Íran

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Íslamska lýðveldið Íran
جمهوری اسلامی ایران
Jomhuri-ye Eslami-ye Iran
Fáni Írans Skjaldarmerki Írans
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Sjálfstæði, frelsi, íslamska lýðveldið
(persneska: Esteghlâl, âzâdi, jomhoorie eslâmi)
Þjóðsöngur:
Sorood-e Melli-e Jomhoori-e Eslami
Staðsetning Írans
Höfuðborg Teheran
Opinbert tungumál persneska
Stjórnarfar Íslamskt lýðveldi

Leiðtogi Ali Khamenei
Forseti Ebrahim Raisi
Stofnun
 • Medaveldið um 678 f.o.t. 
 • Akkamenídar 550 f.o.t. 
 • Parþaveldið 247 f.o.t. 
 • Sassanídar 224 
 • Buyídar 934 
 • Safavídar 1501 
 • Afsjarídar 1736 
 • Zand-ætt 1751 
 • Kadjar-veldið 1796 
 • Pahlavi-ætt 15. desember 1925 
 • Bylting 11. febrúar, 1979 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
17. sæti
1.648.195 km²
1,63
Mannfjöldi
 • Samtals (2019)
 • Þéttleiki byggðar
17. sæti
83.183.741
48/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 1.007 millj. dala (18. sæti)
 • Á mann 11.963 dalir (66. sæti)
VÞL (2019) 0.783 (70. sæti)
Gjaldmiðill íranskt ríal (ریال) (IRR)
Tímabelti UTC+3:30 (+4:30 á sumrin)
Þjóðarlén .ir
Landsnúmer +98

Íran (persneska ایران, opinbert heiti Íslamska lýðveldið Íran) er land í Mið-Austurlöndum með landamæri að Aserbaísjan, Armeníu og Túrkmenistan í norðri, Pakistan og Afganistan í austri, Tyrklandi og Írak í vestri og strandlengju að Persaflóa í suðri og Kaspíahafi í norðri. Íran er eina landið sem á bæði land að Kaspíahafi og Indlandshafi. Þótt landið hafi verið kallað Íran að minnsta kosti frá tímum Akkamenída var það allt til ársins 1935 nefnt gríska nafninu Persía á Vesturlöndum. Árið 1959 tilkynnti Múhameð Resa Pahlavi að bæði nöfnin skyldu notuð. Árið 1979 var gerð bylting í landinu sem leiddi til klerkastjórnar Ayatollah Khomeinis og stofnunar íslamska lýðveldisins Íran (جمهوری اسلامی ایران). Nafnið Íran þýðir „land aríanna“.

Eitt af elstu menningarríkjum heims, Elam, varð til í Íran og hóf að myndast um 3200 f.Kr. Árið 625 f.Kr. stofnuðu Medar hið fyrsta af mörgum keisaradæmum í sögu Írans og eftir það varð landið ríkjandi menningarlegt afl í sínum heimshluta. Það náði hátindi sínum með veldi Akkamenída sem Kýros mikli stofnaði um 550 f.Kr. Þá náði ríkið frá Indusdal í austri að Þrakíu og Makedóníu í vestri. Þetta heimsveldi hrundi í kjölfar landvinninga Alexanders mikla árið 330 f.Kr. Eftir það risu þar veldi Parþa og síðar Sassanída. Múslimar lögðu landið undir sig árið 651 og Íslam tók þá við af manikeisma og sóróisma sem ríkjandi trúarbrögð. Árið 1501 hófst veldi Safavída sem studdu tólfungaútgáfu íslam. Eftir persnesku stjórnarskrárbyltinguna 1906 var fyrsta þing Írans stofnað og þingbundin konungsstjórn tók við. Í kjölfar stjórnarbyltingar sem Bretar og Bandaríkjamenn studdu árið 1953 varð stjórn landsins í vaxandi mæli alræðisstjórn. Óánægja með stjórnina og erlend áhrif leiddi til írönsku byltingarinnar og stofnunar íslamsks lýðveldis árið 1979.

Íran býr yfir miklum olíuauðlindum og á stærstu gaslindir heims. Olíuiðnaður landsins stendur undir 15% af vergri landsframleiðslu og 45% af tekjum ríkisins. Landið er stofnaðili að Samtökum olíuframleiðsluríkja, Samtökum hlutlausra ríkja og Samtökum um íslamska samvinnu. Stjórnarfar landsins er blanda af lýðræði og klerkastjórn þar sem æðstiklerkur hefur mikil pólitísk áhrif. Íran er annað fjölmennasta ríki Mið-Austurlanda og 17. fjölmennasta ríki heims með yfir 77 milljónir íbúa. Íran er fjölmenningarríki en Persar eru rúm 60% þjóðarinnar. Að auki búa þar Aserar, Kúrdar, Mazanderar og Lúrar.[1] Persneska er opinbert tungumál landsins og sjía íslam er ríkistrú.

Stjórnsýslueiningar og borgir[breyta | breyta frumkóða]

Íran er skipt í fimm landshluta sem aftur skiptast í 31 fylki (ostān). Yfir hverju fylki er skipaður landstjóri (ostāndār). Fylkin skiptast í sýslur (shahrestān) sem aftur skiptast í umdæmi (bakhsh) og undirumdæmi (dehestān).

Íran er það land í heiminum þar sem þéttbýlisvæðing er hvað hröðust. Frá 1952 til 2002 óx hlutfall íbúa í þéttbýli úr 27% í 60%. Samkvæmt spá Sameinuðu þjóðanna munu 80% íbúa búa í þéttbýli árið 2030. Þær borgir sem vaxið hafa hraðast eru Teheran, Isfahan, Avaz og Qom. Íbúafjöldi í Teheran er um 8,1 milljón. Borgin er bæði efnahagsleg og stjórnsýsluleg höfuðborg landsins auk þess að vera miðstöð samskipta og fólksflutninga.

Önnur stærsta borg Írans er Mashhad með um 2,7 milljón íbúa. Hún er helg borg meðal sjíamúslima því þar er helgidómur Reza. Á milli 15 og 20 milljónir pílagríma heimsækja borgina árlega.

Þriðja stærsta borgin er Isfahan með um 1,7 milljón íbúa. Isfahan var höfuðborg Persaveldis Safavída og átti sitt blómaskeið á 17. og 18. öld. Þar er mikið af sögulegum minjum. Í Isfahan er ein stærsta verslunarmiðstöð heims, Isfahan City Center.

Fjórða stærsta borg landsins er iðnaðarborgin Karaj með um 1,6 milljón íbúa. Borgin stendur við rætur Alborzfjalla. Þar eru stórar verksmiðjur sem framleiða vefnaðarvöru, sykur, stálvíra og áfengi.

Tabriz er fimmta stærsta borg landsins með um 1,4 milljón íbúa. Borgin var fyrsta höfuðborg Safavída. Tabriz er önnur stærsta iðnaðarborg landsins á eftir Teheran og var önnur fjölmennasta borgin fram undir lok 7. áratugarins.

Sjötta stærsta borg Írans er Shiraz með um 1,4 milljón íbúa. Hún er höfuðborg Farsfylkis. Hún var höfuðborg landsins á valdatíma Zandættar frá 1750 til 1794. Rústir tveggja helstu borga Persaveldis, Persepólis og Pasargadae er að finna í nágrenni borgarinnar.

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Íran er 18. stærsta land heims, 1.648.195 km² að stærð. Það liggur á milli 24. og 40. breiddargráðu norður og 44. og 64. lengdargráðu austur. Íran á landamæri að Aserbaísjan, Armeníu og útlendunni Naxcivan í norðvestri, Kaspíahafi og Túrkmenistan í norðri, Afganistan og Pakistan í austri og Tyrklandi og Írak í vestri. Landið á strönd að Persaflóa og Ómanflóa í suðvestri og suðri.

Íran liggur aðallega á Írönsku hásléttunni nema við Kaspíahaf og í héraðinu Khuzestan í vestri. Landið er eitt það fjalllendasta í heimi og margir fjallgarðar skipta hásléttunni upp. Flestir þeirra eru í vesturhlutanum sem jafnframt er þéttbýlasti hlutinn. Þar eru Kákasusfjöll, Zagrosfjöll og Alborzfjöll. Hæsti tindur Írans er Damavandfjall sem rís 5610 metra yfir sjávarmáli. Það er jafnframt hæsta fjall Evrasíu vestan við Hindu Kush.

Í norðurhluta Írans eru þéttir regnskógar, Hyrkaníuskógarnir. Í austurhlutanum eru aðallega eyðimerkur eins og salteyðimörkin Dasht-e Kavir. Þar er að finna saltstöðuvötn. Þar eru fjöllin svo há að regnský ná ekki yfir þau.

Einu stóru slétturnar er að finna við strönd Kaspíahafs og norðurströnd Persaflóa þar sem landamæri Írans og Íraks liggja við ána Arvand Rood. Minni sléttur er að finna við strönd Persaflóa, við Hormússund og Ómanflóa.

Dýralíf[breyta | breyta frumkóða]

Mörg stór spendýr finnast í Íran, þar á meðal bjarndýr, gasellur, villisvín, úlfar, sjakalar, hlébarðar, gaupur og refir. Íranskir bændur rækta hesta, kindur, geitur, vatnabuffla, asna og drómedara. Meðal fugla sem lifa í Íran eru fasanar, lynghænur, storkar, ernir og fálkar.

Eitt frægasta spendýr Írans er asíublettatígur sem er í bráðri útrýmingarhættu. Stofninn hrundi eftir írönsku byltinguna 1979. Persneskur hlébarði er stærsta undirtegund hlébarða og lifir aðallega í norðurhluta landsins. Hann er líka í útrýmingarhættu. Áður lifðu asíuljón og kaspíahafstígur í landinu en þeim var útrýmt snemma á 20. öld.

Að minnsta kosti 74 tegundir lífvera í Íran eru á rauðum lista Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna. Iðnaðarþróun, vaxandi þéttbýli og námavinnsla ógna líffræðilegri fjölbreytni landsins. Íransþing hefur ítrekað heimilað nýtingu náttúruauðlinda án tillits til áhrifa þess á náttúru og dýralíf.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Iran“. The World Factbook. Central Intelligence Agency (United States). Sótt 24. maí 2018.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu