu láglendar sléttur, en líka fjallgarðurinn Sierra Nevada de Santa Marta, þar sem eru hæstu tindar landsins (Pico Cristóbal Colón og Pico Simón Bolívar), og La Guajira-eyðimörkin. Ólíkt Karíbahafsströndinni er Kyrrahafsströndin dreifbýl og þakin þykkum gróðri. Baudó-fjöll liggja meðfram ströndinni nyrst. Helsta hafnarborgin við Kyrrahafsströndina er Buenaventura.[1][5][6]

Helstu vatnsföll í Kólumbíu eru Magdalenufljót, Cauca-fljót, Guaviare-fljót, Atratofljót, Metafljót, Putumayo-fljót og Caquetá-fljót. Í Kólumbíu eru fjögur meginvatnasvið, við Kyrrahaf, Karíbahaf, Órinókófljót og Amasónfljót. Vatnsföll marka landamæri Kólumbíu að bæði Venesúela og Perú.[7]

Náttúruverndarsvæði og þjóðgarðar ná yfir um 14.268.224 hektara svæði, sem er 12,77% af landinu.[8] Skógeyðing í Kólumbíu er fremur lítil miðað við nágrannalöndin.[9] Kólumbía fékk einkunnina 8,26/10 á Forest Landscape Integrity Index og er í 25. sæti af 172 löndum.[10] Kólumbía býr yfir sjötta mesta endurnýjanlega vatnsforða heims.[11]

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar[breyta | breyta frumkóða]

Kólumbía skiptist í 32 héruð og eitt höfuðborgarumdæmi sem hefur sömu stöðu og hérað (Bogotá er líka höfuðstaður Cundinamarca-héraðs). Héruðin skiptast í sveitarfélög sem hvert hefur sinn höfuðstað, og sveitarfélögin skiptast svo í corregimientos í dreifbýli og comunas í þéttbýli. Hvert hérað er með héraðsstjóra og héraðsþing sem eru kosin í beinum kosningum til fjögurra ára. Hvert sveitarfélag er með sveitarstjórn og sveitarstjóra sem kosin eru í beinni kosningu. Auk þess eru corregimientos og comunas með sín eigin kjörnu þing.

Auk höfuðborgarinnar eru fjórar aðrar borgir með sérstaka stöðu sem umdæmi vegna sérstöðu. Þetta eru Barnquilla, Cartagena, Santa Marta og Buenaventura. Sum héruð hafa sínar eigin stjórnsýslueiningar þar sem er mikið þéttbýli og borgir samliggjandi (til dæmis í Antioquia og Cundinamarca). Þar sem aftur er mikið dreifbýli, eins og í Amazonas, Vaupés og Vichada, eru aðrar sérstakar stjórnsýslueiningar eins og héraðs-corregimientos (blanda af sveitarfélagi og corregimiento).

Hérað Höfuðstaður
1 Flag of the Department of Amazonas Amazonas Leticia
2 Flag of the Department of Antioquia Antioquia Medellín
3 Flag of the Department of Arauca Arauca Arauca
4 Flag of the Department of Atlántico Atlántico Barranquilla
5 Flag of the Department of Bolívar Bolívar Cartagena
6 Flag of the Department of Boyacá Boyacá Tunja
7 Flag of the Department of Caldas Caldas Manizales
8 Flag of the Department of Caquetá Caquetá Florencia
9 Flag of the Department of Casanare Casanare Yopal
10 Flag of the Department of Cauca Cauca Popayán
11 Flag of the Department of Cesar Cesar Valledupar
12 Flag of the Department of Chocó Chocó Quibdó
13 Flag of the Department of Córdoba Córdoba Montería
14 Flag of the Department of Cundinamarca Cundinamarca Bogotá
15 Flag of the Department of Guainía Guainía Inírida
16 Flag of the Department of Guaviare Guaviare San José del Guaviare
17 Flag of the Department of Huila Huila Neiva
Hérað Höfuðstaður
18 Flag of La Guajira La Guajira Riohacha
19 Flag of the Department of Magdalena Magdalena Santa Marta
20 Flag of the Department of Meta Meta Villavicencio
21 Flag of the Department of Nariño Nariño Pasto
22 Flag of the Department of Norte de Santander Norte de Santander Cúcuta
23 Flag of the Department of Putumayo Putumayo Mocoa
24 Flag of the Department of Quindío Quindío Armenia
25 Flag of the Department of Risaralda Risaralda Pereira
26 Flag of the Department of San Andres, Providencia and Santa Catalina San Andrés, Providencia
og Santa Catalina
San Andrés
27 Flag of the Department of Santander Santander Bucaramanga
28 Flag of the Department of Sucre Sucre Sincelejo
29 Flag of the Department of Tolima Tolima Ibagué
30 Flag of the Department of Valle del Cauca Valle del Cauca Cali
31 Flag of the Department of Vichada Vaupés Mitú
32 Flag of the Department of Vichada Vichada Puerto Carreño
33 Flag of Bogotá Bogotá Bogotá

Íbúar[breyta | breyta frumkóða]

Kólumbía er 3. fjölmennasta ríki Rómönsku Ameríku, á eftir Brasilíu og Mexíkó, með um 48 milljónir íbúa. Í upphafi 20. aldar var íbúafjöldi Kólumbíu um 4 milljónir. Frá því snemma á 8. áratug 20. aldar hefur fæðingar- og dánartíðni minnkað og hægst á fjölgun íbúa. Árið 2016 er fjölgunin talin vera um 0,9%. 26,8% íbúa eru undir 15 ára aldri, 65,7% milli 15 og 64 ára og 7,4% 65 ára og eldri. Hlutfall eldri íbúa er farið að aukast verulega. Talið er að íbúar Kólumbíu verði um 55,3 milljónir árið 2050.

Stærstur hluti íbúa býr í borgum í Andesfjöllum og við Karíbahafsströndina. Þéttbýli er líka mest í Andesfjöllum. Í níu láglendishéruðum í austurhluta landsins, sem ná yfir 54% af flatarmáli landsins, búa innan við 6% íbúa. Kólumbía var áður sveitasamfélag en þéttbýlisvæðing var hröð um miðja 20. öld og landið er nú eitt það þéttbýlasta í Rómönsku Ameríku. Íbúar í þéttbýli voru 31% landsmanna árið 1938 en voru orðnir um 60% árið 1973. Árið 2015 var talið að 76% byggju í þéttbýli. Íbúum Bogotá hefur fjölgað úr 300.000 árið 1938 í um 8 milljónir í dag. 72 borgir eru með meira en 100.000 íbúa. Árið 2012 var fjöldi vegalauss fólks innan eigin lands mestur í heimi í Kólumbíu, eða 4,9 milljónir.

Lífslíkur voru 74,8 ár árið 2015 og barnadauði 13,1 á 1000 íbúa árið 2016. Árið 2015 voru 94,58% fullorðinna og 98,66% ungmenna læs. Kólumbía ver 4,49% vergrar landsframleiðslu í menntun.

Tungumál[breyta | breyta frumkóða]

99,2% íbúa Kólumbíu tala spænsku. Auk spænsku eru 65 indíánamál, tvö kreólamál, romaní og kólumbískt táknmál töluð í landinu. Enska nýtur opinberrar stöðu á eyjunum San Andrés, Providencia og Santa Catalina.

Í gagnagrunninum Ethnologue eru 101 tungumál skráð í Kólumbíu, fyrir utan spænsku. Nákvæm tala er dálítið á reiki því sumir höfundar skrá mállýskur sem aðrir telja sérstök tungumál. Algengt er að tala um 71 tungumál sem töluð eru í landinu í dag - flest úr málaættunum chibcha-mál, tukanóamál, bora-witoto-mál, guajiboa-mál, aravakamál, karíbamál, barbakómál og salíbamál. Í dag tala um 850.000 manns frumbyggjamál.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Natural regions of Colombia and description of the three branches of the andes cordillera“. colombia-sa.com. Sótt 7. mars 2014.
 2. 2,0 2,1 „Maritime borders“. cancilleria.gov.co.
 3. „The Republic of Colombia shares land borders with five (5) countries“. cancilleria.gov.co.
 4. „Colombia is part of the Ring of Fire“ (spænska). seisan.ingeominas.gov.co. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. mars 2014. Sótt 7. mars 2014.
 5. 5,0 5,1 „Distribution of the population by regions“. geoportal.dane.gov.co. Afrit af upprunalegu geymt þann 17 júní 2016. Sótt 17. júní 2016.
 6. 6,0 6,1 „Population density of Colombia“. geoportal.dane.gov.co. Afrit af upprunalegu geymt þann 17 júní 2016. Sótt 17. júní 2016.
 7. „Hydrography of Colombia“. colombia-sa.com. Sótt 7. mars 2014.
 8. „Dirección de Parques Nacionales Naturales de Colombia“ (spænska). Afrit af upprunalegu geymt þann 5 mars 2016. Sótt 15. nóvember 2015.
 9. „Change in forest area, 1990/2011 (%)“. undp.org. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. febrúar 2015. Sótt 18. febrúar 2015.
 10. Grantham, H. S.; Duncan, A.; Evans, T. D.; Jones, K. R.; Beyer, H. L.; Schuster, R.; Walston, J.; Ray, J. C.; Robinson, J. G.; Callow, M.; Clements, T.; Costa, H. M.; DeGemmis, A.; Elsen, P. R.; Ervin, J.; Franco, P.; Goldman, E.; Goetz, S.; Hansen, A.; Hofsvang, E.; Jantz, P.; Jupiter, S.; Kang, A.; Langhammer, P.; Laurance, W. F.; Lieberman, S.; Linkie, M.; Malhi, Y.; Maxwell, S.; Mendez, M.; Mittermeier, R.; Murray, N. J.; Possingham, H.; Radachowsky, J.; Saatchi, S.; Samper, C.; Silverman, J.; Shapiro, A.; Strassburg, B.; Stevens, T.; Stokes, E.; Taylor, R.; Tear, T.; Tizard, R.; Venter, O.; Visconti, P.; Wang, S.; Watson, J. E. M. (2020). „Anthropogenic modification of forests means only 40% of remaining forests have high ecosystem integrity - Supplementary Material“. Nature Communications. 11 (1): 5978. doi:10.1038/s41467-020-19493-3. ISSN 2041-1723. PMC 7723057. PMID 33293507.
 11. „Table 1: Total Renewable Freshwater Supply, by Country“. worldwater.org.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.