Albert Uderzo
Albert Uderzo árið 2012. | |
Fæddur: | 25. apríl 1927 Fismes, Frakklandi |
---|---|
Látinn: | 24. mars 2020 (92 ára) Neuilly-sur-Seine, Frakklandi |
Starf/staða: | Myndasöguhöfundur |
Þjóðerni: | Franskur |
Þekktasta verk: | Ástríkur og víðfræg afrek hans |
Undirskrift: |
Albert Uderzo eða Alberto Aleandro Uderzo (25. apríl 1927 – 24. mars 2020) var franskur myndasöguhöfundur og teiknari. Uderzo er þekktastur fyrir að teikna og síðar semja einnig myndasögurnar um Ástrík gallvaska sem hann skapaði ásamt teiknaranum René Goscinny. Uderzo kom einnig að gerð annarra myndasöguflokka ýmist í samstarfi við Goscinny félaga sinn eða aðra.
Ævi og störf
[breyta | breyta frumkóða]Albert Uderzo fæddist í Marne-héraði, fjórða barn ítalskra innflytjenda. Hann fæddist með sex fingur á hvorri hönd, en auka fingurnir voru fjarlægðir með skurðaðgerð á unga aldri.
Snemma bar á tæknihæfileikum Uderzo, sem var eina námsgreinin í skóla sem hann stóð sig vel í. Í ljós kom að hann var litblindur sem olli því að hann hélt sig fremur við blýantsteikningu en að mála með litum.
Leiðir Uderzo og René Goscinny lá saman árið 1951 og urðu þeir þegar perluvinir. Árið eftir sendu þeir frá sér fyrstu bókina um Jehan Pistolet, gamansöm ævintýri um ungan sjóræningja. Þær urðu fjórar talsins. Síðar bjuggu þeir til fjórar bækur um Luc Junior, ungan blaðamann og æsileg ævintýri hans. Árið 1958 kynntu þeir svo til sögunnar Oumpah-pah, ungan indíána á slóðum franskra landnema í Norður-Ameríku átjándu aldar. Sá sagnaflokkur varð að mörgu leyti fyrirmynd af sögunum um Ástrík gallvaska.
Árið 1959 var nýju myndasögublaði Pilote ýtt af stokkunum í Frakklandi. Goscinny var aðalritstjóri og Uderzo listrænn ritstjóri hins nýja blaðs, sem laðaði til sín marga efnilegustu frönsku og belgísku myndasöguhöfunda þess tíma. Ritstjórnarstefna blaðsins var frábrugðin fyrri myndasögublöðum enda markhópurinn eldri en tíðkast hafði.
Ástríkur gallvaski var kynntur til sögunnar þegar í fyrsta tölublaði Pilote og sló þegar í gegn. Uderzo kom að ritun annars vinsæls myndasöguflokks í blaðinu, Michel Tanguy ásamt Jean-Michel Charlier, þar voru spennusögur um orrustuflugkappa sem teiknaður var í raunsæisstíl.
Gríðarlegar vinsældir Ástríksbókanna urðu til þess að Uderzo tók í vaxandi mæli að helga sig gerð þeirra. Árið 1977 féll Goscinny frá langt fyrir aldur fram og ákvað Uderzo í kjölfarið að taka að sér handritsgerðina líka. Hann samdi og teiknaði átta Ástríksbækur einn síns liðs, þá síðustu árið 2005. Undir lokin hafði þó verulega dregið úr afköstunum og liðu mörg ár á milli bóka, sem almennt voru taldar fyrri bókum sagnaflokksins langt að baki.
Uderzo hafði margoft lýst því yfir að ekki yrðu samdar nýjar Ástríkssögur þegar hann legði pennan á hilluna. Árið 2011 féllst hann þó á að fela nýjum mönnum að taka við keflinu. Hann lést árið 2020 í miðjum COVID-19 faraldrinum og hermdu fyrstu fréttir að það hefði verið dánarorsökin, en fjölskyldan bar þær fregnir til baka.
Einkahagir
[breyta | breyta frumkóða]Albert Uderzo kvæntist Ödu Milani árið 1953. Þau áttu eina dóttur, Sylvie Uderzo, sem stýrði ásamt eiginmanni sínum útgáfufyrirtæki listamannsins sem fór með höfundarréttinn að Ástríki. Árið 2007 sagði Uderzo þeim upp störfum og seldi sinn hlut í fyrirtækinu. Það leiddi til harðra deilna milli feðginanna sem rataði í dómssali þar sem Uderzo sakaði dóttur sína og tengdason um andlegt ofbeldi, en þau sökuðu hann á móti um ærumeiðingar og létu að því liggja að ónafngreindir aðilar væru að misnota sér ástand og aldur listamannsins. Að lokum náðist þó dómsátt milli fylkinga.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Albert_Uderzo“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 1. okt 2020.